Borðplatan var úr ljósum viði og virtist óskemmd þar til komið var alveg upp að henni og horft á ská. Í harðri birtunni sem barst inn um gluggann sáust glærir glashringir og daufir pastasósu- og rauðvínsblettir. Útsýnið var birkihríslur, mosi, straumhörð á og handan við ána rislágt fjall sem ég hafði á tilfinningunni að ætti frekar að heita fell, hver svo sem munurinn var á þessu tvennu.
Nýjasta saga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Aðferðir til að lifa af, hefst í ónefndu sumarbústaðalandi, sem óneitanlega minnir á þær fjöldamörgu sögur eftir íslenska höfunda sem gerast á slíkum stöðum, í helgi sumarbústaðarins. Í hugann koma sögur Gyrðis Elíassonar en ekki síður Hestvík Gerðar Kristnýjar sem kom út fyrir nokkrum árum. Það er eitthvað sérlega heillandi við þetta sögusvið því sumarbústaðalandið býr yfir töfrum og galdri; rósemd umhverfisins, nálægð við náttúruna, kjarrið, fuglarnir, skýjafarið. Sumarbústaðurinn gefur tækifæri til að virða þetta betur fyrir sér og tengjast þessum litlu fyrirbærum í náttúrunni sem við gefum ekki mikinn gaum í borginni – þegar við erum upptekin við vinnu og annað hversdagsamstur, sjáum ekki fjöllin eða sjóinn fyrir steypu og tökum ekki eins vel eftir himninum og fuglunum. Ef til vill er það sumarbústaðurinn sjálfur sem skapar þetta aðdráttarafl. Að dvelja í svo litlu og einföldu rými sem hefur samt sem áður allt sem maður þarf til að hafa það náðugt. Kannski er það lyktin sem býr í efninu, timbrinu sem sumarbústaðurinn er gerður úr eða ilmurinn af kjarrinu fyrir utan. Kannski er þetta nostalgía því sumarbústaðurinn dregur yfirleitt fram huggulegar minningar þegar fjölskyldan kemur saman og nýtur þess að slappa af, vera í fríi fjarri amstri og steypu. Já, ætli þetta sé ekki blessuð nostalgían.
En nóg um sumarbústaðalandið því meginhluti frásagnarinnar í skáldsögu Guðrúnar Evu, gerist reyndar í þorpi eða litlum kaupstað í námunda við óræða sumarbústaðalandið. Þorpið er sömuleiðis órætt en minnir á Laugarvatn eða annan stað á Suðurlandsundirlendinu. Við kynnumst nokkrum sögupersónum. Fyrst Hönnu, unglingstelpu sem heldur tímabundið til í sumarbústað ásamt móður sinni. Þá Árna, sem er í yfirvigt, kominn á örorku og hefur sest tiltölulega nýlega að í plássinu. Á hans vegi verður Aron Snær, ungur strákur sem býr í þorpinu og er einmana og vanræktur, en heima bíður hans andlega veik móðir sem virðist eiga erfitt með að komast fram úr rúminu. Aron hittir Borghildi sem býr rétt utan við bæinn og rekur gistingu fyrir ferðamenn. Borghildur hefur nýlega misst eiginmann sinn heldur sviplega en ákveður að hjálpa Aroni og móður hans.
Frásögnin hoppar á milli þessara misbreysku sögupersóna sem tengjast svo með ólíkum hætti. Frásagnaformið minnir því á bolta sem rúllar áfram, veltur frá einni sögupersónu til þeirrar næstu, en hver kafli er bundinn sjónarhorni einnar af fyrrnefndum persónum, sem segir frá eigin líf og lýsir því sem á vegi hennar verður. Þetta er látlaus stíll sem hæfir hversdagslegu viðfangsefni sögunnar, og verður nánast notalegur í meðförum höfundar, sem er afar fær í að skrifa áreynslulausan texta sem líður þægilega áfram, og virðist þar að auki eiga auðvelt með að setja sig í spor annarra, og skrifa um tilfinningalíf ólíkra persóna á sannfærandi hátt. Þá finnst mér stíllinn meitlaðri og knappari en oft áður í sögum hennar en Aðferðir til að lifa af er tiltölulega stutt saga eða innan við tvöhundruð síður.
Það er til vill full djúpt í árinni tekið að segja að mér hafi farið að leiðast hversdagsleg og áreynslulaus frásögnin þegar leið á lesturinn, en ég var sannarlega farin að vonast eftir því að eitthvað myndi gerast, helst eitthvað sem gæfi sögunni aðeins meiri dýpt og þunga. Og þá einmitt gerðist það. Uppá bankar félagslega óréttlætið sem einkennir öll samfélög og það með fremur óhugnanlegum hætti, hryllingi eiginlega, sem skapar ekki beint straumhvörf í sögunni, en verður að ákveðnum vendipunkti fyrir þema frásagnarinnar. Til að spilla ekki upplifun lesandans vil ég sem minnst segja um óhugnaðinn annað en að mér þótti hann eiga vel við og gefa frásögninni mun meira vægi, dýpt, þunga, eða hvað það er sem maður sækist eftir í góðum samtímaskáldsögum. Óhugnaðurinn opnar umræðu um heimilisofbeldi og leiðir hugann að þeirri staðreynd, sem yfirleitt fer ekki svo hátt, að flest morð á Íslandi eru framin af karlmönnum sem drepa konur, oftar en ekki konur sem þeir eiga í nánu sambandi við, til dæmis ástarsambandi. Og hér sannast það enn og aftur hvernig verkfæri óhugnaðar og hryllings henta vel í frásagnir af félagslegu óréttlæti. Augljóslega endurspeglar óhugnaður sögunnar raunverulegan hrylling, en lestrarupplifunin skapar jafnframt kvíða hjá lesandanum. Stundum jafnvel eftirvæntingu (sem er allt annar og vafasamur handleggur og efni í lærða grein) en það kvíðaástand, sem skapast við að lesa um hrylling, dregur athygli að því kvíðvænlega ástandi sem bíður utan söguheimsins. Og þrátt fyrir að saga Guðrúnar Evu myndi seint kallast hrollvekja þá vísar hún í þann heim og ástand með afar lúmskum hætti.
Með óhugnaðinn bak við eyrað get ég ekki annað en leitt hugann að titlinum, Aðferðir til að lifa af, og hvernig frásögnin af hinum ofbeldisfulla harmleik kallast á við hann, eða öllu heldur stangast fullkomlega á við hann. Ef til vill er það með ráðum gert til að draga athyglina að því hvernig fólk, eins og það sem við lesum um í sögunni, annaðhvort lifir af, eða ekki. Titillinn vekur einnig upp spurningar um þá kröfu sem verður sífellt háværari að höfundar taki pólitíska afstöðu í verkum sínum og noti skáldskapinn til að vekja fólk til umhugsunar um þá varhugaverðu tíma sem við lifum á. Hvort að sú krafa sé sanngjörn eða eigi alltaf við helst ef til vill í hendur við óþrjótandi umræðu um tengsl skáldskapar og veruleika.
Vera Knútsdóttir, nóvember 2019