Beint í efni

Ballið á Bessastöðum

Ballið á Bessastöðum
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sagan geymir fjölmörg dæmi um börn sem komast í valdastöður, verða kóngar og keisarar og drottningar og keisaraynjur, og takast á við þau hlutverk með misjöfnum hætti. Og nú geymir bókmenntasagan dæmi um forseta sem er í raun barn, þó hann sé fullorðinn.

Ballið á Bessastöðum er fjórða barnabók Gerðar Kristnýjar, en þetta árið er hún ekki einhöm, heldur sendir einnig frá sér ljóðabókina Höggstaður, sem hefur nú verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Það lætur höfundi greinilega vel að skrifa barnabækur, þar fær húmorinn að njóta sín í samblandi við hæfilega skringilegar uppákomur og vangaveltur sem draga á fallegan hátt fram sjónarhorn barnsins. Í þessari skáldsögu birtist okkur sýn barns á það hvernig líf forsetans er, en það sem er sniðuglega gert er að hér er ekki búið til samtal barns og fullorðins, heldur eru hinar barnslegu hugmyndir allsráðandi.

Bókin hefst á því að bréfberinn kemur á skrifstofu forsetans í miðbænum og þar liggur hundurinn grafinn, forsetinn fær svo mörg bréf að hann hefur engan tíma til að gera neitt annað en lesa og svara. Ekki einu sinni þrír frábærir ritarar geta bjargað honum út úr ógöngunum. Í ofanálag er forsetinn einmana, hann á engann annan forseta að vini og getur því ekki rætt um vafamál eins og hvora hendina eigi að nota til að veifa börnum. Aumingja forsetinn er því búinn að missa áhugann á starfinu og eiginlega lífinu, allt er ómögulegt. En einn daginn breytist allt, og það byrjar á því að forsetinn sér ómótstæðilega sýn út um gluggann sinn: þrjár gular gröfur í húsgrunni. Og forsetinn laumast út og byrjar að leika sér með eina gröfuna.

Að vanda er hægt að treysta á myndir Halldórs Baldurssonar sem kæta textann á ýmsan hátt og falla fullkomlega að þeim húmor sem sagan býr yfir, allt frá hinum fótfima bréfbera á fyrstu síðunni, til mynda af forsetum Íslands sem ljúka bókinni.

Inn í söguþráðinn fléttast svo bréf barna og fullorðinna sem skrifa forsetanum, krossgátulausnir Elínar símadömu og fjöldi bráðskemmtilegra persóna og allt skapar þetta sögu sem bæði börn og fullorðnir ættu að geta glatt sig linnulaust yfir.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007