Þær glæpasögur sem hvað mest hafa verið áberandi hér á landi eru lögreglusögur, sem sverja sig nokkuð í ætt við norrænar sakamálasögur, og einkennast af ákveðnu félagsraunsæi í bland við samfélagslýsingar. Þessar sögur eru yfirleitt knúnar áfram af rannsóknarlögreglumönnum eða álíka fulltrúum yfirvalda, yfir þeim er ákveðið rólyndisyfirbragð, þó vissulega þurfi alltaf að halda athygli lesandans og tryggja forvitni hans. Arnaldur Indriðason er þekktastur fyrir slíkar sögur, en Viktor Arnar Ingólfsson og Ævar Örn Jósepsson hafa einnig skrifað í þessum anda. En þetta er ekki eina form glæpa- eða spennusagna sem sést hefur, Birgitta Halldórsdóttir hefur um árabil skrifað sögur sem eru fremur reyfarakenndar, spennusögur eða þrillerar og nýjasta bók Árna Þórarinssonar og Páls Kristins Pálssonar, Í upphafi var morðið, var einnig mjög reyfarakennd. Árni er þó líklega þekktari fyrir að hafa skrifað svokallaðar harðsoðnar glæpasögur, og Stella Blómkvist hefur einnig haldið sig að því formi.
Arnaldur hefur reyndar ekki alltaf skrifað lögreglusögur, en þriðja bók hans, Napóleonskjölin, var hrein spennusaga eða þriller. Og nú spreytir hann sig enn á nýju formi, harðsoðna reyfaranum. Slíkar sögur eru yfirleitt sagðar í fyrstu persónu, og svo er um þessa nýjustu sögu Arnaldar, Bettý, en hún er öll sögð af ungum lögfræðingi sem situr í fangelsi af völdum háskakvendis, Bettýar, og reynir að snúa sig útúr þeim svikavef sem daman hefur spunnið. Bettý er ung og glæsileg kona, gift forríkum eldri manni sem ræður lögfræðinginn til að sjá um erlenda samninga fyrir sig. Og áður en varir er lögfræðingurinn kominn á kaf í ástarsamband með Bettý, sem á eftir að hafa óvæntar og alvarlegar afleiðingar. Inn á milli hugleiðinga og upprifjana koma svo senur þar sem lögfræðingurinn er yfirheyrður, og smátt og smátt byggist upp heilmikil innsýn í heim lögreglufulltrúanna. Best að lýsa söguþræðinum ekki nánar, því ég vil ekki skemma fyrir lesendum. Sem fyrr heldur Arnaldur sig við hefðbundnar formúlur, en fyrir utan einn hressilegan uppásnúning í anda Wachowsky bræðra, heldur sagan sig við formúlu harðsoðna reyfarans. Þessi harðsoðni reyfari á sér ansi skemmtilega sögu sjálfur, reyndar, en hann kemur fram á tímum hinna svokölluðu reyfarablaða, eða 'pulp' tímarita, en þar skrifuðu menn eins og Raymond Chandler og Dashiel Hammet. Þar birtust háskakvendin (femme fatale) fyrst og hafa lifað góðu lífi síðan, en sögur þeirra félaga voru kvikmyndaðar snemma á fimmta áratugnum, með ekki minni manni en Humphrey Bogart í aðalhlutverkum, en háskakvendin hafa verið leikin af ekki ómerkari konum en Marilyn Monroe, Rita Heyworth og Ingrid Bergman. Þessar myndir, sem á sínum tíma þóttu bara ágætis afþreying, öðluðust svo aukna viðurkenningu þegar Frakkar tóku sig til og áttuðu sig á því að þarna væri á ferðinni sérstök kvikmyndategund, sem þeir kölluðu film noir, og álitu heilmikinn listrænan viðburð, en yfirbragð myndanna einkennist mjög af samspili skugga og ljóss og voru rimlagardínur vinsælt stílbragð. Síðan þá hafa þessar myndir verið sívinsæl uppspretta kvikmyndalegs og fræðilegs innblásturs, en það er helst Guðni Elísson sem hefur fjallað um þessa kvikmyndategund hér á landi og vísa ég áhugasömum lesendum á grein hans ,,Flögð og förðuð skinn: Tálkvendið í kvikmyndum noir-hefðarinnar" í bókinni Flögð og fögur skinn frá 1998.
Þrátt fyrir að kvikmyndirnar séu kannski fyrirferðameiri í dag í almenningsvitund, hefur harðsoðni reyfarinn sem bókmenntategund einnig dafnað vel og á sér marga fylgismenn, þó ekki hafi hann hlotið jafnmikið listrænt fylgi og kvikmyndirnar. Hlutverk háskakvendisins er hinsvegar mismikið og hefur breyst í gegnum tíðina. Það er sérstaklega einn angi af þessari hefð sem Arnaldur sækir til, en það eru skáldsögur James M. Cain, sem líklegast er þekktastur fyrir sögu sína Pósturinn hringir alltaf tvisvar. Í heildina séð fer Arnaldur vel með þetta form, uppásnúningurinn er skemmtilegur, og sagan spennandi, svo, að lesandi leggur hana trauðla frá sér. Það er líka gaman að sjá hvað Arnaldi tekst vel upp í því að yfirfæra þessa hábandarísku formúlu uppá íslenskt samfélag. Þó fannst mér plottið á stundum of klisjað og viðbrögð lögfræðingins við aðstæðum sínum of klúðursleg. Þannig minnti sagan mig dálítið á fyrstu bækur Arnaldar, þarsem hann er enn að ná tökum á formi og stíl. Sagan verður því trauðla jafn áhrifamikil og bestu sakamálasögur hans, þó vissulega sé hún bæði rennileg og fjörleg. En, það kemur ekki í veg fyrir það að sagan af Bettý er fín viðbót í flóru íslenskra glæpasagna og það er ánægjulegt að sjá að Arnaldur heldur áfram að kanna innviði ólíkra glæpasagnahefða og er óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003