Af bókarkápu:
Tryggðarpantur lýsir sambúð fjögurra kvenna í borg sem er full af fólki, innfæddum og aðkomumönnum. Þetta er áleitin og grátbrosleg saga þar sem teflt er saman ólíkum heimum og spurningum varpað fram um lífsgildi, lífsviðhorf – og lífsblekkingu.
Úr Tryggðarpanti:
Konurnar hörkuðu allar. Strax á fyrstu dögum sambúðarinnar hafði hvarflað að Gísellu að bjóðast til þess að létta undir með þeim: Elda annað slagið og kaupa í matinn. Já - eða gæta smástelpunnar. En svo minntist Gísella þess að hún varð að horfa kalt á hlutina. Harkið var ekki hennar höfuðverkur. Hún varð að horfa hlutlaust á konurnar og tilveru þeirra, enda gátu margs konar vandamál skotið upp kollinum; því miður hafði hún ekki efni á því að kynnast þeim meira en góðu hófi gegndi - ef svo færi að þær yrðu vinkonur hennar gæti hún auðveldlega glatað virðingu sem húsráðandi með þeim afleiðingum að heimilishaldið leystist upp í óreiðu.
Í rauninni hafði hún gert góðverk með því að bjóða þeim að flytja inn til sín. Í besta falli gæti hún boðist til að gæta smástelpunnar ... það var öðruvísi en að létta heimilisverkum af konunum. Hún gæti haldið fjarlægð frá móðurinni þó að smástelpan fengi að vera heima annað slagið í stað þess að slæpast um bæinn. Það væri huggulegt að hafa hana stundum heima. Já, sambýlið dýpkaði lífið.
(s. 104-105)