Beint í efni

Dimma

Dimma
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það spunnust nokkrar umræður um Dimmu Ragnars Jónassonar eitt morgunsárið á Borgarbókasafninu. Einni fannst bókin ekki mjög merkileg – hann hefur skrifað betri bækur, sagði hún með þunga –, annarri fannst hún bara sallafín. Mér leiddist aldrei lesturinn, sagði ein, ég lagði hana ekki frá mér, sagði önnur. Sú sem hafi verið skeptískust var sammála þessu. Ég velti því upp hvort það væri endilega málið að ætlast til að allt væri merkilegt? hvort það væri ekki bara allt í lagi að sumar bækur væru ágætar, ánægjuleg afþreying á meðan lestrinum stæði, og það gátu allar verið sammála um. Hún kemur líka inn á allskonar hluti sem eru til umræðu í samfélaginu, það var líka sameiginleg niðurstaða. Og svo má líka alveg enda svona, bætti sú við, sem í upphafi hafði verið minnst hrifin.

Sjálf hafði ég einmitt lesið bókina í einni setu og verið dálítið hugsi yfir henni. Ég hafði vissulega gaman af lestrinum, Ragnar skrifar áferðarfallegan og liðlegan stíl og segir áhugaverða sögu. Hér er hann á nýjum slóðum, það er að segja, ekki lengur á Siglufirði. Dimma gerist í Reykjavík (og á Suðurnesjum) og það er miðaldra kona, Hulda Hermannsdóttir, sem er í aðalhlutverki. Hún er að fara á eftirlaun og kvíðir því frekar, og ekki bætir úr skák að yfirmaður hennar, snöggtum yngri maður, ‚býður‘ henni að hætta enn fyrr, því það þurfi að rýma pláss fyrir ungum manni á uppleið. Hulda fær tvær vikur til að ganga frá sínum málum og henni er gefið fyllilega í skyn að hún þurfi ekki að nýta þær til mikillar vinnu.

En Hulda hefur áhuga á sínu starfi og þegar hún fær frjálsar hendur ákveður hún að sinna ‚köldu‘ máli, sem þó er varla mál, hvarfi rússneskrar stúlku. Hún veit að lögreglumaðurinn sem vann að því gerði það illa og veit líka að mál horfins hælisleitenda fær ekki forgang. Að sjálfsögðu kemur svo ýmislegt í ljós þegar hún hefur sína rannsókn, bæði hvað varðar málið og stöðu Huldu innan lögreglunnar. Ennfremur er skotið inn köflum úr fortíð, frá ungri móður sem heimsækir dóttur sína á fósturheimili en fær aðeins að horfa á hana í gegnum gler, og seinna koma lýsingar á nokkru sem greinilega er vafasöm útivistarferð.

Það er því ljóst að þarna er einmitt snert á margvíslegum málum, en auk þess að taka til stöðu kvenna í lögreglunni og stöðu hælisleitenda kemur kynferðisofbeldi við sögu. Í upphafi er Hulda að rannsaka árás á barnaníðing og hefur fengið játningu móður eins fórnarlamba hans, sem viðurkenndi að hafa keyrt manninn niður. Hún ákveður þó að gera ekkert með þessa játningu. Það er ekki endilega þannig að hér sé verið að segja eitthvað nýtt um þessa hluti, heldur bara nota kunnugleg temu til að setja saman afar læsilega glæpasögu, sem jafnframt er einskonar hugleiðing um glæp – og refsingu. Og það er út af fyrir sig alveg nóg og fullgilt.

Það er mikilvægt að hafa í huga að bækur þurfa ekki endilega að raða sér í andstæðuparið stórkostlegt/ömurlegt, flestar bækur finna sér stað á rófinu þar á milli. Dimma er stutt og fremur einföld í sniðum, það er ekki mikið um umhverfislýsingar eða málalengingar, fléttan rekur sig átakalaust áfram, en undir lokin kemur svo ýmislegt óvænt í ljós. Þannig séð má vel segja að þetta sé ekki sérstaklega meiriháttar bók, en það þýðir ekki að hún sé slæm. Hún er einfaldlega fremur látlaus en nær þó að koma inn á heilmargt og vekja til umhugsunar.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2015