Beint í efni

Dúkka

Dúkka
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Hrollvekjur virðast vera vinsælar meðal höfunda barna- og unglingabóka í ár og margar af þeim skáldsögum sem koma út í þeim flokki fyrir þessi jól fjalla á einn eða annan hátt um illviðráðanleg öfl sem vilja aðalpersónum ekkert nema illt. Yngri lesendur gleymast ekki þar sem Dúkka eftir Gerði Kristnýju er skrifuð fyrir lesendur frá 8 ára aldri.

Dúkka gerist í ósköp venjulegum íslenskum hversdagsleika og segir frá Kristínu Kötlu sem er 10 ára og dreymir um að eignast ákveðna tegund af dúkku sem er nýjasta æðið hjá öllum stelpunum. Sólveig, besta vinkona hennar, á svoleiðis dúkku sem mamma hennar færði henni frá útlöndum og nú er Kristín Katla friðlaus. Hún verður að eignast sína eigin dúkku. Mamma hennar og tvíburabróðirinn Pétur Uni skilja ekki í henni að vilja dúkku orðin þetta gömul en þessar dúkkur eru alveg einstakar og öðruvísi. Meira en bara leikfang. Þær eru fallegar og góðar, geta verið besta vinkona manns og eru eitthvað svo ofboðslega heillandi. Svo er vefsíða sem er hægt að fara á til að lesa meira um þær og maður fær reglulega bréf með djúpum skilaboðum um lífið ef maður eignast svona dýrgrip. Aðalatriðið er svo að velja sér dúkku sem er sem líkust manni sjálfum.

Kristín Katla eignast dúkkuna sem hana dreymir um en Pétri Una stendur einhver óútskýranlegur stuggur af henni og þvertekur fyrir að hún fái að vera í herberginu þeirra á nóttinni. Hann vill helst ekki vera í sama herbergi og dúkkan yfirleitt og til að halda friðinn verður Kristín Katla að geyma hana frammi meðan þau sofa. Lífið gengur sinn vanagang í sögunni, börnin fara í skólann og þar sem þau eru að æfa leikrit og Kristín Katla flýtir sér heim á hverjum degi til að vera með dúkkunni sinni. Henni líður eitthvað svo vel með hana hjá sér. Samt er einhver ónotatilfinning í Kristínu Kötlu sem henni gengur illa að hrista af sér. Sólveig verður líka undarlegri og undarlegri með hverjum deginum og Kristín Katla er orðin eitthvað svo ólík sér. Getur verið að það sé eitthvað meira en lítið bogið við þessar dúkkur? Með dyggum stuðningi bróður síns áttar hún sig á því hvað er að gerast og hvað verður að gera til að bjarga Sólveigu og henni sjálfri úr bráðri hættu.

Dúkkur eru sígilt viðfangsefni hrollvekjuhöfunda enda þykja mörgum þær óhugnanlegar þrátt fyrir (og kannski einmitt vegna þess) að þær virðast svo sakleysisleg leikföng og líkjast oft krúttlegum smábörnum. En dúkkur geta verið svo raunverulegar að þær virðast næstum mennskar og þá er eitthvað óhuggulegt við hreyfingarleysi þeirra og vaxkennd andlit. Auðvelt er þá að ímynda sér að dúkkan hreyfist eða horfi á mann. Dúkkan hennar Kristínar Kötlu er einmitt svona dúkka, sakleysisleg, heillandi og óskaplega falleg en virkar næstum því lifandi. Hún gefur frá sér hljóð og ilm og stundum er eins og hún horfi á mann. Kristín Katla verður algerlega gagntekin af þessari dúkku og líf hennar fer að stjórnast meir og meir af því hvað hentar dúkkunni og að geta varið sem mestum tíma með henni. Dúkkan er sannarlega frekar óhugnanleg og lesandinn áttar sig fljótt á því að hún er engin venjuleg dúkka þó Kristín Katla reyni að sannfæra sjálfa sig um að allt þetta skrítna sem gerist sé bara ímyndun.

Spennan í sögunni er byggð upp jafnt og þétt og hún verður smám saman bæði dularfyllri og óhugnanlegri, án þess að nokkurn tíman sé farið yfir strikið eða of mikið gefið upp. Sögusviðið, sem er aðallega heimili og skóli Kristínar Kötlu, er hversdagslegt en því fylgir einhver drungi sem leggst yfir allt. Rigning og haustmyrkur auka áhrif sögunnar og haldast í hendur við svefndrungann sem vinkonurnar, og sérstaklega Sólveig, þjást æ meir af.

Í gegnum tíðina hafa hrollvekjur og sögur af hættulegum verum iðulega verið settar fram og túlkaðar sem viðvörun til lesandans. Þannig mætti líta svo á að dúkkurnar í sögunni komi í staðinn fyrir ástvini og stelpurnar noti þær til að fylla upp í ákveðið tómarúm sem þeim finnst vera í lífi sínu. Dúkkuæðið skilar þeim hins vegar engu nema meiri einangrun og einmanaleika. Leiðin til að sigrast á ógninni sem steðjar að er því að vinna saman og treysta hvert öðru, en eins og bent er á í lokin þýðir ekki að sofna á verðinum. Næsta dúkka bíður eftir að koma og ná saklausum börnum á sitt vald.

Það er eitthvað hressandi við að láta stundum hrella sig svolítið og Dúkka gerir það afskaplega vel. Sagan er spennandi og akkúrat passlega óhugnanleg til að halda lesandanum við efnið en hræða hann ekki um of, á sama tíma vekur hún til umhugsunar um það hvað skiptir raunverulega máli í lífinu.

María Bjarkadóttir, nóvember 2015