Beint í efni

Vonarlandið

Vonarlandið
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur

 Um Vonarlandið

Þær koma fótgangandi til Reykjavíkur, tvær vinkonur, í von um að fá vist í góðu húsi. Verða samt að byrja í þvottum, saltfiski og kolaburði – þeirri vinnu sem konur eiga kost á til að sjá sér farborða. Lífið er strit. þó vilja þær heldur strita og ráða sér sjálfar í kaupstaðnum en vera öðrum háðar uppi í sveit.

Vonarlandið er Reykjavíkursaga sem gerist á seinni hluta 19. aldar, saga nokkurra alþýðukvenna sem búa saman í litlu koti og reyna að bjarga sér sem best þær geta. Áföll dynja yfir en þær kunna líka að snúa á tilveruna og brosa framan í heiminn.

Úr Vonarlandinu

Það var engu líkara en sólin gæti ekki hætt að senda geisla sína þessa vordaga. Sprettan og tíðarfarið lofaði sannarlega góðu. Guðfinna spurðist fyrir um vinnu en Stefanía var mest upptekin af því að kanna bæinn. Hún hafði svæft óttann við fyrirboðana og Margrét nefndi þá ekki aftur. Hvern dag fann Stefanía eitthvað til að dást að og togaði Guðfinnu með sér. Hún þurfti engan mat, vildi bara sjá og skoða.

Mest aðdráttarafl höfðu verslanirnar. Annan eins varning höfðu þær aldrei séð samankominn á einum stað. Þegar búðarþjónarnir spurðu hvað mætti gera fyrir frökenarnar brostu þær blíðlega og voru bara að skoða sig um. Verst þótti Stefaníu hvað þær voru illa til fara. Það var ekki von til þess að þær vektu athygli ungra manna svona útlítandi. Hún gerði það nú samt, geislaði undir slitnu sjalinu með augun tindrandi og brúnar flétturnar vafðar eins og krans um höfuðið.

Í búðunum var margt um manninn. Mest voru það karlar sem stóðu við afgreiðsluborðið, sögðu sögur og drukku, ýmsir úr staupum, aðrir úr kvartpelum. Héngu og virtist ekkert liggja á. Það brást ekki að þeir sýndu Stefaníu áhuga, sumir Guðfinnu líka. Einu sinni varð búðarþjónn að biðja þá um að stilla sig en þær sigldu út beinar í baki og tígulegar.

Eitt kvöldið gægðust þær inn í Stíuna til að átta sig betur á henni. Þaðan mátti heyra söng og gleðskap. Í sama húsi voru tvær aðrar ölstofur sem hétu Almenningur og Káeta. Önnur var tóm en í hinni voru nokkrir karlar að drekka og spjalla saman. Þeir buðu þeim sæti en þær afþökkuðu og hröðuðu sér út. Alls staðar var þykkur tóbaksreykur, þó langmestur í Svínastíunni. Þar voru líka flestir og mestur fnykurinn. Sagt var að engin sómakær kona léti sjá sig þar.

(21-2)

Fleira eftir sama höfund

Á eigin vegum

Lesa meira

Draugar vilja ekki dósagos

Lesa meira

Ängeln i trapphuset

Lesa meira

Angelas Vakaru rajone

Lesa meira

Spurgos ir karis

Lesa meira

Bjarna-Dísa

Lesa meira

Eitt tvö þrjú...

Lesa meira