Í bók Natalie Babbitt, Sjóræningi segir frá, hefur sjóræninginn Pétur planki hætt sjóránum vegna viðkvæmni og er að leita sér að nýjum starfsvettvangi. Hann er einn af kostgöngurum ekkju nokkurrar og í lok hvers dags lýsir hann því fyrir hinum gestunum hvers vegna honum hentar ekki hitt og annað starfið. Ástæðan er alltaf í formi ævintýralegrar furðusögu eftir árin á sjónum. Að lokum finnur hann þó það rétta: að segja sögur sem bæði skemmta fólki og vekja það til umhugsunar.
Saga Babbitt lýsir í raun ágætlega þeim þýddu ævintýrabókum ætluðum yngri lesendum (á ýmsum aldri) sem koma út nú fyrir jólin. Þetta eru ævintýralegar sögur úr ólíkum áttum, sem hafa allar það hlutverk að skemmta lesendum og í sumum tilfellum að uppfræða ofurlítið og vekja til umhugsunar.
Saga Kim M. Kimselius, Aftur til Pompei, er dæmi um bók sem hefur augljóst fræðslugildi, en þar er fjallað um samnefnda borg sem eyddist í eldstormi árið 79 eftir Kristsburð. Aðalsöguhetjan er hin sænska Ramóna sem fer í bekkjarferðalag til rústa borgarinnar og lendir í óvæntu tímaferðalagi, sem leiðir hana einmitt til ársins 79, rétt fyrir eldgosið. Hún kynnist krökkum á sínum aldri og daglegu lífi í borginni, auk þess að lenda í höndum þrælahaldara. Bókin er stutt en skemmtileg og boðskapurinn eða uppfræðslan verður aldrei yfirþyrmandi.
Fróðleikurinn er hins vegar kannski óþarflega fyrirferðarmikill í bandarísku fantasíunni Gullgerðarmaðurinn eftir Michael Scott, en þar þarf að kynna bæði þekktar persónur úr sögunni og goðmögn ýmissa menningarheima. Tvíburarnir Sophie og Josh flækjast í ævintýralega atburðarás þegar galdramenn og goðmögn taka að berjast um Skræðu, galdrabók sem getur leyst úr læðingi ótrúlega krafta og ofurvald yfir öllum heiminum. Að sjálfsögðu reynast systkinin hafa hlutverk í þessari baráttu. Þrátt fyrir að hér sé meira um að vera en í sögu Kimselius er á einhvern hátt undarlega dauflegt yfir sögunni, ef til vill vegna þess hve mikill tími fer í allskyns útskýringar. Gullgerðarmaðurinn er fyrsta bók í seríu og á því mögulega eftir að lifna yfir þegar á líður.
Nýtt tungl Stephenie Meyer er einmitt gott dæmi um aðra bók í seríu sem er mun fremri fyrstu bókinni. Meyer var algerlega óreyndur höfundur þegar hún hóf að skrifa sínar vinsælu vampýru-ástarsögur og ber fyrsta bókin, Ljósaskipti, þess greinileg merki. Í annarri bókinni eru tökin orðin öruggari og það jafnvægisleysi sem einkennir byggingu fyrstu bókarinnar er ekki lengur til staðar. Hér segir frá aðskilnaði þeirra Isabellu og vampýru-kærasta hennar Edwards, en hann yfirgefur hana til að vernda hana gegn ofsóknum illra vampýra. Ástarsorgin gerir næstum út af við hana en vináttan við indíánann Jack bjargar henni - en kemur henni jafnframt í ný vandræði.
Sóley, aðalsöguhetja samnefndrar bókar Celiu Rees, er sérlega góð í að koma sér í vandræði en saga hennar er, líkt og bækur Meyers, hlaðin ástum og dramatík. Sagan gerist á árunum eftir frönsku byltinguna þó sögusviðið sé aðallega England. Sóley bregður sér í gerfi stigamanns til að sannreyna ást unnustans - og verður fyrir vonbrigðum. Hún flækist svo í pólitísk átök vegna skoðana föður síns og heldur áfram að dulbúast sem stigamaður, en fer á endanum til Frakklands þar sem hún lendir í miklum hremmingum, auk þess að finna ástina á ný. Sóley er saga sem ætti að höfða til sama lesendahóps og bækur Meyers, því þar er að finna viðlíka dramatík hvað varðar ástir unglinga þó söguhetjan sé öllu öflugri en Bella greyið.
Saga drekans Temeraire á sér líka stað í sögulegri fortíð, sem þó er nokkuð ólík þeirri sem lesendur þekkja. Þó bókin gerist á tímum Napóleonstyrjaldanna (nokkrum árum eftir atburðina í Sóley) er ýmislegt framandi, aðallega það að drekar eru til. Þeir eru vitrir og altalandi og eru þjálfaðir og notaðir í bardögum, sem einskonar flugher. Í fyrstu bókinni, Temeraire: Dreki hans hátignar, er því lýst hvernig skipstjórinn Laurence verður óvænt að drekaflugmanni þegar kínverskur keisaralegur dreki velur hann sem sinn félaga. Hásæti keisarans segir svo frá því að nú vilja Kínverjar frá drekann til baka (en hann var herfang) og þeir félagar ferðast yfir hnöttinn til að reyna að ná samningum við Kínakeisara. Í ljós kemur að staða dreka í Kína er allólík þeirri sem þeir hafa í Evrópu og að auki blandast þeir vinirnir í hatramma valdabaráttu um hásæti keisarans. Sagan er bæði ævintýraleg og skemmtileg og mesti gleðigjafi ofantalinna bóka, þó sjóræningi Babbitt komi þar nærri. Heimur drekanna er heillandi og samskipti þeirra Laurence skemmtilega útfærð auk þess sem lýsingarnar frá Kína henta sérlega vel í drekaævintýrum.
Kannanir sýna að lestur barna og unglinga hefur aukist á undanförnum árum og virðist það samdóma álit að þetta sé vinsældum bókanna um Harry Potter að þakka (sjá t.d. grein Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 21. október 2009. „Síðbúin áhrif frá Harry-Potter bókum”). Þó tilnefnir vefsíða breska dagblaðsins The Guardian Harry Potter sem einn þeirra sem eyðilögðu núllta áratuginn: með því að koma af stað flóðbylgju eftirherma og „villvera”. Eitthvað er til í því en hinsvegar er ljóst að fantasíur fyrir unga (og eldri) lesendur er mun eldri bókmenntagrein en Harry Potter sögurnar og því má einnig færa rök fyrir því að þær bækur hafi vakið aukna athygli á verkum sem annars töldust einungis við hæfi jaðarhópa og furðufugla. Og svo ég setji mig að lokum í dálitlar predikunarstellingar þá felst mikilvægi þessara vinsælda að mínu mati ekki síst í því að allt sem eykur lestur almennt er af hinu góða. Sem lestrarsjúklingur og kennslukona verð ég stöðugt vör við að málkennd ungs fólks er að taka miklum breytingum, því miður aðallega til hins verra, þó vissulega megi einnig finna áhugaverð dæmi um nýstárlega málnotkun. Skemmtilestur er besta leiðin til að viðhalda tungumálinu bæði sem samskiptatæki og list og því ber að fagna að bækur á borð við þær sem hér er fjallað um njóti vinsælda ungra lesenda. Jafnframt er ljóst að þar leika þýðendur og yfirlesarar mikilvægt hlutverk, sem því miður er ekki sinnt sem skyldi. Það er sérstaklega bagalegt hvað þýðingin á Temeraire er gölluð og illa yfirlesin. Hinsvegar standa þýðingar Kristínar Thorlacius uppúr hvað varðar gæði, ekki síst í því hve vel henni tekst að gæða textann og söguheiminn lífi.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009