Beint í efni

Ævintýralegir draumar

Ævintýralegir draumar
Höfundur
Kamilla Kjerúlf
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur,
 Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Leyndardómar Draumaríkisins, fyrsta bók Kamillu Kjerúlf, hlaut nýverið Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Sagan fjallar um hinn 11 ára gamla Davíð sem í upphafi sögunnar verður fyrir höfuðhöggi. Í kjölfarið byrjar hann að ferðast til Draumaríkisins á nóttunni meðan hann sefur. En það er eitthvað dularfullt við veru Davíðs í Draumaríkinu. Allir íbúar Draumaríkisins eru dánir og eyða nú framhaldslífinu í að búa til drauma fyrir lifendur á jörðinni. En ekki Davíð sem vaknar á hverjum morgni lifandi í rúminu sínu.

Í Draumaríkinu kynnist Davíð Sunnu, tólf ára gamalli stelpu sem býður honum með sér á draumavakt. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt með felldu í Draumaríkinu og er atburðarás sögunnar ævintýraleg og æsispennandi þar sem Davíð og Sunna reyna að leysa vandræðin sem steðja að draumlendingum og dreymendum á jörðinni. Þó engar upplýsingar liggi fyrir um fleiri bækur um ævintýri Davíðs og Sunnu frá höfundinum er augljóst á endi sögunnar að fleiri bækur eru í kortunum.

Davíð virðist vera ósköp venjulegur íslenskur drengur, hann æfir körfubolta og spilar Minecraft. Í upphafi sögunnar er Davíð óöruggur með sjálfan sig, hann dreymir um að verða góður í körfubolta en ofhugsanir og óöryggi þvælast fyrir honum. Besti strákurinn í liðinu, sem er eigingjarn á boltann, stríðir Davíð sífellt og aldrei þorir hann að svara fyrir sig. Í fyrsta draumnum sem Davíð og Sunna ferðast inn í lendir Davíð í svipuðum aðstæðum og í körfuboltaleiknum í upphafi sögunnar og frýs. Í kjölfarið er honum strítt af talandi fílum í draumnum. Sunna stendur með honum og kennir honum að takast á við hrekkjusvín.

„Þú mátt ekki leyfa þeim að tala svona við þig,“ sagði hún þegar þau voru komin hálfa leið niður stigann.
„Hvað meinarður?“
„Ég meina nákvæmlega það sem ég segi. Þú verður að svara fyrir þig, annars halda þeir áfram að stríða þér. Þú verður að sýna þeim að þú sért ekki einhver sem hægt er að ráðskast með eða særa auðveldlega. Þá láta þeir þig á endanum í friði.“ (35-36)

Sunna er uppátækjasöm, hugmyndarík og hugrökk. Þegar sögunni vindur áfram og Davíð eyðir meiri tíma með henni fara þessir eiginleikar hennar að sýna honum hvernig hann getur brotist út úr skelinni og haft áhrif á umhverfi sitt. Á endanum verða þessar breytingar á persónu Davíðs til þess að hann vinnur hetjulega baráttu sem verður til þess að gjörspilltur leiðtogi Draumaríkisins, draummaðurinn, fær makleg málagjöld.

Persónur sögunnar eru marglaga og fjölbreyttar, þær eru af öllum kynjum og ólíkum menningarheimum. Framan af er augljóst hversu óþvingað það er í atburðarásinni að persónur beri erlend nöfn eða noti persónufornafnið hán. Þessir hlutir eru bara eðlilegur hluti af söguheimnum eins og þeir eiga að vera eðlilegur hluti af raunheimum. En undir lok sögunnar eftir að Davíð sigrar draummanninn og finna þarf nýjan leiðtoga kemur í ljós að hlutirnir eru ekki jafn fullkomnir og þeir virðast. Þrátt fyrir það að lesendur hafi upplifað það að fjölbreytni og jafnrétti væri sjálfsagður hlutur í söguheimnum, bæði í Draumaríkinu og á Íslandi, kemur í ljós að leiðtogi Draumaríkisins hefur alltaf verið karlkyns. Hann er jú Draummaðurinn! Draumlendingar eiga erfitt með að kyngja því að leiðtogi þeirra geti verið kona. Allt leysist þetta farsællega og fyrsti kvenkyns leiðtogi draumlendinga tekur við stjórninni.

Kamilla nær vel að flétta inn í söguna alls konar tilfinningum, húmor, sorg, ótta og gleði. Draumarnir sem Sunna og Davíð ferðast inn í eru oft fyndnir og þar gilda ekki sömu reglur og á jörðinni. Fílar geta flogið og talað, þau sigla um á súkkulaðivatni í nammibátum og fara í ævintýralega fjársjóðsleit. En draumarnir eru líka hættulegir, ekki síst eftir að martraðaskrímslin fara að birtast oftar og oftar. Óvissa og ótti lita líf Davíðs og draumlendinganna og Davíð er oft með hugann við Draumaríkið á daginn á meðan hann dvelur í sínu eigin lífi. Draumaríkið þarf að vera leyndarmál, Sunna segir að enginn á jörðinni megi vita af tilvist þess. Leyndarmálið fer að naga Davíð og það verður til þess að foreldrar hans og Jakub, besti vinur hans hafa áhyggjur af honum. Það er því þungri byrði létt af Davíð þegar Jakub kemst að leyndarmálinu og trúir honum.

En jafnvel áður en martraðaskrímslin byrjuðu að herja á Draumaríkið var lífið þar ekki eintóm gleði og hamingja. Allir í draumlendingar eru dánir og einu sinni á ári, á afmælisdegi sínum, fá þeir leyfi til að búa til draum fyrir einhvern sem þeir þekktu í lifenda lífi. Þannig kemst Davíð að því að Sunna er í raun móðursystir hans. Hann ferðast með henni inn í draum sem hún býr til fyrir systur sína, sem reynist vera móðir Davíðs. Dauði Sunnu er greinilega áfall sem fjölskyldan hefur lítið tekist á við. Davíð þekkir ekki söguna og hefur aldrei rætt um Sunnu við mömmu sína. Eftir að Davíð snýr til baka úr draumnum nær hann aðeins að opna á umræðuefnið við mömmu sína með því að skoða gamlar ljósmyndir.

Það mikilvægasta sem kemur út úr uppgötvun Davíðs á fjölskyldutengslum sínum við Sunnu er samband hans við hans eigin systur, Fanný. Systkinin hafa átt erfitt samband og Davíð finnst Fanný ekki vera mikilvægur hluti í lífi sínu, honum finnst hún pirrandi og oftast fyrir sér. En eftir að hafa heyrt hvað Sunna saknar systra sinna mikið vill Davíð bæta samband sitt við systur sína. Þó samband Davíðs við bæði Jakub og Fanný sé byrjað að styrkjast þegar sögunni líkur er langt í land og það verður spennandi að sjá hvernig Davíð nær að þróa þessi sambönd.

Atburðarás sögunnar er hröð og margir kaflanna enda á æsispennandi hátt sem gerir það að verkum að erfitt er að leggja bókina frá sér. Synir mínir hlustuðu af ákafa og urðu alltaf vonsviknir þegar lestrarstund kvöldsins var lokið. Sagan skilur lesendur eftir með mikið af ósvörðum spurningum í lokinn. Hvers vegna birtist Davíð í Draumaríkinu, hvert fara Davíð og Sunna þegar þau ferðast inn í draumadrottninguna, er líkami Davíðs ennþá sofandi í rúminu hans heima eða ekki? Það hefði styrkt sögunna ef einhverjum þessara spurninga hefði verið svarað. Uppbygging söguheimsins verður aðeins þynnri fyrir vikið en það er augljóst að Kamilla ætlar lengra með leyndardóma Draumaríksins. Við mæðginin bíðum æsispennt eftir næstu bók sem við vonum að líti dagsins ljós.
 

Kristín Lilja, október 2023