Tegundabókmenntir svokallaðar eða bókmenntagreinar („genre“) hafa aldrei þótt fínn pappír, ekki erlendis og allsekki hérlendis. Þó hafa glæpasögur náð að hefja sig upp yfir þessa fötlun og einstaka vísindaskáldsaga sömuleiðis. „Viðurkenndir“ ástarsagnahöfundar eru sjálfsagt taldir á fingrum annars hnésins og sömuleiðis koma hrollvekjuhöfundar almennt illa út úr aðgreiningarhyggju bókmenntakanónunnar, eða ætti ég að segja hins menningarlega höfuðstóls? („cultural capital“). Stephen King er dæmi um höfund sem er gífurlega mikið lesinn og situr fastur á öllum metsölulistum, en þegar hann var (loksins) verðlaunaður í fyrra fyrir störf sín á sviði bókmennta risu kunnir rithöfundar uppá afturlappirnar og spangóluðu: fannst í hæsta máta óviðeigandi að höfundur af þessu tagi hlyti bókmenntalega viðurkenningu. Þó hafa sjálfsagt fáir aðrir nútímahöfundar lagt jafnmikið af mörkum til bókarinnar og bóklestursins. (Sjá frekar um King í umfjöllun minni um 8 gata buick annarsstaðar hér á vefnum). En eins og áður er komið að hafa þessar tegundabókmenntir átt sérlega erfitt uppdráttar hér á landi og þá sérstaklega þær bókmenntagreinar sem fara yfir á svið hins fantastíska, fantasíur, vísindaskáldsögur og hrollvekjur. Á undanförnum árum hefur glæpasagan loks náð að ryðja sér til rúms í íslensku bókmenntalandslagi og mögulega þarmeð náð að ryðja brautina fyrir aðrar tegundir. Allavega er nú komin á markað splunkuný íslensk hrollvekja, Börnin í Húmdölum, eftir Jökul Valsson.
Sagan sver sig í ætt við bækur Stephen Kings að því leyti að hún er mikil og þykk, auk þess sem aðalsöguhetjurnar eru börn, en King notar einmitt oft það bragð til að undirstrika óhugnaðinn. Í útjaðri borgar stendur risastór blokk og þar býr sundurleitur hópur fólks sem á það helst sameiginlegt að vera fremur blankur og mega sín lítils í samfélaginu. Hér eru þeir atvinnulausu, einstæðu mæðurnar, innflytjendur, alkahólistar og þeir sem veikir eru á geði. Og hér eru svo auðvitað börnin þeirra líka. Allt upphefst þetta með því að börnin dreymir illa (alkahólistana reyndar líka). Í kjölfar draumanna fara þau svo að verða vör við að eitthvað ókennilegt er á seyði í skápum og undir rúmum. Að sjálfsögðu taka foreldrarnir ekki mark á slíku (pabbi Nonna, annarar aðalsöguhetjunnar, segir strangur að það séu ekki til nein skrímsli! en Nonni veit betur) og því verða börnin að taka til sinna ráða. Hægt og hægt kemur betur og betur í ljós að hér er eitthvað ekki eins og það á að vera, fólk hverfur, eða byrjar að hegða sér undarlega. Í ljós kemur að þessir dularfullu atburðir virðast tengjast dreng sem býr á efstu hæðinni með blindri ömmu sinni, en hann býr yfir einkennilegum kröftum sem gera honum kleyft að hreyfa hluti með hugaraflinu. Sú eina sem getur spornað við þessum hæfileikum hans er Brynja, vinkona Nonna og hin aðalsöguhetjan, en það er einmitt hún, í félagi við Nonna og jafnöldru þeirra Eydísi, sem á endanum verður að takast á við óvættirnar. Núnú, það er svosum engin ástæða til að lýsa þessu frekar heldur bara mæla með því að sem flestir hvolfi sér yfir bókina í skammdeginu, eftir að hafa neglt aftur skápana og sett músagildrur undir rúm.
Eins og algengt er í hrollvekjunni eru hér félagslegir undirtónar, óáranin í blokkinni á sér hliðstæðu í óhamingjusömu lífi fólksins sem byggir hana, þrífst reyndar á henni. En Jökull heldur öllu vel til haga og gengur aldrei of langt með slíkar táknsögur. Í heildina séð er þetta því vel heppnuð hrollvekja – á stundum fannst mér að það hefði mátt stytta aðeins, en þó aldrei svo að það kæmi verulega að sök. Stíllinn er fremur átakalaus eins og er við hæfi, og ekki er hikað við að gera börnin „fullorðinsleg“ í tali og hugsun sem virkar vel. Þannig tekst höfundi (against all odds) að halda sögunni innan marka „trúverðugleikans“ að því leyti að hann blandar alla þessa yfirnáttúrulegu atburðarás hæfilega mikið raunsæislegri umfjöllun um hinn hversdagslega óhugnað sem þrífst innan veggja heimilanna, það er að segja ofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt. Slíkur er einmitt háttur King, sem óneitanlega kemur nokkuð oft upp í hugann þegar sagan er lesin. Sömuleiðis eru þarna þræðir úr öðrum hrollvekjum, t.d. The Fury eftir John Farris og japönsku myndasögunni Domu, eftir Katsuhiro Otomo, en í þeirri sögu er einmitt sagt frá óvætt sem býr í stórri blokk og þvingar fólk til að fremja sjálfsmorð. Á endanum er það lítil stúlka sem spyrnir við fótum og berst á móti. Einn af mínum uppáhaldshrollvekjuhöfundum Ramsey Campbell kom einnig upp í hugann, hann er breskur og hefur einmitt fágað þennan stíl óhugnaðar og ókennileika í bland við hæfilega mikið af líkamshryllingi. Nú skal strax taka fram að hér er ekki verið að telja upp líkindi við höfunda og verk til að gera lítið úr sögu Jökuls, þvert á móti, textatengsl af þessu tagi er einmitt eitt höfuðeinkenni hrollvekjunnar sem þrífst á „sjálfsáti“ ef svo má segja, vísanir og tengls milli verka eru hreinlega lífsblóð þessarar eðlu bókmenntagreinar.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004