Beint í efni

Blóðberg, Aldrei nema kona, Hansdætur, Konan sem elskaði fossinn

Blóðberg, Aldrei nema kona, Hansdætur, Konan sem elskaði fossinn
Höfundur
Þóra Karítas Árnadóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Blóðberg, Aldrei nema kona, Hansdætur, Konan sem elskaði fossinn
Höfundur
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Blóðberg, Aldrei nema kona, Hansdætur, Konan sem elskaði fossinn
Höfundur
Benný Sif Ísleifsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Blóðberg, Aldrei nema kona, Hansdætur, Konan sem elskaði fossinn
Höfundur
Eyrún Ingadóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Eva Dagbjört Óladóttir

Sögulega skáldsagan hefur notið mikilla vinsælda undanfarið og í ár koma út þó nokkrar íslenskar skáldsögur sem byggja á sögulegum heimildum að mismiklu marki og eru þær afar fjölbreyttar bæði hvað varðar frásagnarhátt og efnistök. Hlutverk sögulegu skáldsögunnar virðist oft vera að varpa nýju ljósi á þekktar persónur og atburði en formið er líka sérstaklega vel til þess fallið að fjalla um heimsmynd og lífsskilyrði undirskipaðra hópa, þeirra sem hafa í gegnum tíðina verið látnir mæta afgangi bæði á sviði skáldskaparins og fræðilegra rannsókna. Þetta stafar m.a. af því að sögulega skáldsagan er fjölhæft form sem byggir á bæði eigindlegri og megindlegri þekkingu, þ.e.a.s. á bæði heimildum um sögulegar staðreyndir, samtímafrásögnum sem eru mishuglægar, skapandi textum á borð við ljóð og þjóðsögur, og auðvitað huglægu mati höfundar á hegðun og viðbrögðum persónanna. Því er auðveldlega hægt að laga form frásagnarinnar að mismundandi aðstæðum, sjónarhornum og gildismati.

Fjórar sögulegar skáldsögur sem koma út í ár eiga það sameiginlegt að fjalla um líf og stöðu kvenna á Íslandi fyrr á öldum. Þetta eru bækurnar Blóðberg eftir Þóru Karítas Árnadóttur, Aldrei nema kona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur, Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Konan sem elskaði fossinn eftir Eyrúnu Ingadóttur. Þessar bækur eru að mörgu leyti mjög ólíkar en fjalla þó allar um íslenska sögu og samfélag út frá sjónarhóli kvenna. Þær velta upp spurningum um þau öfl sem móta lífshlaup og heimsmynd kvenna sérstaklega, hvernig konur hafa lifað með kynhlutverkum sínum í gegnum tíðina og hvernig sögur líta út þegar þær eru sagðar á forsendum kvenna.

Í Blóðbergi leitar Þóra Karítas mun lengra aftur í söguna en hinir höfundarnir þrír en frásögnin nær yfir fjórtán ára tímabil í upphafi sautjándu aldar. Hún sækir innblástur í ævi Þórdísar Halldórsdóttur, ungrar konu í Skagafirði sem var tekin af lífi árið 1618 fyrir blóðskömm en henni var gefið að sök að hafa getið barn með mági sínum, Tómasi Böðvarssyni.

Í meðförum Þóru Karítasar er barnið sem Þórdís fæðir ekki getið af Tómasi heldur er þungunin afleiðing hópnauðgunar sem Þórdís verður fyrir en þorir ekki að segja frá, fullviss um að sér verði ekki trúað. Þannig er tvisvar brotið á Þórdísi, einu sinni þegar mennirnir nauðga henni og svo þegar yfirvöld gera hana ábyrga fyrir afleiðingum árásarinnar. Þetta bergmálar óhugnanlega frásagnir þolenda í dag en margir segjast upplifa lögreglurannsókn og dómsmeðferð sem aðra árás. Blessunarlega eru himinn og haf á milli stöðu kvenna í samtíma okkar og á tímum stóradóms en valdaleysi Þórdísar gagnvart samfélagi sem viðurkennir ekki sjálfsákvörðunarrétt hennar og persónuhelgi er því miður stef sem bergmálar um alla Íslandssöguna.

Þóra Karítas fléttar inn í frásögn sína upplýsingar um dóma yfir öðrum sakamönnum, sem og vangaveltur um þær breytingar sem urðu á íslensku réttarfari við siðaskiptin. Meðan Þórdís bíður þess að mál hennar verði leitt til lykta fréttir hún af aftöku annarrar konu árið 1615:

En það var ekki það eina sem gekk á og olli mér hugarangri þessi árin því ung kona á aldur við mig, Ragnheiður Magnúsdóttir, hafði drekkt fimm vikna gömlu barni sínu í læk norður á Svalbarðsströnd. Ég gat ekki ímyndað mér hvað hafði komið fyrir hana fyrst hún sá enga aðra leið en að deyða sitt eigið afkvæmi. Þegar upp komst um málið var henni drekkt á Helgastaðaþingi í Þingeyjarsýslu; Þorbergur Hrólfsson frændi minn var sýslumaðurinn sem dæmdi hana til dauða; allt vakti þetta ugg innra með mér. (166)

Þórdís getur ekki annað en tengt eigin örlög og örlög annarra dæmdra saman. Þetta styrkir frásögnina með því að víkka sögusviðið og sýna fram á stærra mynstur. Við erum ekki bara að lesa um eitt sakamál heldur heilt dómskerfi.

Aftur á móti veikir þetta líka frásögnina þar sem Þórdís er ekki dæmigerður sakamaður heldur er hún saklaus af glæpnum sem hún er dæmd fyrir. Þótt Þórdís laðist að Tómasi sefur hún aldrei hjá honum og barnið sem hún fæðir er getið gegn vilja hennar. Þórdís fellur því óþarflega vel að rótgrónum hugmyndum samtímasamfélags okkar um hið fullkomna, saklausa fórnarlamb. Sögupersónan Þórdís er ranglega sakfelld og sagan fer að snúast um ranglæti dómsins sem fellur yfir henni. Þá er hætta á að við gleymum því ranglæti sem þeir þurftu að þola sem voru ‚réttilega‘ sakfelldir. Því ranglæti að yfir höfuð hafi verið réttað yfir konum í stöðu Þórdísar og að sakfelling hafi þýtt þessa hrottalegu refsingu.

Ólíkt Blóðbergi, sem segir frá stuttu tímabili í ævi einnar konu, fjallar Aldrei nema kona um 110 ára tímabil og segir frá ævi þriggja kvenna. Þetta eru langmæðgur höfundarins Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur, þær Ragnhildur Jónsdóttir, Guðrún Gísladóttir einkadóttir hennar, og svo yngsta dóttir Guðrúnar, Steinunn Oddsdóttir. Konurnar eru allar fátækar og heyja harða lífsbaráttu sem leiguliðar, húskonur og vinnukonur.

Sveinbjörg teflir fram gífurlegu magni upplýsinga um formæður sínar, samferðafólk þeirra og lífshætti í landinu á sögutímanum. Textinn er að mestu samsettur úr tvenns konar frásögn. Annars vegar hlutum með einskonar annálabrag þar sem farið er frekar hratt yfir sögu, stokkið yfir lengri tímabil, lítið staldrað við dagleg samskipti og hversdagslegar upplifanir og mikið gefið af eigindlegum upplýsingum um nöfn, örnefni, ártöl og viðburði. Á móti koma hlutar þar sem staldrað er við; hugrenningum, hughrifum og líkamlegum upplifunum er lýst og lesandinn fær að deila upplifunum persónanna. Saman við þetta tvinnar Sveinbjörg svo ljóð, þjóðsögur, texta úr sögubókum og opinberum skjölum og eigin ljóð. Heildin sem þannig skapast er flókin, jafnvel yfirþyrmandi, og verður stundum til þess að erfitt er að kynnast persónunum og tengjast þeim. Hins vegar gefur þessi nálgun höfundinum, líkt og í Blóðbergi, færi á að víkka sögusviðið og sýna upplifanir persónanna í stærra samhengi. Við sjáum sömu aðstæður skapast aftur og aftur um allt landið og fáum yfirsýn yfir kerfisbundna kúgun kvenna og eignalausra, óháð því hvernig einstökum sögupersónum reiðir af.

Líf kvennanna þriggja einkennist af óvissu og valdaleysi. Í samfélagi átjándu og nítjándu aldar hafa yfirvöld gífurlegt vald yfir eignalausum og þykir eðlilegt að stía í sundur bæði pörum og foreldrum og börnum. Valdaleysi  gagnvart yfirvöldum er m.a. lýst þegar Steinunn og unnusti hennar, Jón, eru kölluð fyrir hreppstjóra. Þau eru trúlofuð og eiga tvö börn en eru vinnuhjú á bæjum annarra.

Páll er dálítið vandræðalegur í fyrstu en tekur svo á sig rögg.

— Ég er hér í umboði sýslumanns sem hefur farið fram á það við mig að tilkynna ykkur að öðru ykkar er skylt að yfirgefa sýsluna. Það virðist ekki vera nóg að leyfa ykkur að vera hvort í sinni sókninni. Þið hafið skákað ykkur niður svo nærri sóknarmörkum að samgangur hefur reynst ykkur of auðveldur. Sýslumaður hefur einnig gengið frá ráðningu Jóns sem vinnumanns á Stafni í Svartárdal, það er að segja Svartárdal í Húnavatnssýslu.

[...]

— Væri ekki nær að finna handa okkur jörð hér í Skagafirðinum til ábúðar í stað þess að sundra fjölskyldunni?

— Þið eruð ekki beinlínis fjölskylda. Hreppstjórinn leggur áherslu á orð sín og er ekkert að hlífa unga fólkinu. — Ógift vinnufólk á ekkert með að vera að hrúga niður börnum sem fara svo á sveitina. Auk þess er engin jörð laus til ábúðar.

Það fýkur í Steinunni. Hana langar mest til að ráðast á hreppstjórann, bíta og klóra, en auðvitað gerir hún það ekki. Það gæti orðið henni dýrkeypt.

— Ég og mín börn hafa [sic] ekki kostað sveitina neitt. Við erum hraust og getum alveg unnið fyrir okkur.

— Það er nú samt svo að hætt er við að börnunum fjölgi og þið gerið ekki meira en að skrimta við þessar aðstæður. En þetta er sem sagt skipun frá sýslumanni og henni verðið þið að hlýða. Annars dæmir hann ykkur til hýðingar eða fjársektar. (175-176)

 

Það skiptir yfirvaldið engu að þau líti á sig sem fjölskyldu, þau „eiga ekkert með“ að eiga börn saman.

Óttinn við að missa ástvini, börn eða heimilið bergmálar um alla frásögnina. Bæði aðal- og aukapersónur standa ítrekað frammi fyrir slíkum missi og inn í frásögnina er reglulega skotið upplýsingum um barnadauða vegna slysa og veikinda og aðra atburði sem verða til þess að fjölskyldur sundrast. Þannig hefst frásögn af árinu 1847 svona:

Snemma um vorið berast fréttir af því að nýtt þilskip Jóns í Eyhildarholti og Péturs á Reykjum hafi týnst á Húnaflóa í útnorðanroki og snjókomu. Áður hafði áhöfn verslunarduggu séð tvo menn taka út af skipinu. Þarna fórust margir ungir og efnilegir menn. Heimili eru leyst upp, skagfirskum ekkjum og börnum ráðstafað eftir því sem sýslumanni og hreppstjórum þóknast. Konur og börn fá engu ráðið. (227)

Svona undirstrikar yfirgripsmikil frásögnin að ótryggar aðstæður stafi ekki af sérstakri óheppni kvennanna þriggja. Þetta eru þau lífsskilyrði sem fátækar konur um landið allt hafa glímt við.

Þær skorður sem fátækum konum eru settar eru líka áberandi stef í Hansdætrum Bennýar Sifjar Ísleifsdóttur. Sögusvið bókarinnar er Arnarfjörður á Vestfjörðum í upphafi tuttugustu aldar en ólíkt hinum bókunum þremur eru persónurnar uppskáldaðar. Sagan segir frá unglingsstúlkunni Gratíönu Hansdóttur sem býr í Arnarfirði ásamt móður sinni, bróður og systur. Fjölskyldan er fátæk og flytur inn á heimili efnaðs móðurbróðurs Gratíönu og fjölskyldu hans. Í þessu umhverfi fær Gratíana innsýn í ólíka reynsluheima og fylgist með lífsháttum og samskiptum hinna fátæku og hinna ríku, kvenna og karla. Hana óar við þeirri framtíð sem virðist bíða hennar og annarra stúlkna og berst fyrir réttlátara samfélagi.

Heimur kvennanna í kring um Gratíönu er lítill og afgirtur á alla kanta af hinum efnislega heimi. Það er hlutverk þeirra að sinna líkamlegum þörfum: þær elda mat, þvo þvotta, þrífa heimilin, sinna sjúkum, annast börn, sauma, prjóna og sjá til þess að grunnferlar daglegs lífs gangi snurðulaust fyrir sig. Utan heimilisins þvo þær svo og þurrka fisk fyrir brot af karlmannslaunum. Það sem mótar öðru fremur lífsskilyrði þeirra eru þunganir og barneignir en móðurhlutverkið er það sem fyrst og fremst smækkar veröld þeirra.

Í þennan agnarsmáa og holdlega heim er ítrekað vísað í frásögninni, t.d. þegar öll fjölskyldan lokast inni í húsinu vegna veðurs. Annað dæmi um það er hlutskipti Rannveigar, fátækrar vinkonu og jafnöldru Gratíönu sem tekur við rekstri barnmargs heimilis eftir að móðir hennar deyr. Þegar Gratíana heimsækir hana í gömlu verbúðina þar sem hún býr eiga þær þetta samtal:

„Ég var að hengja upp,“ segir Rannveig hýrlega og prísar sig sæla að þurfa ekki lengur að hengja tauið sitt yfir pottunum, þótt það væri reyndar með skárra móti núna því það sé bara rúggrautur að malla á vélinni, seinna í dag sjóði hún svo saltaðan steinbít.

„Eitthvað lyktar samt skringilega hérna,“ segir Gratíana og þefar út í loftið, þykist þekkja sæta lyktina af grautnum, viðvarandi soðningarlykt, lykt af raka og sagga í bland við hreingerningalykt; líklega salmíak og lýsól, en yfir þessu öllu liggur einhver óþekkt angan.

„Ætli það séu ekki þönglarnir,“ ályktar Rannveig, sem hefur af forsjálni týnt saman sjávarfang úr fjörunni og drýgt með því eldiviðinn þegar hún fær það í þurrk.

„Þú ert svo búleg,“ hrósar Gratíana vinkonu sinni en vildi óska að hún hefði um annað að hugsa en húshaldið.

„Ég kemst ekki mikið lengra með börnin en hingað út í fjöruna,“ svarar Rannveig og finnst gott að dunda sér við eitthvað gagnlegt meðan börnin rjátla um, Rósmundur sé orðinn kraftmikill og vilji vera úti og Ólafía Rósa sé farin að staulast um. (267)

Þótt hún sé enn unglingur er búið að króa Rannveigu af í hlutverki konunnar og hún kemst ekki eitt augnablik burt úr efnislegum veruleika heimilishaldsins.

Gratíana ímyndar sér að utan við þennan heim liggi huglægur heimur karlmanna sem skrifa, mennta sig og „geta gert það sem þeir vilja!“ (262). Hún ákveður því að hún skuli aldrei eignast mann og börn heldur lifa eins og karlmaður. Smám saman sér hún þó að konur geti skapað sér rými á ýmsan hátt og að ef til vill sé vænlegra til árangurs að finna nýjar leiðir til að vera kona.

Eins og áður segir eiga Hansdætur að gerast á fyrri hluta tuttugustu aldar en Konan sem elskaði fossinn eftir Eyrúnu Ingadóttur gerist a sama tímabili. Hún byggir á ævi Sigríðar í Brattholti og segir frá baráttu hennar gegn virkjunaráætlunum við Gullfoss sem var í landi fjölskyldu hennar.

Sigríður er smám saman orðin að íslenskri alþýðuhetju og eins og títt er um slíkar persónur hefur ímynd hennar allt að því öðlast sjálfstætt líf. Eyrún blandar inn í línulega frásögn sína af baráttu Sigríðar vangaveltum um ímynd Sigríðar, skilning almennings á baráttu hennar og eðli frásagna á borð við þessa. Þetta má m.a. sjá í þremur köflum sem lýsa viðkomu ókunnugra í Brattholti og sýna Sigríði með augum þeirra. Einn þeirra er hinn 16 ára Gísli sem hittir Sigríði í fyrsta sinn:

Nú horfði hann forvitnum augum á gömlu konuna sem hann hafði svo oft heyrt talað um. Hún var með ljóst hár fléttað aftur á bak í tveimur fléttum, dökkar og miklar augabrúnir og hrukkótt andlit. Blár kjóllinn sem hún klæddist var hnepptur að framan, bæði gamall og þvældur, og hún var með snæri bundið um sig miðja. Þótt hún væri búin líkt og aðrar kerlingar í sveitinni, þá fannst Gísla eitthvað í fari hennar öðruvísi. Hún minnti hann á konur úr Íslendingasögunum sem hann hafði lesið svo oft: Hallgerður langbrók, Bergþóra á Bergþórshvoli og jafnvel Guðrún Ósvífursdóttir komu honum í hug. Hann vissi að hún var baráttukona eins og þær. (7)

Hér er Sigríður sett undir sama hatt og kvenpersónur úr aldagömlum sögum sem hver kynslóð á fætur annarri hefur túlkað upp á nýtt. Hallgerður, Bergþóra og Guðrún eru löngu orðnar að táknmyndum sem breytast örlítið í hvert sinn sem við lesum eða hugsum um þær. Nú þegar Sigríður er komin í þeirra flokk á kannski eitthvað svipað við um hana. Þetta undirstrikar líka að þótt frásögn Eyrúnar, sem er sagnfræðingur, byggi á mikilli rannsóknarvinnu er hún engu að síður túlkun og sú Sigríður sem hún segir frá er skáldsagnapersóna.

Vangaveltur um frásagnir og ímyndir má einnig sjá seint í sögunni þegar á að heiðra Sigríði fyrir starf sitt. Alþingismaður hringir í vinafólk Sigríðar til að fá staðfest að í ræðu sem hann ætlar að halda um hana sé farið með rétt mál:

— Þegar hún var á góðum aldri, þá kom til orða að leigja Gullfoss erlendu félagi sem hafði tekið vatnsréttindi á leigu og ætlaði að virkja fallvötn. Faðir Sigríðar hafði gengið alllangt í því að leigja Gullfoss en Sigríður undi því illa og lét í ljós við föður sinn að þetta hefði hann aldrei átt að gera. Fossinn, þótt ekki væri hann numinn á brott, ætti að vera íslenskur eins og hann hefði ætíð verið og í þjónustu Íslendings, en einskis annars.

— Ja, nú er ég ekki viss um að þér hafið rétt fyrir yður, sagði Sigurlaug.  — Ég held að Sigga hafi bara alls ekki viljað að nokkur maður, innlendur eða erlendur, myndi eyðileggja fossinn.

Það kom hik á hinum enda línunnar. — Ja, ég hef alltaf heyrt talað um þetta svona.

Sigurlaug brosti. Þessir karlar voru allir eins, nú vildi Jörundur ekki hlusta á hvað hún hafði að segja.

— Haldið þér áfram, sagði hún. (245)

Þingmaðurinn styður baráttu Sigríðar en getur ekki samþykkt að hvatir hennar og hugmyndir getir verið ólíkar hans eigin. Hann er búinn að setja saman þann söguþráð sem þjónar tilgangi hans og sér enga ástæðu til að breyta honum þótt honum bjóðist nýjar upplýsingar. Sigurlaug, vinkona Sigríðar, gerir sér fulla grein fyrir af hverju hegðun hans stafar en sögur kvenna hafa gegnum tíðina ítrekað verið lagaðar að forsendum þeirra sem segja þær.

Eins og áður segir nálgast höfundarnir fjórir viðfangsefni sitt á mjög mismunandi hátt. Þó glíma þær allar við sömu spurningarnar. Hvernig mótast frásagnir af kyni og stöðu sögumanna og persóna? Hvaða áhrif hefur efnislegur veruleiki okkar á hugsun okkar og lífshlaup? Og síðast en ekki síst, hvar er rými fyrir mótspyrnu? Þetta eru flóknar og margþættar spurningar og þörf á þessari fjölbreyttu sagnaflóru til að gera þeim skil.


Eva Dagbjört Óladóttir, desember 2020