Beint í efni

Af kjöti ertu kominn

Af kjöti ertu kominn
Höfundur
Magnús Jochum Pálsson
Útgefandi
pbb
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Mannakjöt er fyrsta ljóðabók Magnúsar Jochum Pálssonar en fyrir handritið að henni hlaut hann Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Mannakjöt er eins konar konseptbók þar sem höfundur rannsakar hið holdlega svið mannlegrar tilveru; græðgi, neyslu og kjöt í sem víðustum skilningi. Bókin skiptist í fjóra hluta sem allir stuðla skemmtilega; Fæðing, Fóður, Fórnir og Frost, og glímir hver hluti fyrir sig við ákveðið þema án þess þó að segja eina samfellda sögu. Kaflaheitin minna á lífsferil sláturdýra og teikningar Eysteins Þórðarsonar, sem fylgja hverjum kafla, ýta undir þá túlkun. Dýrið fæðist, það er fóðrað, því er fórnað í sláturhúsi og það endar svo að lokum sem frosin kjötvara í matvöruverslun. Á teikningum Eysteins má sjá lamb sem liggur í grasi, stafla af grillmat, verkaðan skrokk sem hangir á krók og svo mennska hauskúpu sem blóm vaxa upp úr. Þannig myndar fjórskipting bókarinnar hugrenningatengsl við hringrás lífsins eða kannski réttara sagt hringrás kjötsins, sem er viðfangsefni ljóðabókarinnar.

Alltumlykjandi neyslumenning

Magnús er bæði myndrænn og skáldlegur í lýsingum sínum eins og sést strax í fyrsta ljóði Mannakjöts, „Gen“, þar sem ónefnd andvaka kona rís upp úr rekkju sinni og heldur inn í eldhús til að sækja sér miðnætursnarl í ísskápinn: „opnar kaldan skáp / gapir yfir ginnungagapi / geimurinn er tóm // nema í neðstu skúffu / iðar grænmygluð kringla / af lífi“

Í Mannakjöti vá víða finna skírskotanir í íslenska neyslu- og matarmenningu, bæði í efnistökum ljóðanna og hönnun bókarinnar en kápan minnir á innpakkað kjötstykki í stórmarkaði. Mannakjöt skapar þannig hugrenningatengsl við eina þekktustu konseptljóðabók íslenskrar nútímaljóðlistar, Bónusljóð eftir Andra Snæ Magnason. Fyrsta hugsun undirritaðs var þannig óneitanlega sú hvort hér væru komin Bónusljóð fyrir nýja kynslóð en þó verður að segjast að stíll og efnistök Magnúsar eru töluvert frábrugðin kjarnyrtum og blátt áfram ljóðum Andra Snæs því Magnús hikar ekki við að vera háfleygur í lýsingum sínum á hversdagslegum fyrirbærum. Þessi ljóðræna afstaða skapar skemmtilega dýnamík þar sem Magnús umbreytir athöfnum daglegs lífs í eitthvað dularfullt og jafnvel goðsagnakennt, eins og til dæmis í ljóðinu „Naglfar“ þar sem miður geðslegar athafnir konu sem plokkar á sér neglurnar fyrir framan sjónvarpið verða að myndlíkingu fyrir hið vofeiflega skip Naglfar úr Norrænni goðafræði:

Á kvöldin sest hún upp í sófa
glápir á sjónvarpið
og plokkar í táneglurnar

rífur framan af þeim
fleygir afklippunum út í horn
undir borðið með pottaplöntunni

þar enda allar neglur
þar er hrúga af keratínskeljum
þar stendur yfir bygging á naglfari


Gróteska og hryllingur

Ljóðin í Mannakjöti eiga sum hver í samtali sín á milli, þannig má til að mynda finna þrjú ljóð þar sem pylsur koma fyrir. Í fyrsta ljóðinu, „Gott veður til að grilla“, eru það rauðar vínarpylsur bornar fram fyrir gráðug börn sem „skríkja tryllingslega af svengd“ og „rífa kjötið í sig eins og skepnur“. Í öðru ljóðinu, „Morgunstund“,  eru pylsurnar myndhverfing fyrir líkama sundgesta sem ljóðmælandi hittir fyrir í heitum potti: „krumpaðar pulsur soðna / spjallandi í heitum potti / þrútnar eftir öll þessi ár“. Í þriðja ljóðinu, „Lesendabréf frá fórnarlambi“, verður svokallað „pulsubréf“ svo til þess að ljóðmælandi missir „sjón á öðru auga / og tvo fingur af hvorri hendi“.

Magnúsi tekst einkar vel að framandgera heim holdsins, hinn efnislæga veruleika sem mannkynið dvelur í allar sínar vökustundir. Ljóðin eru uppfull af grótesku en einnig óvæntum húmor svo auðvelt er að fyllast viðbjóði en vera í senn dáleiddur af ljóðmyndum á borð þá sem birtist í ljóðinu „Illgresi“ þar sem börn eru böðuð upp úr illgresiseitrinu Roundup áður en þau fara í skólann til að verja þau frá „öllum arfa / sem er sáð í huga þeirra / utan heimilisins“. Ein mest sláandi lýsing bókarinnar er í titilljóðinu „Mannakjöt“, þar sem sjálfsfróun unglings yfir klámefni verður að eins konar hrollvekjandi næturljóði:

blár gluggi lýsir upp fölt andlit
hann strýkur sér meðan
holskefla holds
skellur á skjánum

bleikir limir fylla gapandi sköp
kok gleypa ógrynni vessa
rauðir rassar nuddast við hvít brjóst


Að kjöti skaltu aftur verða

Í síðasta kafla bókarinnar, „Frost“, seilist Magnús inn á lendur súrrealismans og táknsögunnar til að lýsa endastöð ferðalags kjötsins, frystikistunni þar sem plastað og innpakkað mannakjötið fær að hvíla í sinni hrímkistu, eins og sjá má á kápu bókarinnar. Í ljóðinu „Beinaborg“ reyna ljóðmælendur (ljóðið er skrifað í fyrstu persónu fleirtölu) að stinga upp kartöflur en fá ekkert upp úr krafsinu annað en mismunandi gerðir mennskra beina og smíða úr þeim eins konar dauðaborg (necropolis). Þetta minnir á þekkta allegoríu frá miðöldum, dauðadansinn svokallaða (danse macabre), þar sem dauðinn sjálfur og ýmsar aðrar persónur birtast sem beinagrindur og dansa saman í kirkjugarðinum til að minna okkur á fallvaltleika lífsins. Ljóðið er skemmtilega uppsett eins og stafurinn S eða snákur sem hlykkjast um síðuna:

mannakjöt textadæmi

Lokakafli bókarinnar einkennist af dystópískri framtíðarsýn sem minnir í senn á loftslagsbókmenntir og trúarlegar heimsendafrásagnir á borð við Opinberunarbók Jóhannesar og Ragnarök norrænnar goðafræði. Ljóðið „Meira kjöt“ er eins konar kaldhæðin predikun fyrir neyslusamfélag síðkapítalismans þar sem skáldið klifar á orðinu kjöt og heimtar „fleira fólk / meira kjöt / minna pláss“. Í ljóðinu „Sumarkuldi“ er því svo lýst hvernig veturinn tekur á endanum yfir heiminn svo mannkynið frýs í hel og endar eins og frosin kjötstykki í frystikistu stórmarkaðanna:

eins og eldvarnarteppi
kæfði snjórinn allt kvikt

gleypti jörðina
með húð og hári
nöglum og beinum
borgum og bæjum
fjöllum og hafi

Þar með erum við komin heilan hring í áðurnefndri hringrás kjötsins, skáldið minnir okkur á að eins mikið og við mennirnir viljum trúa því að við séum drottnarar náttúrunnar þá erum við óumflýjanlega partur af henni. Við eignum okkur líkama dýra, slátrum þeim til að búa til kjöt en gleymum því að við erum líka kjöt, rúmir átta milljarðar mannakjöts sem spígsporar um þessa jörð. Í síðustu ljóðum bókarinnar, sem eru heldur nöturleg, gerist Magnús allt að því spámannlegur og lýsir heimi þar sem neyslan hefur keyrt um þverbak og allt kjötið er uppurið svo fólk neyðist til að leggja sér til munns rykmaura og blauta pappakassa. Mannkynið dagar svo uppi þegar síðasti maðurinn, sem heitir hinu viðeigandi nafni Geir, kafnar á því sem mun sennilega verða ein þrautseigasta arfleifð mannkynsins:

það var ekki kuldinn
hungrið
eða pestirnar
sem náðu honum
heldur plastið

Ef til vill mætti kjarna boðskap Mannakjöts með eftirfarandi útúrsnúningi á moldun Kristinnar trúar: Af kjöti ertu kominn, að kjöti skaltu aftur verða. Mannakjöt eftir Magnús Jochum Pálsson er metnaðarfullt verk sem á í samtali við ljóðahefðina og bókmenntasöguna. Hér kveður nýr höfundur sér hljóðs með sterka og skýra sýn. Þá er hönnun og umbrot bókarinnar einstaklega vandað sem gerir Mannakjöt að eigulegum grip og gaman væri að sjá fleiri útgefendur leggja jafn mikinn metnað í hönnun ljóðabóka.


Þorvaldur S. Helgason, desember 2023