Beint í efni

Doddi: ekkert rugl!

Doddi: ekkert rugl!
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Í fyrra kom út eftir þær Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur bókin Doddi - Bók sannleikans! þar sem aðalpersónan Doddi tók að sér að skrifa bók sem hann langaði sjálfan til að lesa. Samkvæmt því sem fram kom í upphafi þeirrar bókar fannst Dodda vanta sárlega skemmtilegar bækur fyrir unglinga, sem þeir nenntu að lesa. Þessi gagnrýni Dodda (og höfundanna) er ekki úr lausu lofti gripinn og á ekki síður við í ár en í fyrra, því hver sá sem flettir Bókatíðindum 2017 sér að framboðið á lesefni fyrir ungmenni er mjög fátæklegt þetta árið og nær ekki yfir nema eina opnu í blaðinu. Samtals telja ungmennabækur í ár 14 titla og þar af eru ekki nema fimm eða sex frumsamdar íslenskar skáldsögur!

Doddi - Ekkert rugl! er ein af þessum örfáu bókum og er beint framhald á Doddi - Bók sannleikans! Hér fáum við aftur að fylgjast með unglingnum Dodda sem heldur áfram einskonar óformlega dagbók um líf sitt. Sagan hefst að þessu sinni í upphafi vorannarinnar í 9. bekk, eða um það leyti sem fyrri bókin endaði. Doddi er sem fyrr aðalsöguhetjan og fær lesandinn alfarið hans sjónarhorn á lífið og tilveruna. Það verður þó strax í upphafi ljóst að Doddi er ekki endilega mjög traustur sögumaður en ýmis atriði í frásögninni benda til þess að kannski gerist hlutirnir ekki alveg nákvæmlega eins og hann lýsir þeim. Hann bendir líka sjálfur reglulega á að hinir og þessir, mamma hans til dæmis og besti vinurinn Pawel, haldi því fram að hann sé gjarn á að ýkja eða blása hlutina upp í túlkun sinni og viðbrögðum. Hann veltir því meira að segja sjálfur fyrir sér í upphafi sögunar hvort sé kannski eitthvað til í þessu hjá þeim þar sem Hulda Rós, ástin í lífi hans, hefur yfirgefið hann fyrir eldri strák. Hann spyr sig í framhaldinu hvort hann hafi mögulega bara ímyndað sér samband þeirra og þau hafi í rauninni ekki verið kærustupar, eins og hann taldi þó að væri alveg víst. Þessi sjálfsefi nær þó ekki mikið lengra en til ástarsambandsins og ýkt og jafnvel dramatísk viðbrögð Dodda eru gegnumgangandi í sögunni, en hann sér þau ekkert endilega sjálfur, eða sér þá ekkert athugavert við þau.

Margt hefur breyst í lífi Dodda í upphafi annar, annað en ástarmálin. Mamma hans er til dæmis komin með nýtt og betur launað starf á hóteli í miðbænum. Líf þeirra mæðgina er orðið mun þægilegra fyrir vikið og Doddi þarf ekki lengur að fara til pabba síns í Grafarvog þegar er ekki til matur heima. Doddi er hins vegar mikið einn þegar mamma hans er á kvöldvöktum en það fær ekkert sérstaklega á hann og hann finnur sér ýmislegt að gera, misgáfulegt að vísu. Mamma hans er alsæl með nýja starfið og bættan fjárhag og hefur meira að segja kynnst nýjum kærasta sem er reglulegur gestur á hótelinu. Dodda finnst þessi nýi maður í lífi mömmu hans hins vegar í meira lagi dularfullur og þeir Pawel taka að sér að komast til botns í því hver hann er í raun og veru, svona ef ske kynni að hún skyldi vera að koma sér í einhver vandræði.

Ýmsir raunverulegir atburðir eru fléttaðir inn í frásögn Dodda, allt frá dægurmenningu – meðal annars í formi „þáttarins hans Gísla Marteins“ – yfir í mótmæli á Austurvelli og fall ríkisstjórnarinnar (ekki þeirrar síðustu heldur þar á undan). Það er alltaf ákveðin áhætta fólgin í því að nota raunverulega atburði á þennan hátt þar sem það vill eldast illa þegar lesendur komandi ára kannast ekki við vísanirnar en þar sem þær eru hér frekar á almennum nótum ætti það ekki að koma að sök. Hins vegar gerir tenging við nýliðna atburði í pólitík og samfélagslegt umrót liðinna mánuða að verkum að Doddi - Ekkert rugl! er öllu alvarlegri en Bók sannleikans! þó að þar hafi vissulega einnig verið tæpt á hlutum sem mega betur fara í samfélaginu. Örfá atriði eru reyndar svolítið truflandi í því hvernig raunverulegir atburðir eru settir fram í frásögn Dodda, sem fær frekar stórt hlutverk í nokkuð alvarlegri atburðarás sem á sér stað við mótmæli gegn ríkisstjórninni. Doddi tekur því sem hann lendir í frekar létt, kannski einum of létt, en eins og fyrr sagði er hann ekki mjög áreiðanlegur sögumaður og má vel ímynda sér að hann dragi úr og bæti í þar sem honum finnst það eiga við. Hins vegar er svolítið truflandi að raunveruleg, þekkt persóna er til umfjöllunar í sögunni, ekki bara sem hluti af stærri atburðarás heldur skáldar sagan atriði í einkalífi hennar, sem er svolítið umhugsunarvert þar sem viðkomandi á sér alveg örugglega líf sem er allt öðruvísi en í bókinni. Þó nokkuð af atburðarásinni hangir á því hver þessi persóna er, og því verður ekki ljóstrað upp um hvern ræðir hér!

Doddi - Ekkert rugl! er á heildina litið afar skemmtileg og fyndin. Húmorinn jaðrar stundum við það að vera neðan beltis en Dodda tekst að varpa spaugilegu en oft egósentrísku ljósi á ýmsa athyglisverða atburði undanfarinna mánuða og sýna þá frá algerlega nýju, en ekkert endilega gáfulegu, sjónarhorni. Besti vinurinn Pawel, sem er ein áhugaverðasta persónan í sögunni, hefði alveg mátt fá stærra hlutverk því skoðanir hans eru oft ólíkar skoðunum Dodda og þegar hann fær að njóta sín gefur það frásögninni aukna dýpt. Þeir félagarnir vega hvorn annan fullkomlega upp. Undir oft á tíðum gamansömu yfirborði sögunnar má svo sjá alvarlegri undirtón með gagnrýni á ýmislegt sem hefur gerst í samfélaginu á undanförnum árum, og bókin er þannig ekki bara skemmtiefni heldur til þess fallin að vekja til umhugsunar um nýlega atburði og viðbrögð okkar við þeim.

María Bjarkadóttir, desember 2017