Beint í efni

Birtan í húminu: ljóðaþýðingar

Birtan í húminu: ljóðaþýðingar
Höfundar
Dionne Brand,
 Robert Bringhurst,
 Jeramy Dodds,
 Carolyn Forché,
 Don McKay,
 Albert Frank Moritz,
 Michael Ondaatje,
 Robin Robertson,
 Carolyn D. Wright
Útgefandi
Bókmenntahátíð í Reykjavík
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Dionne Brand - Kristín Eiríksdóttir
Robert Bringhurst - Ólöf Pétursdóttir
Jeramy Dodds - Emil Hjörvar Petersen
Carolyn Forché - Sjón
Don McKay - Magnús Sigurðsson
Albert Frank Moritz - Hrafn Andrés Harðarson
Michael Ondaatje - Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Robin Robertson - Garðar Baldvinsson
Carolyn D. Wright - Sigurbjörg Þrastardóttir

Bókmenntahátíð í Reykjavík, 2009

Það er kannski svolítið eins og að fá í hendurnar týnda ferðatösku að gramsa í ljóðum hinna svokölluðu Griffin-skálda sem voru þátttakendur á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2009. Í tilefni af komu þeirra var gefið út ljóðasafnið Birtan í húminu og þar kennir sko ýmissa grasa, eða eins og segir í ljóði Carolyn Forcé um týndu ferðatöskuna:

... og þjófurinn
sem bjóst við verðmætum fann í staðinn bækur ritaðar
milli stríða, gullna lukt af háalofti, upptrekktan syngjandi fugl
og frásögn af hinstu stundum heimalands þíns.
Það, sem með aðstoð minnispunkta, þú vonaðist til að verða:
nafnorð á blaði, blað dökkvað af nafnorðum:

Sá sem stendur á bakvið þessi blöð dökkvuð af nafnorðum er Scott Griffin sem stofnaði til kanadískra ljóðaverðlauna árið 2000. Verðlaunin eru fyrir frumsamda ljóðabók sem kemur út á ensku. Annarsvegar eru veitt verðlaun fyrir bók eftir höfund sem búsettur er í Kanada og hinsvegar eru alþjóðleg verðlaun. Í báðum tilfellum getur verið um þýðingar á ensku að ræða.

Sú fjölbreytni sem einkennir ljóðin í Birtan í húminu gefur til kynna að dómnefndin fylgir engri ákveðinni stefnu í vali sínu, en ljóðin eru af ýmsu tagi, stutt, löng, prósar, bálkar, með og án titils. Sum eru pólitísk, önnur persónuleg, húmor er nokkuð áberandi, en hinn ljóðræni tregi er aldrei langt undan heldur. Helstu sameiginleg einkenni eru hraði, hreyfing og kraftur – sem gæti komið til af því að þetta er úrval fárra ljóða eftir hvern höfund.

Bókin byrjar með miklum krafti á ljóðum Dionne Brand, sem er innflytjandi eins og svo margir Kanadabúar, og skrifar um stríð og pólitík á þann hátt að lesandi finnur sig næstum knúinn til að fara að hlusta á útvarpsfréttir. Nema fréttir ná aldrei þeim slagkrafti sem texti Dionne fangar í upptalningum sínum á hörmungum og sprengingum, dauða og leit að kertum í rafmagnsleysi:

verslunarmiðstöð í Missouri, mögulega já, á veitingastað
í Madison, þrír frændur, ein frænka í eldsprengju í Nashville
sex í árás nálægt sjúkrahúsi í Buffalo, tveir hlustandi á útvarp.

sextán í sprengingu á fótboltavelli, einn lesandi
í rútu „hjartað er umlukið gollurhúsi
sem er þakið blóðvatnsvef úr hálhjúpi...”

þrír án rafmagns síðan á fimmtudag,
ennþá rótandi eftir kertum, finna svo eldspýturnar

Hér eru frænkur og frændur og læknanemi sem aldrei lýkur náminu - meira að segja læknisfræðitextinn tekur á sig nýja mynd í látlausum upptalningum á fréttum, sem fjalla án afláts um fjölda dauðra. Skáldið leikur á sérlega sláandi hátt með mörk texta, formlegra frétta og ljóðsins og kallar fram næstum óþægileg áhrif hjá lesanda sem er ekki alveg viss hvar hann er staddur í hæfilega írónískum, aggressífum en þó furðulega ljúfum ljóðum Dionne.

Frá tuttugu og þremur dauðum í sjálfsmorðssprengingu á kebab veitingastað færum við okkur yfir til ljóðabálks um hjartað (kannski í framhaldi af læknatextanum?) eftir Robert Bringhurst, en þar kemur meðal annars fram að „Hjartað er fjórar hendur sem skammta súpu / úr lifandi holdi og vatni.” Jeramy Dodds lýsir píanóleik Glenn Gould, 9. apríl 1962 í ljóði sem er eiginlega ekki hægt að hætta að lesa. Þar taka hendur píanóleikarans á sig fjölmargar myndir: „Sú vinstri er varkár sem kóngulóarvefur inni í vaskaskáp” segir á einum stað og á öðrum heldur sú hægri  „að ruslakvörnin hafi breytt / þeirri vinstri í rósaknapp af stubbum.” Hér erum við minnt á að tónlist er ekki bara hljóðrænt form heldur einnig áhorfendasport, ferð handa um lykla hljómborðsins er ómissandi hluti af upplifuninni. Að auki kallar ljóðið á vangaveltur um hvað þessar hendur eru að hugsa og gera meðan á leiknum stendur, búa þær kannski yfir eigin lífi og eigin hugmyndum um tónlist?

Þessar ótrúlega fjölhæfu hendur eru reyndar líka góð myndlíking fyrir ljóðin í þessari dásamlegu gullkistu, „Sú hægri er vetur, ljóstíra sem brýst gegnum nálarauga” segir á einum stað og eitt af hlutverkum ljóða, hlýtur að vera, er að lýsa í myrkrinu. Albert Frank Moritz skrifar líka um líkamann sem sjálfstæðan persónuleika í „Gamla gæludýr”, sem hefst á línunum: „Kom, líkami minn, stökktu upp, meðan þú enn getur, / á hné mín, í kjöltu mér.” Ljóðið er svo áframhaldandi samræða ljóðmælanda við líkama sinn, sem eldist ört. Á sama hátt öðlast hnífapör líf í ljóði Don McKay um hnífapörin. Þar er dæmi sem fer í ‘hina áttina’ frá ljóðum Dionne, hið hversdagslega er gert ævintýralegt. Hnífurinn „birtist fyrst / í Guðs hendi til að skilja / dag frá nóttu, þvínæst sauðina / frá höfrunum, þvínæst frá hinum / sauðunum, þvínæst frá sínum notalegu / gærum.” Gaffallinn virkar friðsamur þegar hann vísar niður en ógnandi þegar hann snýr upp, enda er hann „uppáhalds / amboð djöfulsins”. Skeiðin er hógværust og veit allt um hungur, hún „endurspeglar svip þinn / á grúfu, í möttu tunglskini.” Ljóðið heitir „Lagt á borð” og dregur á lifandi hátt það margháttaða ritúal sem fylgir borðhaldi.

Michael Ondaatje skrifar um „Síðasta blekið” í ljóði sem fjallar um það sem er skrifað: „Lífið á fornu laufblaði / eða þéttskipuðu 5. aldar innsigli”. Titill bókarinnar er fenginn úr þessu ljóði; „- birtan í húminu, skýjafarið / skráð um eilífð í hjarta þér”, og enn er verið að fjalla um minningar og skrásetningar og einhvarsstaðar blandast óhöndlanleg ást inn í málið. Minningar eru líka viðfangsefni ljóðs Robins Robertsons í „Garðvofan”, en þar stendur ljóðmælandi sig stundum að því að vera kominn út í hálfhrunið garðskýli þarsem vofa föður hans grætur, „en ég get ekki hjálpað honum því hann er látinn.” Ljóð Robertsons, líkt og Ondaatje eru táknhlaðin og þétt, öfugt við laus ljóð Carolyn D. Wright sem er síðasta skáldið í bókinni (stafrófsröðin sjáiði til). Flest ljóðin fjalla um hversdagsleg augnablik, sem þó líða á einhvern undarlegan hátt, eins og þegar dagurinn framundan er allt í einu mættur eða þegar hann vill ekki að hún lesi í rúminu, því hún fer „bara að sofa á kvöldin // ég fer í ferðalag.” Ljóðin eru hæg og uppsetningin með aukalínubilum milli ljóðlínanna grípur vel tilfinninguna fyrir seigfljótandi tíma. Eitt ljóðið sker sig þó úr og heitir „Re: Hamingja, í leit að”. Þar hleypir Carolyn ljóðinu meira á flug, enda vísar titillinn í tölvupóst, eitthvað sem svarað er í hraði og án mikillar umhugsunar. Enda hlaðast myndirnar upp: „Það er 2005, landtaka í nánd. / Ég er hér; völundarhús og alveg í steik.” Ljóðmælandi óskar eftir hjálp: „Þú finnur mig vinstra / megin við kirkjugarðinn, þar sem trén bresta / í málæði um nætur”. Enn seinna kemur svo tíminn við sögu: „Við erum á Azteka-tíma, fimmta og síðasta hring.” Og einhvernveginn leysist þetta svo allt upp í þessum tíma: „Ósýnileg nema þjálfaðasta auga. / Við verðum stjörnuryk. Eldgömul slóð eftir ekkert. Liðin andartök.”

Svo að ég haldi áfram myndlíkingum milli ljóða og ljóðalesturs, þá er ljóst að þessi ljóð eru ekki á leiðinni að leysast upp, þau eru hvorki ósýnileg þjálfuðum né óþjálfuðum augum, né eru þau eldgömul slóð eftir ekkert. Þau gætu þó verið hið ævintýralega fyrirbæri stjörnuryk, og eins og svo margt annað hljóta þau að vera liðin andartök, eins og þegar „Tungumál veitist að pappírnum úr lausu lofti”, í ljóði Ondaatjes.

Ljóðastarf hér á landi hefur alltaf verið fremur öflugt og er það ekki síst að þakka mikilvægu starfi skálda og þýðenda, eins og þeirra sem hér gefa okkur þessi ljóð, sem hafa kynnt íslenska lesendur og skáld fyrir hinum ýmsu kryddtegundum erlendra ljóða. Með þessari bók hefur enn bæst í þennan forða og ljóðaunnendum - og öðrum sem kannski bara vita ekki ennþá að þeir elska ljóð? - gefið tækifæri til að maula á sætum hnetum út árið.

Eða eins og segir í lokalínum ljóðs Carolyn Forcé:

Hér eru bækurnar þínar, sem standi þær í ljósum logum.
Haltu þig nærri, og vaktu svo þú getir sagt mér hver þú varst.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2009