Það tók dálítinn tíma að átta sig á bók Jónasar Bengtssons, Ævintýri, og ég er ekki alveg viss hvort ég hafi enn náð almennilegu taki á verkinu. Sagan er sögð út frá sjónarhóli lítils drengs framanaf, í síðari hlutanum er hann orðinn eldri, en virðist enn að mörgu leyti bernskur. Að einhverju marki fjallar sagan um mörk veruleikans og þá veruleiki sem fólk leikur, en þungamiðjan er hinn geðsjúki faðir sem drengurinn fylgir í fyrri hlutanum. Geðveiki er því augljóslega einnig til umfjöllunar, áhrif hennar á barnið og framtíð þess. Annað mikilvægt þema er listin, en drengurinn teiknar látlaust, bæði í huganum og á blað – seinna málar hann á striga. Þetta eru þeir þrír meginþættir sem byggja bókina, og birtast á ýmsa vegu.
Í fyrri hluta verksins er strákurinn, sem nefndur er Peter, í félagi við föður sinn sem greinilega lifir utan ramma samfélagsins. Þeir búa í lélegu leiguhúsnæði, faðirinn vinnur við hitt og þetta, hann er heillandi og á auðvelt með að tala sig inn á fólk. Þetta gerir honum kleift að sjá fyrir þeim, að hluta til með vinnu og að hluta til með smáþjófnaði og einskonar betli sem faðirinn útskýrir sem greiðsemi – ekki þeirra sem gefa, heldur þeirra sem þiggja:
„En við erum líka að gera þeim greiða. Eins og manninum þarna ...“
[...]
„Þarna stendur hann allan daginn, hann tekur við miðum, hann segir við ferðamennina að þeir megi ekki fara inn með ís, að þeir megi ekki taka myndir.“
[...]
„Það er mjög sjaldgæft að þessi maður fái tækifæri til að gera eitthvað fyrir einhvern. Að gera eitthvað, án þess að fá peninga í staðinn, bara vegna þess að hann getur það og langar til þess.“ (43)
Þessi hluti bókarinnar er afar heillandi, lesandi skynjar, líkt og drengurinn, að eitthvað er ekki eins og það á að vera, en umhyggja föðurins er ósvikin og þegar barnið segist vilja fara í skóla leggur faðirinn sig fram við menntunina – kennir latínu og þýsku, auk þess sem þeir heimsækja söfn. Myndlistin skiptir máli fyrir drenginn sem teiknar stöðugt í huganum, að því er virðist í einhverskonar tilraun til að ná taki á tilverunni.
En svo verða skil þegar faðirinn verður skyndilega upptekinn af ungri konu í pólitík og þegar hann ræðst á hana rofnar veruleiki barnsins – eða réttara sagt, hellist veruleikinn yfir. Ævintýrin sem faðirinn sagði honum til að skýra tilveru þeirra, reynast ranghugmyndir og Peter neyðist til að hverfa aftur til hversdagslegra lífs með móður sinni og stjúpföður.
Um það fjallar síðari hlutinn, en þar er því lýst hvernig drengurinn, sem nú er orðinn 16 ára unglingur, á afskaplega erfitt með að samlagast venjulegu samfélagi. Þegar föðuramma hans boðar hann til sín í heimsókn ferðast hann langar leiðir og kemst að ýmsu óskemmtilegu um æsku föður síns. Á leiðinni til baka gefst hann upp á sinni nýju tilveru og stofnar til nýrrar, álíkri þeirri sem hann lifði með föður sínum. Hann tekur upp nýtt nafn (tyrkneskt), fær vinnu á pósthúsi og kynnist þar manni sem hvetur hann til að mála. Efniviðurinn, litirnir, striginn, trönurnar, eru alltsaman ránsfengur af pósthúsinu. Strákurinn, sem nú er orðinn ungur maður, kynnist stúlku, og þjóðverji nokkur sem sér verk hans í galleríi býðst til að halda einkasýningu með verkum hans.
Það er margt í þessum seinni hluta sem speglar fyrri hlutann – eins og það að drengurinn umgengst áfram fólk sem fer frjálslega með eigur annarra, auk þess einfaldlega að lifa lífi á útjaðri samfélagsins og hafna borgaralegri tilveru. Það rótleysi sem býr í drengnum virðist þó líka setja mark sitt á verkið, því þessi seinni hluti er ómarkvissari en fyrri hlutinn og tilgangsleysi allra hluta óljóst. Það er að segja, þarna virtist margt togast á, tilraunir til skýringa á geðheilsu og örlögum föðurins, tilraun til að gefa lífinu markmið með listinni, tilraun til að láta sig hverfa – í öllu þessu er drengurinn frekar óviss stærð, og virðist fyrst og fremst fylgja öðrum eftir. En kannski er það einmitt ætlunin, að teikna upp mynd af tilveru sem er bæði innan og utan hversdagsleikans og einkennist af fjölmörgum og ólíkum veruleikjum, án sérstaks markmiðs eða árangurs.
Þýðing Ísaks Harðarsonar er áferðarfalleg og vönduð og fangar sérstaklega vel þá bernsku sýn sem einkennir fyrri hlutann, en birtist einnig í síðari hlutanum að vissu marki. Ævintýri Bengtssons er bók sem vekur upp fleiri spurningar en hún svarar, en teiknar jafnframt upp margræða og upplýsandi sýn á samfélag, veruleika og veruleiki.
úlfhildur dagsdóttir, október 2015