Tilhugsunin um að geta ferðast í tíma hefur heillað marga enda býður tímaflakk upp á endalausa möguleika. Kannski væri hægt að breyta fortíðinni eða sjá framtíðina, eða að upplifa merkilega sögulega atburði og sjá hvernig fólk lifði í raun fyrir mörg hundruð árum. Í Drauga-Dísu eftir Gunnar Theodór Eggertsson verður þessi draumur margra að veruleika þegar hin 14 ára gamla Dísa uppgötvar tímahlið í sumarbústaðarlandi foreldra sinna. Gunnar Theodór hlaut íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bók sína Steindýrin árið 2008 en sjálfstætt framhald hennar, Steinskrípin, kom út árið 2012.
Drauga-Dísa segir frá tveimur unglingum hvorum á sínum tíma í Íslandssögunni: Birni sem elst upp á bóndabæ á Suðurlandi í kringum árið 1700 og Dísu sem er á svipuðum aldri en býr með foreldrum sínum í Reykjavík nútímans. Þrátt fyrir að þrjár aldir skilji þau að eiga þau margt sameiginlegt en bæði eru svolítið útundan og jafnaldrar þeirra gera lítið úr þeim og leggja þau í einelti. Í tilfelli Björns er það eldri bróðir hans og fleiri á bænum sem standa fyrir stríðninni en kvalari Dísu er Emílía, sem var einu sinni besta vinkona hennar en er núna forsprakki heillar klíku af villingum sem tekur Dísu fyrir hvenær sem færi gefst. Líf Björns og Dísu tengjast óvænt saman þegar hún ákveður að fara með foreldrum sínum í bústað frekar en að þurfa að mæta Emilíu og klíkunni á skólaballi.
Dalurinn þar sem bústaðurinn stendur er í eyði en þar var áður blómleg byggð. Efst í honum stendur undarlega mannlegt tré sem Dísa hefur alltaf verið svolítið hrædd við. Milli þess sem hún skrifar sögur í dagbækurnar sínar og lætur sig dreyma um hefnd gegn Emilíu fer hún í gönguferðir um dalinn og í einni slíkri göngu ákveður hún að skoða tréð betur. Fyrir slysni uppgötvar hún að tréð er ekki bara venjulegt tré heldur hlið milli tveggja tíma og þegar Dísa fer í gegn flyst hún þrjúhundruð ár aftur í tímann. Skömmu eftir fyrstu ferðina snýr Dísa aftur til fortíðarinnar og rekst þá á bóndasoninn Björn sem dregur þá ályktun að hún hljóti að vera álfur. Þau verða strax miklir vinir en Dísa er algerlega heilluð af fortíðinni og reynir að koma eins oft og hún getur að hitta Björn, milli þess sem hún tekst á við Emilíu og félaga í skólanum. Þegar Emilía gengur endanlega fram af Dísu í skólanum ákveður hún að nú sé nóg komið og hún muni hefna sín í eitt skipti fyrir öll. Á sama tíma eru skrímsli og hættulegar skepnur komin á stjá og Dísa og Björn þurfa að glíma við atburðarás sem þau ráða engu yfir en getur breytt öllu um framtíð þeirra.
Dísa er aðalpersóna sögunnar en sjónarhornið skiptist á milli hennar og Björns og sagan gerist þannig bæði í nútímanum og á 18. öld. Líf Dísu í nútímanum er nokkuð venjulegt, hún fer í skólann þar sem klíkan ræður öllu en reynir að einbeita sér að því að skrifa sögur þegar hún er heima. Daglegu lífi Björns er einnig lýst á sannfærandi og áhugaverðan hátt og lesandinn fær innsýn í hvernig heimilisaðstæður, matarvenjur, vinna og samskipti við aðra gætu hafa verið fyrir ungling á Íslandi fortíðarinnar. Í heimi Björns er ríkjandi trú á galdra og skrímsli og ansi hættulegt að vera á ferli eftir að myrkrið skellur á. Skrímslin á Íslandi fortíðarinnar eru þó ekki bara til í þjóðsögum og hugum fólks heldur eru þau raunveruleg og af þeim stafar mikil ógn en Björn virðist einstaklega laginn við að koma sér í návígi við alls konar stórhættulega og frekar hræðilega óvætti.
Uppbygging sögunnar er óvenjuleg þar sem hefðbundin línuleg frásögn er brotin upp á frumlegan hátt. Annars vegar hafa tímaferðalögin það í för með sér að tímaröð atburða er óhefðbundin en hins vegar er framsetning á því hvernig tímanum líður áhugaverð: stundum er eins og hann fljúgi hjá án þess að beint sé hlaupið yfir neitt en stundum er staldrað við og sagt frá ákveðnum atburðum sem skipta máli. Í sögum af tímaflakki verður oft til flókin keðjuverkun þegar persónur fara fram og aftur í tíma og eiga það til dæmis á hættu að hitta sjálfar sig eða rugla atburðarásina. Í Drauga-Dísu skarast ferðalögin vissulega að einhverju leyti en vandamálið er leyst á mjög hugmyndaríkan hátt og sagan er alveg laus við ruglinslegan samslátt tímaferðalaga.
Umhverfi sögunnar er lifandi bæði í fortíð og nútíð og sögulegir atburðir og þjóðsögur eru skoðuð frá nýju sjónarhorni. Stíllinn er léttur og tekst vel að miðla hugsunarhætti mismunandi tíma í gegnum persónurnar án þess að þær verði of framandi eða uppskrúfaðar. Drauga-Dísa er skemmtileg og frumleg og kemur ítrekað á óvart, erfitt er að leggja bókina frá sér á köflum enda er hér á ferðinni öðruvísi saga af samspili fortíðar og nútíma sem býður upp á nýstárlegar söguskýringar, spennandi söguþráð og smávegis hrylling.
María Bjarkadóttir, desember 2015