Beint í efni

Aðlögunarhæfni ljóðsins

Aðlögunarhæfni ljóðsins
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þóra Sif Guðmundsdóttir

Þórdísi Gísladóttur ættu flestir bókaunnendur að þekkja enda hefur hún gefið út fjöldann allan af bókum og hlotið ýmis verðlaun fyrir skrif sín. Sjötta og nýjasta ljóðabók hennar, Aðlögun, kom út nú á dögunum og ættu aðdáendur skáldkonunnar ekki að verða fyrir vonbrigðum. Líkt og í fyrri verkum hennar skrifar hún umbúðalaust um ólíkar persónur og aðstæður sem eiga þó alltaf eitthvað sameiginlegt. Kápan er falleg og lokkandi, inni í bókinni má svo finna einstaka teikningar og myndir sem tengjast umfjöllunarefni opnunnar. Ljóðin fjalla flest um eitthvað sem flestir lesendur ættu að tengja við á einn eða annan hátt, hvort sem það er kvíði út af myglu eða að þekkja inn á nýjustu tískustrauma.

Járnaldarmenn, loðfílar og smáskilaboð

Viðfangsefni ljóðanna fer um víðan völl, eða allt frá manneskju í nútíma samfélagi yfir í að þylja upp tvö þúsund og fjögur hundruð ára gamla uppskrift járnaldarmanna og um síðustu afdrif loðfílsins. En það sem járnaldarmaðurinn, loðfíllinn og manneskjan í nútímanum eiga þó öll sameiginlegt er að hafa þurft að aðlagast til þess að komast af. Járnaldarmaðurinn aðlagar uppskriftir að því sem finna má í umhverfi sínu. Loðfíllinn verður strand á lítilli eyju og lifir þar í mörgþúsund ár, eða allt þar til honum mistekst að aðlagast og deyr út. Nútíma manneskjan hefur varla undan öllum þeim nýjunum sem hún þarf að aðalagast, það er að segja ef hún ætlar ekki að verða fyrir barðinu á „ógeðsauðmagninu“, sem er einmitt einn titillinn í bókinni. Þetta er aðlögun sem járnaldarmenn og loðfílar þurftu sem betur fer ekki að hafa áhyggjur af enda er ekki víst að þeir hefðu lifað af það sem Þórdís kallar „viðbjóðsvaldið“.

Ógeðið mótar samfélagið.

Við fæðumst öll með hæfileika til að kúgast af viðbjóði.
En það sem við kúgumst yfir er ekki meðfætt.

En það er ekki eitthvað náttúruafl sem ákvarðar hvað er inni og hvað er úti, hvað er töff og hvað er púkó, hvað er fallegt og vekur upp viðbjóð. Það er ákvarðað af samfélaginu hverju sinni og er lifandi staðall : Útlitsdýrkun hefur alltaf verið í hávegum höfð og er viðmiðið oftar en ekki tálsýn sem hin meðalmanneskja mun aldrei ná. En Þórdís bendir svo réttilega á að það vill enginn vera meðalmanneskja og því sækjumst við öll eftir einhverskonar aðalhlutverki í lífinu. Enda sýna þeir sem eru taldir í aðalhlutverkum oftar en ekki glansmynd af tilverunni.

Það er engin ástæða til að tala niður meðalmennskuna.

Þórdís kemur inn á hina mannlegu þrá að tilheyra sem fylgir þó oft og tíðum mótsagnakenndri löngun til að skera sig úr hópnum. Manneskjan eltist endalaust við að vera eins og næsti maður en vill á sama tíma vera einstök. Í ljóðinu „Kvíði“ talar hún um það hvernig það að reyna að falla í hópinn getur valdið kvíða og að tískustraumar eiga það til að bæla niður það sem gerir okkur einstök. Ef við girðum öll skyrturnar okkar í buxnastrenginn að þá verður tilveran heldur einsleit. Þetta er kannski einhvers konar hjarðhegðun hjá okkur mönnunum, að vilja ekki vekja á sér óþarfa athygli en á sama tíma viljum við skara fram úr öðrum.

Öllum líður illa

Auk aðlögunarinnar er melankólía ákveðið leiðarstef í gegnum ljóðin. En að sjálfsögðu nýtir Þórdís sinn svarta húmor og pakkar þeim inn í fyndinn gjafapappír til þess að draga stemninguna ekki of langt niður. Vangaveltur um stríð, myrkur og óumflýjanleg endalok okkar allra má finna víða í verkinu. Í ljóðinu Skömm talar hún um þá skömm sem fylgir því að ná ekki fullkomnun og hina mannlegu þörf að reyna að fegra galla, eins og að skipulagsleysi og „krumandi óreiða“ séu einfaldlega merki um miklar gáfur.

lygin um samband hirðuleysis og gáfna
dafnar af fullkomnu óréttlæti,
en gerir fólki auðveldara að dylja skipulagsleysið.

Þórdís verður seint þekkt fyrir það að sitja á skoðunum sínum, hvort sem það er í skáldskap eða á samfélagsmiðlum. Í ljóðinu „Mygla“ beinir hún athyglinni að hinum ýmsu formum lyga; hvort sem það er eigin sjálfsblekking í daglegu lífi eða „stærri lygar“ sem koma frá aðilum sem við treystum til að segja okkur satt. Við höldum alltaf í vonina um að þeir sem fari með völdin segi okkur sannleikann, eins og til dæmis hver sé í raun og veru aðal ógnin við blómlegan hagvöxt í landinu. En það er kannski í sjálfu sér enn önnur sjálfsblekkingin. Við viljum oft ekki horfast í augu við sjálfan vandann og leitum því að viðkvæmum blórabögglum til að skella skuldinni á. En það er áætlun sem mun aldrei leysa vandann. Húsið er að mygla af því að þakið lekur og sama hvað ég reyni að kenna gluggunum um að þá er það ekki að fara að leysa hið raunverulega vandamál. Í ljóðinu segir hún að ein af „stóru lygunum“ sé til dæmis þegar innflytjendum er kennt um öll vandamálin í samfélaginu, en í raun væru þeir, í þessu samhengi, gluggarnir.

Það er ástæða fyrir fúkkalykt og hún fer versnandi.

Fortíðarþráin dúkkar reglulega upp og löngun eftir einfaldari tímum. Fyrir tíma internetsins vorum við kannski ekki jafn meðvituð um það hvað við vorum úr takt við nýjustu stefnur og strauma samfélagsins og vissum því einfaldlega ekki að við værum mögulega aðhlátursefni þeirra sem vissu betur. Gott dæmi um þetta er ljóðið „Útdauði samskipta“ þar sem hún talar um ástarjátningar í fortíð og nútíð. Hér áður fyrr skrifaði fólk ástarbréf „en nú hefur bréfum á pappír verið skipt út fyrir skolaboð sem eru send úr símum“. Samfélagið ferðast svo hratt að enginn hefur tíma til þess að setjast niður og skrifa ástarbréf og sendir í stað þess skilaboð í gegnum hin ýmsu smáforrit sem munu sennilega hverfa einn daginn. Enda er ekki búið að mynda neina almennilega stefnu í varðvörslu á stafrænum samskiptum. Í dag get ég farið á Landsbókasafn Íslands og lesið ástarbréf sem skrifuð voru fyrir hundrað árum, en það er ekki víst að eftir heila öld muni einhver geta lesið ástarbréf okkar tíma. Það er synd að svo stór hluti af nútíma menningu hverfi í skýið.

Ástarbréf eiga heima á söfnum.
Fólk vill ekki nota pappír
og bréfaskriftir taka of langan tíma.


Ljóð á mannamáli

Þegar ég hugsa um Þórdísi og skáldskapinn hennar hugsa ég um ljóð sem eru fyrir alla, líka þá sem lesa ekki ljóð. Hún talar um hversdaginn á svo mannlegan hátt og segir oft og tíðum upphátt það sem maður sjálfur myndi seint þora að viðurkenna. Hún bregður ekki út af sporinu í nýjasta verki sínu og er Aðlögun stútfull af manneskjulegum ljóðum og húmor sem flestir ættu að kunna að meta. Strax í fyrsta ljóði bókarinnar tengdi ég við sögumann:

Ég er gallaða manneskjan
sem man sjaldan tölur
og þar af leiðandi ekki afmælisdaga.

Ef þú ert ekki einn að mínum allra nánustu fjölskyldumeðlimum að þá er ég ekki að fara að muna hvenær þú átt afmæli, nema jú ef ég skrifa það niður. Og þar kemur upp tengingin við titil verksins; Aðlögun. Er það að skrifa niður afmælisdaga, sem þú getur annars ekki með nokkru móti munað, eitthvað annað en aðlögun? Lífið er endalaus aðlögun; aðlögun að nýju starfi, umhverfi, fólki, tækni og samfélagslegum væntingum. Hvort er í tísku að vera í þröngum eða víðum buxum? Ég aðlaga mig með því að kaupa mér nýjar. Hvort er fólk að nota strætó eða einkabílinn? Ég kaupi mér árskort eða fylli á tankinn, eftir því sem við á. Við vitum oftast ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og því er aðlögunarhæfni manneskjunnar eitt af hennar mikilvægustu verkfærum til þess að lifa af og þetta verkfæri er skýrt leiðarstef í gegnum ljóð Þórdísar.

Óreiða mín snertir annað fólk takmarkað.
Ég skammast mín samt.

Það ríkir ákveðin óreiða í verkinu en á sama tíma er þetta heildstætt safn sem er í raun viðeigandi fyrir mannlegt eðli og ástæða þess að við höfum þurft að þróa með okkur þessa dýrmætu aðlögunarhæfni. Aðlögun er stút full af háði og ádeilu sem gæti stuðað suma lesendur, en kannski er það eingöngu vegna þess að þeir lesendur geta speglað sig of vel í ljóðunum. Þórdís drepur hér á ýmsum mikilvægum punktum sem fær lesandann til þess að hugsa og slær á létta strengi í bland við alvarleg málefni. Eins og fyrri ljóðabækur hennar ætti hvaða lesandi sem er að hafa gaman af lestri þessara ljóða.
 

Þóra Sif Guðmundsdóttir, desember 2024