Beint í efni

Að mála með orðum

Að mála með orðum
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Hrafnhildur Þórhallsdóttir

Að mála með orðum

Nærvera Gyrðis Elíassonar í heimi íslenskra bókmennta er jafn áþreifanleg og hún er hljóðlát. Þó höfundurinn sjálfur skeyti lítið um athygli og tannhjól markaðsaflanna eru verk hans þess eðlis að þau raðast sjálfkrafa í efstu hillu – hafin yfir tíma og rúm. Staðreyndin er einfaldlega sú að í landslagi skáldskaparins er Gyrðir Elíasson hluti af himninum; stöðugur, síbreytilegur, sitt eigið frumefni. Í nærri fjóra áratugi hefur hann gefið og gefið – afköstin og gæðin nær undraverð – og fengist við öll form skáldskapar auk ómetanlegra ljóðaþýðinga. Allt virðist leika í höndum hans en list hans felst kannski ekki síst í því að geta eimað bæði efni og orð í fagurfræðilegan töfradrykk þar sem heildin er stærri en summa einstakra þátta. Stíll hans er einstakur, hann er skáld sem lesandinn þekkir á einni málsgrein, og tök hans á tungumálinu slík að óhætt er að segja að fáir eru betur skrifandi á íslenska tungu í dag. Fyrir verk sín hefur hann verið tilnefndur til virtra verðlauna, bæði íslenskra og erlendra, en nú nýlega hlaut þýðing á skáldsögu hans Sorgarmarsinum tilnefningu til Médicis-verðlaunanna í Frakklandi.

Smáprósinn, sem eiginlegt form, kom inn í skrif Gyrðis þegar nokkuð var liðið á ferilinn – þó hann hefði lengi skrifað mikið af mjög stuttum sögum. Frumraunin á því sviði, Lungnafiskarnir, kom út árið 2014. Safnið er gráglettinn leikur að þessu illskilgreinanlega formi sem dansar á óræðum mærum prósaljóðs, dæmisögu, brandara, ævintýris eða furðusögu og orðaleikja. Allt þetta má í sjálfu sér merkja í skáldskap Gyrðis almennt, þvert á form, og því kannski aðeins tímaspursmál hvenær smáprósinn rataði inn í höfundarverkið.

Það var því gleðihrollur sem hríslaðist um kropp lesandans þegar nýtt smáprósasafn frá Gyrði barst með haustkulinu nú í lok október, og það í tveimur bindum; Þöglu myndirnar og Pensilskrift.  

Það fer ekki á milli mála hver mundar pennann í þessu gnægtafulla safni – titlarnir einir og sér kristalla þá einstöku myndvísi sem einkennir verk Gyrðis. Textarnir eru þó á nokkuð öðrum stað en í fyrri bókum – bókstaflega reyndar þar sem sögusviði sagnanna er óvenju skýrt skilgreint með íslenskum örnefnum. Hvort innanlandsferðalögin í Covid spili hér einhverja rullu er spurning en faraldurinn er allavega í bakgrunni nokkurra texta. Sagan „Ásjónur“ í Þöglu myndunum segir til að mynda á meinfyndinn hátt frá valdatíð hins ógnvænlega Kóvíðs keisara og potar í ýmsa auma snögga bletti. Sóttvarnargrímur hanga í trjám til vitnis um hvernig öll markmið í umhverfismálum fóru fjandans til og skotið er á skyndilegan vilja Vesturlandabúa til að hylja andlit sín – þó þeir hafi hingað til amast yfir þeirri hefð hjá öðrum þjóðum. Samtíminn birtist í fleiri textum, þarna er bruninn í Notre Dame og leikið er með orðræðu og málefni metoo-byltingarinnar í „Gaslýsingu“ og „Dúkkuheimilinu“.

Annað ríkjandi þema er svo svikult minnið en það fyrirbæri hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við bókmenntir og tráma síðustu ár. Í sjálfu sér má segja að tráma sé þema út af fyrir sig í skáldskap Gyrðis í ljósi þess að tengsl og tengslaleysi er síendurtekið umfjöllunarefni í bókum hans, eins og betur verður vikið að hér síðar. 

Titillinn Þöglu myndirnar kveikir hugrenningatengsl við fyrstu kvikmyndirnar, þar sem persónur tjá sig án þess að í þeim heyrist. Slíkar myndir koma vissulega oft upp í hugann við lesturinn. Hversdagsleg óhöpp rjúfa hárfína línu lífs og dauða og brölt okkar mannfólksins verður oft svo grátbroslegt að kómískar hetjur þöglu myndanna virðast leika listir sínar á síðunum. En hér býr meira að baki því titillinn fangar ekki aðeins stilluna í andrúmi textanna og orðleysi persóna heldur vísar ekki síður til persónulegra minninga. Í titilsögunni liggur kona í hjartasorg og hámhorfir (eins og höfundur kemst að orði) á myndir, minningar, sem hugur hennar varpar á loft svefnherbergisins. Myndunum hafði hún gleymt og skilur ekki hvernig þær nú framkallast úr óminninu – og hver tók þær fyrst hún sjálf er á þeim? Það brennur við að persónur muni alls ekki það sem skiptir máli en eigi í engum vandræðum með að rifja upp það sem litlu skiptir. Þannig er hin eiginlega saga oft handan sögunnar, utan við frásögnina. Frásagnaraðferðin er klassísk fyrir smáprósann, stílbragð sem víkkar textann, en dregur í þessu samhengi fram hliðstæðu við þá gloppóttu sögu sem ævi okkar er. Er nokkur leið að vita fyrir víst hvað er raunverulegt og hvað er ímyndun í þeirri sögu?

Frásagnarfyndni Gyrðis nýtur sín til hins ýtrasta í mörgum smámyndanna sem dregnar eru upp af kynlegum kvistum í Pensilskrift. Handrukkarinn sem hreinsar til í undirheimum Hassleysustrandar, listmálarinn sem málar ósýnileg verk í fúlustu alvöru og Ingmar Bergman á vídeóleigunni eru til vitnis um hvernig óvænt sjónarhorn höfundar gera einföldustu hluti fyndna. Á hinum enda sagnarófsins eru svo stuttir prósar á lendum ljóðsins. „Strandganga“ er augnabliksmynd sem sýnir fremur en segir mun stærri sögu en undir smásjánni er plastmengun og spilling hafsins. Bjargarleysi mannsins gagnvart þeim vanda endurspeglast í hugmyndinni um að telja handfylli af sandkornum – en til hvers að telja hið óteljanlega? Náttúran er hér, eins og oft í verkum Gyrðis, bakgrunnur tilvistar þar sem háskinn er við hvert fótmál og hreyfing og kyrrstaða togast á en einnig uppspretta kynjamynda og töfra. „Hugsað til Ionescu“ er glimrandi dæmi þar sem klettanes prýtt tveimur vitum tekur á sig mynd nashyrnings sem þá og þegar gæti rokið með okkur út í eilífðina, án þess að við fáum rönd við reist. Slíkt umkomuleysi er þema út af fyrir sig og undirstrikað í tilvísun í upphafi safnsins þar sem almættið sjálft auglýsir eftir nýju starfi – augljóslega búinn að fá nóg af því að passa börnin sín.

Að draga einstaka sögur út úr jafn ríkulegum söfnum og þeim sem hér er rýnt í þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að sýna breidd og fjölbreytni textanna. Heildaráhrifin verða til í gegnum fínlegar tengingar, þematíska og stíllega þræði milli prósanna. Tengingarnar eru aldrei augljósar, hér er ekki málað eftir númerum, og mósaíkmyndin sem teiknast upp við lesturinn er fremur skynjuð en skilin til hlítar. Í því liggur líklega seiður slíkra safna þegar best lætur og er sannarlega raunin í þessu tilviki.

Í svo knöppu formi vegur hið ósagða engu minna en það sem sagt er berum orðum og því krefst stuttur prósi, öfugt við það sem ætla mætti, mikils af athygli lesandans. Margt getur leynst á milli línanna og þó textinn virðist einfaldur á yfirborðinu er auðvelt að fara á mis við það sem opnar hann og kveikir hugrenningar. Að halda því sem mestu skiptir utan við hina eiginlegu frásögn er vandmeðfarið stílbragð sem þarf að útfæra án þess að hjá lesandanum kvikni sú tilfinning að verið sé að halda frá honum upplýsingum. Gyrðir hefur á þessu sterk tök, í hans meðförum eru eyðurnar í textanum jafn mikil uppspretta upplýsinga og merkingar og það sem er uppi á yfirborðinu. Þessa stílfærni hefur Gyrðir ekki síst fínstillt og fágað í glímu sinni við smásöguna, stóru systur smáprósans, og er hluti þeirrar ástæðu að hann þykir einhver sérstæðasti smásagnasmiður íslenskra bókmennta.


Hrafnhildur Þórhallsdóttir, nóvember 2022


Athugið að þessi umfjöllun er hluti úr lengri yfirlitsgrein Hrafnhildar um verk Gyrðis Elíassonar frá 2000-2022