Höfundur: Geoff Rodkey
Um bókina
Tvíburar takast á – stríðið er hafið! segir af viðureign tvíburanna Kládíu og Rökkva.
Erjurnar byrja sem sakleysislegur hrekkur í matsal skólans en þegar átökin hafa stigmagnast í allsherjarstyrjöld (á plánetunni Amigo í tölvuleiknum FrumVeldi) þurfa systkinin að gera upp við sig hvort sigur sé virkilega fórnanna virði. Sagan er sett fram eins og munnleg frásögn tvíburanna og vina þeirra. Heimildir eru m.a. ljósmyndir, skjámyndir, spjallsamræður og sms-skilaboð milli foreldra þeirra.
Tvíburarnir Rökkvi og Kládía eru aðalpersónur glænýs bókaflokks eftir Geoff Rodkey. Rodkey er þekktastur fyrir að hafa samið handrit að nokkrum þekktum gamanmyndum en þetta er fyrsta bókin sem er þýdd eftir hann á íslensku.
Úr bókinni
Afsakið mig. Mér þykir leitt að ég skuli sífellt trufla kaflann hans Rökkva. Því ég vil síður vera vond við greindarskertan bróður minn. En það sem hann er að segja er algjörlega fáránlegt.
Í fyrsta lagi grunaði mig hvorki eitt né neitt. Ástæðan fyrir því að bakpokinn minn var hvergi sjáanlegur er sú að ég er ábyrgðarfull manneskja sem gengur snyrtilega frá hlutum. Bakpokinn minn er ALDREI einhvers staðar í reiðuleysi.
Í öðru lagi var Rökkvi ALLS EKKI rólegur. Engan veginn.
Hann ruddist inn í herbergið mitt, allur uppspenntur með poka frá Zabar í höndunum. Þegar hann sá mig snarstoppaði hann ringlaður líkt og dádýr á þjóðvegi.
Síðan öskraði hann: "HVAZZZEEEEGIIIRÚÚÚN!" og hljóp rakleiðis út aftur.
Í framhaldi af því rökræddi ég dálítið við sjálfa mig ... með sjálfri mér.
Annars vegar datt mér í hug að í pokanum frá Zabar væri eitthvað ógeðslegt og illa lyktandi sem Rökkvi hafði hugsað sér að fela í herberginu mínu, eða kannski bakpokanum mínum. Þrátt fyrir að Rökkvi sé ekki hæsta mannvitsbrekka sinnar kynslóðar áti ég hins vegar bágt með að trúa að hann gæti verið svo ótrúlega glataður og ófrumlegur að hefna sín með því að gera NÁKVÆMLEGA það sama og ég.
Þess vegna ákvað ég að leggja fyrir hann dálítið próf. Ég gægðist inn til hans og sagði: "Ég ætla í búðina. Vantar þig eitthvað?"
Ef hann hefði agnarögn af heila í höfðinu hefði honum þótt þetta verulega grunsamlegt.
Síðan fór ég út í tíu mínútur.
(s. 71-72)