Nýjasta skáldsagan úr smiðju Auðar Övu Ólafsdóttur nefnist Dýralíf og fjallar um tvær aðalpersónur; tvífarana, frænkurnar og ljósmæðurnar Fífu og Dýju sem báðar bera reyndar skírnarnafnið Dómhildur. Sú yngri er sögumaður og miðlar frásögninni til lesenda; segir frá lífi sínu og starfi sem ljósmóðir í samtímanum, og frá frænkunni, sem er látin á ritunartíma verksins, störfum hennar á fæðingardeild við umönnun nýfæddra barna og mæðra þeirra á árum áður. Dómhildur yngri virðist vera undir miklum áhrifum frá eldri nöfnu sinni því hún hefur ekki aðeins fetað í fótspor hennar faglega heldur býr einnig í íbúð þeirrar eldri að því er virðist nánast óbreyttri. Íbúðin birtist sem tímahylki, arkíf eða skjalasafn, minnisvarði sem geymir ýmsa vitnisburði úr lífi frænkunnar, myndalbúm og persónuleg bréf, en einnig nokkur ókláruð handrit sem frænkan hafði hugsað sér að fá gefin út. Dómhildur yngri les sig í gegnum handritin og miðlar því sem hún les til lesenda og reynir að bregða upp mynd af lífi eldri frænkunnar, en einnig af hugsjónum hennar um náttúruvernd og dýravelferð. Í bakgrunni aðalpersónunnar geisar hamfaraveður sem vísar til loftslagsbreytinga samtímans en nánari útlistanir og lýsingar á þeim fáum við einnig í samtölum Dómhildar við systur sína sem er veðurfræðingur.
Frásagnir af fæðingum fyrri tíma, og seinni, eru heillandi og vekja auðveldlega samkennd með aðalpersónunni; það er eitthvað heilagt við ljósmóðurstarfið, einhver dulræn jarðtenging sem erfitt er að henda reiður á. Samkenndin magnaðist reyndar sérstaklega hjá þessum lesanda, sem komin er tæpar 38 vikur á leið með sitt annað barn, og er minnt á það daglega að heilsa og líf móður og barns veltur ekki síst á ljósmæðrunum sem á vegi hennar verða, nánast tilviljanakennt, en auðvitað í gegnum rásir heilbrigðiskerfisins. Það er áhugavert að bera saman ljósmóðurstarfið á tímum Dómhildar eldri og yngri: Áður lögðust fæðandi konur inn á sængurkvennadeild í fleiri daga eftir fæðinguna, létu stjana við sig, fengu máltíðir á sæng, svart kaffi og hnallþóru eftir fæðinguna. Fengu að sofa og hvíla sig á meðan ljósmæðurnar hugsuðu um hvítvoðungana, en pabbinn og restin af krakkaskaranum beið heima. Dómhildur yngri skrifar: „Ég hef hitt margar eldri konur sem tala um barnsfæðingu sem ánægjulega hvíld frá amstri heimilisstarfa og barnauppeldi“ (27). Verandi á þessum stað í lífinu, þ.e. kasólétt, er ef til vill ekki undarlegt að ég spyrji mig að því hvers vegna í ósköpunum þessi siður lagðist af? Áherslan í starfi Dómhildar yngri, mörgum árum síðar, er dálítið önnur. Þá þarf til dæmis að hugsa um makann sem fylgir konunni í fæðingarferlinu, og er misjafnlega upplagður til þess, og þar er hvíldin, sem konur sáu í hyllingum á árum áður, á undanhaldi, en konum er yfirleitt gert að halda til síns heima eins fljótt og mögulegt er að fæðingu lokinni. Dómhildur yngri leggur sig samt fram um að þjóna konunum eins og henni er framast unnt – en í því felst meðal annars að lesa fyrir þær ljóð sem fjalla oftar en ekki um náttúruna, um tré og skóga. Ég velti fyrir mér hvaða ljóð mín ljósmóðir muni lesa fyrir mig þegar stóra stundin rennur upp? Ég giska á „Kvindesind“ eftir Tove Ditlevsen þar sem fæðingin mun eiga sér stað á Hvidovre spítala í Kaupmannahöfn. Eða lætur hún sér kannski bara nægja að spila „Smukke unge mennesker“ með Kim Larsen? „De kom flyvende med storken...“
Sögunum af fæðingum og meðgöngu kem ég trúlega til með að fletta upp og lesa aftur; ekki síst þegar þessi önnur fæðing er afstaðin eftir vonandi nokkrar vikur. Þess utan er Dýralíf ákaflega Auðar Övuleg saga: hér er höfundur samkvæm sjálfri sér og tikkar í viðeigandi box: hér má finna hugleiðingar um orð og tungumál, skáldskap sem fjallar um skáldskap og síðast en ekki síst (og eitt af mínu uppáhalds): matur sem menningarlegt tákn og frásagnartæki. Dýralíf hefur öll þess einkenni og minnir á hvernig Auður Ava hefur skapað sér ákveðinn sess eða hillu í bókaskáp samtímalesanda, bæði á Íslandi og víða annars staðar, en bækur hennar eru feykivinsælar í Frakklandi og á Ítalíu og víðar.
Í upphafi bókarinnar kemur fram að árið 2013 hafi Íslendingar valið orðið „ljósmóðir“ fegursta orð tungumálsins, en höfundur nefnir einnig önnur orð sem notuð hafa verið um sama starf; yfirsetukona, náverukonu, jóðmóðir, nærkona, og nefnir svo nokkur orð á öðrum tungumálum. Í sögunni sjálfri verður ljósmóðirin að tengilið milli ljóss og myrkurs; á einum stað kemur fram að maðurinn vaxi í myrkri eins og kartafla, sem er liður í undirliggjandi þema sögunnar, þ.e. að tengja manninn við upprunann, náttúruna, en hlutverk ljósmóðurinnar er að draga manninn fram í ljósið. Að þessu leyti er starf ljósmóðurinnar sambærilegt starfi rafvirkjans, sem gerir okkur jú kleift að kveikja á perunni – með nokkuð bókstaflegum hætti.
Ég hef áður skrifað um það hversu stórt og mikilvægt hlutverk matur, matarmenning og matreiðsla leikur í sögum Auðar Övu. Í Dýralífi fylgjumst við með aðalpersónunni matreiða hjörtu en aðferðinni lýsir hún í samtali við systur sína:
-Og hvernig ætlarðu að matreiða þau?
-Steikja á pönnu með lauk.
-Hvort notarðu olíu eða smjör?
-Olíu.
-Veltirðu þeim upp úr hveiti?
-Já, ég geri það. Og salta og pipra.
[...]
Ég segi henni að þegar ég sé búin að steikja hjörtun bæti ég við vatni og láti þau sjóða í korter undir lokin.
-Og hvað ætlarðu að hafa með?
-Soðnar kartöflur.
(59-60)
Samtal systranna virkar ef til vill ofur hversdagslegt og merkingarsnautt en þegar betur er að gáð þjónar það margvíslegum tilgangi: það skapar ákveðna stemmningu, það færir lesandann nær sögupersónunum og gerir þær manneskjulegri – öll þurfum við að borða, og flest njótum við þess að borða. Þá staðsetur það söguna í ákveðnu tímarúmi, þ.e. á Íslandi (hvernig væri svipaður vöðvi eldaður á Suður-Ítalíu til dæmis?) og í samtíma sem einkennist af fortíðarblæ og nostalgíu og minnir á hvernig aðalpersónan Dómhildur yngri lifir í skugganum af Dómhildi eldri, en með því að búa í óbreyttri íbúðinni býr hún bókstaflega í minningunni um frænkuna gömlu, í lífi hennar og sjálfsmynd frá fyrri tíma.
Þá er meta-þemað, sem birtist með handritum eldri frænkunnar, einnig þekkt úr fyrri verkum höfundar. Sem dæmi mætti nefna dvergvaxna rithöfundinn Perlu úr Undantekningunni, sem bjó í kjallaranum í húsi aðalpersónunnar og lét ýmis fleyg orð falla. Í Ör kom það í hlut móður aðalpersónunnar að miðla ýmsum staðreyndum og vísunum um stríð og stríðsrekstur, og aðalpersónan Ísey í Ungfrú Ísland var rithöfundur sem átti þann draum heitastan að fá verk sín útgefin á tíma þegar konur áttu erfitt uppdráttar í karllægum bókmenntaheimi. Dómhildur eldri átti sér svipaðan draum en virðist einnig hafa talað í gullkornum sem Dómhildur yngri rifjar upp. Þetta eru fleygar setningar á borð við: „Það er undarlegur vefnaður sem kallaður er fjölskylda“ (23), og gefa til kynna að frænkan hafi verið fæddur rithöfundur eða haft eiginleika sem gott er að búa yfir vilji maður brjótast fram á ritvöllinn og láta að sér kveða; glöggt auga á mannlegt líf, greinandi og gagnrýna hugsun, og að sjálfsögðu góð tök á tungumálinu.
Handrit Dómhildar finnast í bananakassa sem er ansi táknrænt með tilliti til þess að þau fjalla meðal annars um náttúruvernd og meðferð dýra, loftslagsbreytingar og hamfarahlýnun – ýmislegt miður fallegt sem við könnumst við úr fjölmiðlaumræðu samtímans en hefur kannski ekki beint verið uppi á pallborðinu þegar frænkan fékkst við skriftir snemma á áttunda áratugnum. Hún virðist því hafa verið á undan sinni samtíð og bergmálar orðræðu sem tengja mætti við menn eins og David Attenborough sem reynir að koma okkur nútímafólki í skilning um hversu nærri við höfum gengið náttúrunni með neysluvenjum okkar og hversu mikilvægt það er að huga t.d. að býflugunum. Því fannst mér ekki alltaf trúverðugt að frænkan gamla hafi haft allar þessar upplýsingar á reiðum höndum á þeim tíma sem hún var að skrifa. Þá hefði hugmyndin um ljósmóðurina sem tengingu á milli ljóss og myrkurs í heiminum, sú sem helst gæti tengt manninn aftur við uppruna sinn og vakið hann til umhugsunar um stöðu náttúrunnar á tímum loftslagsbreytinga, orðið enn áhrifaríkari ef skrif hennar hefðu ekki birst svo klippt og skorin, eins og hálfgert collage úr loftslagsumræðu samtímans. Skrif frænkunnar birtast tilviljanakennt og nokkuð samhengislaust, sem virðist vera með ráðum gert; hún notar skrifin til að skilja aðstæður sínar, er í einhvers konar sannleiksleit en yngri frænkan tekur svo við keflinu og heldur leitinni áfram þegar hún gerir tilraun til þess að leggja merkingu í skrifin. Um leið leggur hún mat á handritin en þær athugasemdir vísa um leið í söguna sem við lesendur erum að lesa: hver er tilgangur skrifanna og merking? Hver er tilgangur skrifa og merking almennt? Og hvað telst hæft til útgáfu, hvað ekki, og hvers vegna?
Að því leyti er Dýralíf metasaga, saga sem fjallar um sögu, skáldskapur sem fjallar um skáldskap, sem er óþreytandi þema í samtímabókmenntum og gefur höfundum færi á að bregða á leik með margvíslegum hætti – spinna þræði sem ekki þarf að tengja, ekki frekar en þær óræðu staðhæfingar og setningar sem birtast okkur hér og þar í daglegu lífi – í fjölmiðlum, á internetinu, í hversdagslegu tali.
Vera Knútsdóttir, nóvember 2020