Beint í efni

Þýsk sálumessa

Þýsk sálumessa
Höfundur
Philip Kerr
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Bernie Gunther, fyrrum einkaspæjari, lögreglumaður og uppgjafarhermaður, dregur fram lífið við eymdaraðstæður í rústum höfuðborgar Þýskalands eftir seinni heimsstyrjöld. Borginni er skipt upp í hernámssvæði og Bernie þarf að eiga samskipti við herstjórnir af ýmsu þjóðerni, þar sem Rússarnir eru varasamastir, en Bernie kann hrafl í rússnesku eftir veru sína á austurvígstöðvunum og getur bjargað sér. Bernie tekur að sér rannsókn máls, en óheppilegt mannslát gerir honum óvært í borginni, eiginkonan reynist ótrú og honum býðst óvænt verkefni suður í Vínarborg. Allt verður þetta til þess að hann rær á ný mið. En í Vín leynast engu að síður hættur við hvert fótmál; fláráðir herforingjar, laumunasistar í felum og huggulegt jafnt sem hættulegt kvenfólk. Og í bígerð í bakgrunninum er undirbúningur á töku hinnar frægu kvikmyndar, Þriðji maðurinn …

Þriðja bókin í seríunni um einkaspæjarann Bernie Gunther.

Helgi Ingólfsson íslenskaði.

Úr bókinni

  Ég var bara einn af fjölmörgum úr lögregluliðinu sem kvaddur hafði verið í liðshóp Nebes, er átti að fylgja eftir Wehrmacht, þýska hernum, inn í Hvíta-Rússland til að berjast við lögbrjóta og hryðjuverkamenn af hvað tagi sem væri. Embættisskyldur mínar á vegum hópsins í höfuðstöðvunum í Minsk höfðu falist í því að ná yfirráðum yfir skjalageymslum hinnar rússnesku NKVD þar, sem og í handtöku aftökusveitar NKVD sem hafði stráfellt hundruð hvít-rússneska fanga nánast handahófskennt. Síðar kom í ljós að megintilgangur þessara aðgerðarhópa, Einsatzgruppen, var ekki að berjast við hryðjuverkamenn, heldur að útrýma gyðingum kerfisbundið.

  Öll mín fjögur ár í herþjónustu í fyrri heimstyrjöldinni hafði ég aldrei séð neitt sem lagðist jafn þungt á sálina eins og það sem ég varð vitni að sumarið 1941. Þótt mér væri ekki persónulega falið það hlutverk að hafa yfirumsjón með neinni fjöldaaftökusveit sá ég að það væri eingöngu tímaspursmál þar til mér yrði fyrirskipað slíkt verk og síðan - óhjákvæmilega sem fylgifiskur þess að ég myndi neita því - að ég yrði skotinn fyrir að óhlýðnast skipunum. Þannig að ég bað um fyrirvaralausan flutning í starfi yfir í Wehrmacht og fór beint í fremstu víglínu.

(s. 94-95)

 

 

Fleira eftir sama höfund