Það er dauflegt á Kárahnjúkum; tvö sjónvörp og eitt fótboltaspil fyrir þúsund manns. Eilíft óveður. Það er eins gott að eitthvað fari að gerast. Og þá kemur Ævar Örn til bjargar. Í þessari þriðju glæpasögu Ævars koma Kárahnjúkar í stað herragarðsins, hins sígilda sögusviðs morðsögunnar, og er það ákaflega snjöll hugmynd sem er unnið vel úr. Afskekktur staður þar sem fram fara umdeildar framkvæmdir og fólk úr öllum áttum kemur saman, býður uppá fjölmarga frásagnarmöguleika sem Ævar lætur ekki framhjá sér fara. Og ekki er síðra að þetta er staður sem allir hafa skoðun á, en fáir hafa barið eigin augum; nýr staður í þjóðarvitundinni en ákaflega fyrirferðarmikill. Hér er dregin upp sannfærandi mynd af plássinu, einangruðu, einmanalegu, stórskornu og allt að því kvenmannslausu. Veðrið er hér ekkert skárra en í Vetrarborg Arnaldar, eilífur stormbyljandi, sem kælir inn að beini og undirstrikar nöturleika staðarins.
Skriða hefur hrunið og sex manns dánir. Hér hvarlar hugur lesandans að sjálfsögðu að öllum fréttunum um misgengi, jarðfræðirannsóknir og öryggiskannanir og þvílíkt og það sýnir hversu gjöfult það getur verið fyrir glæpasögu að notfæra sér atburði úr samtímanum. Það er líka ósköp þægilegt í þessari bók að hér eru notuð rétt nöfn á borð við Landsvirkjun og Impregilo, því eins og höfundur bendir sjálfur á í eftirmála, hefði annað virkað truflandi og ergjandi á lesendur.
Lögguteymið er nokkuð vel balanserað, sumir leiðinlegir, aðrir sympatískir, karlar og kona, ungir og reyndir. Það er snjallt að halda þeim veislu í upphafi til að leyfa nýjum lesendum Ævars að kynnast fólkinu og öðrum að endurnýja kynnin. Í veislunni og aðdraganda hennar er dregin upp skýr mynd af karakterunum og þær myndir fylgja manni gegnum bókina alla og duga vel til að skýra hegðunarmynstur hvers og eins. Það sem minnir svo aftur á herragarðsplottið eru samskipti okkar liðs við lögguna á staðnum, sem nýtist bæði í persónusköpun og plottframvindu.
Það verður að viðurkennast að ég var örlítið kvíðin þegar ég sá hvílíkur doðrantur var á ferðinni, heilar 400 síður, en léttleikandi stíllinn, hraður og fjörugur, með skemmtilegum samtölum og hæfilega mikið af frumlegum líkingum, og fimlega unnin fléttan gerir það að verkum að síðurnar rjúka hjá. Glæpasagan er greinilega komin til vits og ára hér á landi og er augljóst að fleiri og fleiri íslenskum höfundum er treystandi til að hafa ofan fyrir manni og stela af manni tíma eins og alvöru glæpasögum einum er lagið.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005