Úr Vetrarferðinni:
Sigurgestur fór í vasa sinn, tók upp bíllyklana og rétti Sigrúnu og sagði með þunga: - Sigrún, þú skalt fara með strákana inn í bílinn og læsa að ykkur og ekki bíða eftir að þeir roti mig. Nú skaltu hlýða mér þó ekki sé nema í þetta eina sinn!
Hann litaðist um. Gengilbeinan stóð í eldhúsdyrunum og starði til þeirra með hræðslusvip. – Ég hringi á lögregluna, sagði hún.
Bandaríkjamennirnir biðu hans á malarplaninu. Hann gekk niður tröppurnar, klæddi sig úr jakkanum og lagði hann frá sér á handriðið. Hann rykkti á derhúfunni og gekk út á planið til móts við þá og bar fyrir sig hendurnar. Hann sá ekkert nema mennina þrjá. Þetta var eins og að vera í hringnum, stundin þegar salurinn hverfur manni og ekkert að sjá nema andstæðingurinn, hvergi í veröldinni var til einmanalegri staður. Hver þeirra vildi reyna sig fyrstur? Hann ætlaði sér að tína þá niður einn af öðrum eins og hænsnfugla. Hermennirnir höfðu ekki hugsað sér að standa þannig að bardaganum. Þeir réðust á hann allir í einu með kýlingum og spörkum. Hann hörfaði. Hann varð bæði hissa og sár yfir þessari óíþróttamannslegu framkomu og svipurinn hlaut að sýna það vegna þess að einn þeirra hló að honum. Nú var allt undir því komið að reiðast ekki. Hafa stjórn á skapi sínu eins og þjálfarinn ráðlagði. Sá tapar sem verður vondur þegar hann boxar.
Þeir sóttu að honum aftur. Nú ætlaði hann sér að standa öðruvísi að málum. Ganga fyrst frá þeim sem illvígastur var í þeim tilgangi að hræða hina. Gera það eins hrottalgea og honum var unnt. Ekki sparka í klofið á honum, þeir reiknuðu með því. Sparka í hnéð, reyna að mölva hnéskelina. Hann sparkaði í hnéskelina á litla manninum og þegar hann hnipraði sig saman af kvölum sló hann strax undir hökuna og rotaði hann. Hinir tveir réðust að honum, rumurinn og sá bólugrafni, en þeim var brugðið. Þeir slógu báðir og spörkuðu. Sigurgestur dansaði frá þeim og í kringum þá með lipurlegum fótaburði til þess að stía þeim sundur og kom þungu höggi í maga þess bólugrafna sem féll saman og hélt báðum höndum um kviðinnn. Þar lá sá. Nú var leikurinn jafn, hinn bar fyrir sig hendurnar og kýldi frá sér ótt og títt, en það voru vindhögg. Sigurgestur beygði sig eldsnöggt og heyrði þjóta yfir höfðinu. Maðurinn var þungur og stór en hann rotaði hann með þéttu og öruggu höggi á gagnaugað og sneri sér við eins og leiftur og gekk frá þeim bólugrafna sem var að brölta á fætur með vinstrihandarhöggi sem hann fann að nefbraut manninn. Þar með lágu þeir allir þrír í mölinni. Hann barðist við löngunina að sparka í þá liggjandi. Bardaginn hafði tæpast staðið lengur en tvær mínútur. Húfan hans lá í mölinni. Hann teygði sig eftir henni og hagræddi henni á höfðinu, klæddi sig svo í jakkann með hægð og sá að fjölskyldan stóð á tröppunum og horfði á. Hann vissi ekki hvort hann átti fremur að finna til reiði yfir óhýðni Sigrúnar eða hamingju yfir sigri sínum.
- Löggan er á leiðinni, sagði þjónustustúlkan.
- Ja, þar fór í verra, blés Sigurgestur. – Þá held ég að það sé best að ég komi mér. Við höfum þetta okkar á milli. Ég nenni engri rekistefnu við lögregluna.
- Já, já, sagði hún. – Þú getur treyst því. En þú gerðir ekkert annað en að verja þig.
- Ég vil samt ekki lenda inni á einhverjum skýrslum eins og vandræðamaður eða kanamella, sagði hann og glotti.
Svo ávítaði hann Sigrúnu fyrir óhlýðnina.
(s. 19-21)