Beint í efni

Ef við værum á venjulegum stað, Á hjara veraldar, Hjartað mitt

Ef við værum á venjulegum stað, Á hjara veraldar, Hjartað mitt
Höfundur
Juan Pablo Villalobos
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Ef við værum á venjulegum stað, Á hjara veraldar, Hjartað mitt
Höfundur
Geraldine McCaughrean
Útgefandi
Kver
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur
Ef við værum á venjulegum stað, Á hjara veraldar, Hjartað mitt
Höfundar
Jo Witek,
 Christine Roussey
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Hrafnhildur Þórhallsdóttir

Máttur og mikilvægi þýðinga verður seint ofmetinn. Það er auðvitað löngu orðin klisja að segja að þýðingar færi okkur heiminn heim; að þær séu gluggar inn í aðra menningarheima og líf í samfélögum sem eru okkur framandi; að þær stækki heim okkar og tilveru og auðgi hugmyndaheim okkar, mannskilning og samkennd. Þær klisjur eru engu að síður sannar - eins og gjarnan er með klisjur almennt.

Þýðendur, fólkið sem opnar fyrir okkur þessa töfraglugga bókmenntanna, eru þó gjarnan nokkurs konar huldufólk – tilhneigingin er sú að athyglin beinist fremur að verkinu sjálfu og höfundinum en þýðandanum. Vissulega hefur þetta eitthvað breyst á síðastliðnum árum og Íslensku þýðingarverðlaunin, veitt frá árinu 2005 af Bandalagi þýðenda og túlka, eru frábær vettvangur til að lyfta starfi og afrekum þessa hóps. Bækurnar þrjár sem hér eru til umfjöllunar eru í hópi þeirra sjö bóka sem tilnefndar eru í ár og koma úr ólíkum flokkum – Ef við værum á venjulegum stað er skáldsaga fyrir fullorðna í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar, Á hjara veraldar, unglingabók í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur og Hjartað mitt, ljóðabók fyrir börn í þýðingu Hallgríms Helgasonar.

Fáránleiki fátæktarinnar : Um Ef við værum á venjulegum stað eftir Juan Pablo Villalobos – þýðandi Jón Hallur Stefánsson

Síðustu ár hefur bókaforlagið Angustúra sinnt þýðingum af miklum metnaði og natni. Þýðingarröð forlagsins samanstendur af athyglisverðum bókmenntum frá hinum ólíkustu kimum heimsins og hefur vakið athygli íslenskra lesenda á verkum og höfundum sem annars hefðu mögulega ekki ratað til þeirra. Fyrsta bókin í nefndri þýðingarröð var skáldsagan Veisla í greninu eftir mexíkóska höfundinn Juan Pablo Villalobos, í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur, en sú hlaut mikið lof bæði gagnrýnenda og lesenda. Bókin var sú fyrsta í þríleik Villalobos um Mexíkó en á síðasta ári færði Angustúra lesendum þá næstu í röðinni, Ef við værum á venjulegum stað. Það er Jón Hallur Stefánsson sem þýðir bókina úr spænsku og ritar einnig afbragðs eftirmála.  

Súrrealisminn er blákaldur veruleiki

Sagan er pólitísk satíra og lýsir lífi fátækrar fjölskyldu í litlu þorpi í Mexíkó í valdatíð Carlos Salinas undir lok níunda áratugar 20. aldar; í þjóðfélagi sem „sérhæfði sig í að splundra væntingum.“ Sögumaður bókarinnar Orestes, kallaður Óreó, er fjórtán ára drengur sem býr ásamt foreldrum sínum og sex systkinum í hálf köruðum húshjalli uppi á hæð nokkurri sem nefnd er því sjarmerandi nafni Rassgatshæð. Húsið, sem hann líkir við skókassa með loki úr asbestplötum, rúmar engan veginn níu manna fjölskyldu og barnaskarinn sefur í kös á krumpuðum dýnum á gólfinu á milli þess sem þau slást um naumt skammaðar ostafyllur við eldhúsborðið. Heimilislífið, þar sem glundroðinn ræður ríkjum og þrengslin og skorturinn ýtir einstaklingnum til að slást með kjafti og klóm fyrir sínum skerf, má lesa sem nokkurs konar mikrókosmos af ytri heimi sögunnar, þjóðfélagi vaxandi einkavæðingar, misskiptingar og ringulreiðar.

Matur er gjarnan notaður í skáldskap til að miðla menningu og stétt sögupersóna og það gerir Villalobos einmitt markvisst í sögunni, sér í lagi með fyrrnefndum ostafyllum. Ostafyllur, maískökur fylltar með bræddum osti, eru, líkt og pizzan á Ítalíu, klassískur réttur sem sprettur úr fátækt og virðist vera aðalfæða fjölskyldunnar í sögunni. Það er Óreó og systkinum hans ekki einungis eilíft áhyggjuefni hvort nóg sé til handa öllum heldur er þykktin á þeim bein birtingarmynd á stöðu efnahagslífsins í landinu, „verðbólguostafyllur, hversdagsostafyllur, samdráttarostafyllur og fátæktarostafyllur – hér raðað upp eftir hámarksofgnótt til hámarksaðhalds.“ Þegar tvö yngstu börnin í fjölskyldunni, skröktvíburarnir, hverfa sporlaust einn daginn í verslunarleiðangri sér Óreó þann ljósa punkt í harmleiknum að nú komi fleiri ostafyllur í hans hlut. Í framhaldinu veltir hann því fyrir sér hvaða þýðingu það hefði ef fleiri af systkinum hans gufuðu upp. Myndi fjölskyldan mögulega færast upp um þrep í þjóðfélagsstiganum?

Strax í upphafi bókarinnar tilkynnir sögumaður lesandanum að þeir atburðir sem hann greini frá hafi átt sér stað fyrir meira en tuttugu og fimm árum. Það er því eldri og þroskaðri Óreó sem ávarpar lesandann. Fyrir vikið verður tónn sögunnar íronískur og meinfyndinn því mælska og þjóðfélagssýn drengsins Óreós er í engu samræmi við aldur hans. En íronían dregur líka fram fáránleika fátæktarinnar sem er meginþema bókarinnar og Óreó eilíft umhugsunarefni. Hann þráspyr foreldra sína hvort að það sé hægt að hætta að vera fátækur og gremst viðhorf föður síns sem heldur því fram að peningar skipti ekki máli heldur það eitt að halda virðingu sinni.

Hvarvetna sem drengurinn kemur fær hann hins vegar staðfestingu á fátækt fjölskyldunnar. Ekki síst eftir að nýju nágrannarnir flytja inn í stórhýsið sem hann hefur fylgst með rísa við hliðina á sínu hæverska heimili. Húsið sem hann hafði séð fyrir sér að ætti að hýsa heljarinnar stórfjölskyldu reynist aðeins ætlað fyrir þrjá, hjón með dreng á sama reki og Óreó. Þegar nágrannadrengurinn svo býður honum í heimsókn tekur steininn endanlega úr.  Aðstæðumunur þeirra er í alla staði hrópandi, ekki aðeins hvað heimilisaðstæður varðar heldur ekki síður reynsluheim – að eiga peninga veitir aðgang að menningu, ferðalögum og upplifunum. Óreó gerir sér því skýrt grein fyrir því að vinátta þeirra verði ekki langvinn, heimar þeirra fara einfaldlega ekki saman.

Hugleiðingar Óreós um fátækt, um lagskiptingu hennar og lamandi áhrif, hvernig hún fletur út tilveruna og smættar fólk eru með áhugaverðari köflum bókarinnar. Tilveru hins fátæka er teflt fram sem engu minni súrrealisma en töfraraunsæinu, hjátrúnni og trúnni á guðlega krafta sem drengurinn sér allt í kringum sig og er stór hluti af frásögninni. Lokakaflinn, þar sem sagan sleppir endanlega tökunum á veruleikanum og nær vægast sagt súrrealískum hæðum, skilur lesandann eftir með þá tilfinningu að sama hvaða brögðum hinn fátæki beiti komist hann ekki út úr þeim aðstæðum sem örlögin hafa útdeilt honum. Líkt og hann sé fastur í svo flóknu neti að hann greini vart lengur hvað er hvers og hvurs – er hann jafnvel sjálfur netið? Er hann eilíflega dæmdur til að vera handlangari við smíð eigin fangelsis?

Það er hrein unun að lesa þýðingu Jóns Halls. Textinn flæðir áfram af galsa og íronískri mælsku og húmorinn, sem varpar skjannabirtu á þjóðfélag á barmi upplausnar, kemst frábærlega til skila. Þegar best lætur finnst lesandanum hann hreinlega heyra takt og hrynjandi spænskrar tungu óma í setningunum – rituðum á kristaltærri íslensku.

Lífsviljinn er ráðgáta : Um Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaughrean – þýðandi Sólveig Sif Hreiðarsdóttir

Breski rithöfundurinn Geraldine McCaughrean er með eindæmum afkastamikil en eftir hana liggja um 150 bækur. McCaughrean skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna og í skrifum sínum hefur hún meðal annars fengist við að endurnýta klassískar bókmenntir á borð við Kantarborgarsögur, Ódysseifskviðu og sjálfan Pétur Pan. Bækur hennar hafa verið tilnefndar til fjölda verðlauna en fyrir Á hjara veraldar hlaut hún hin virtu Carnegie Medal verðlaun. Bókin kom út hjá Kver bókaútgáfu í íslenskri þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur.

Hugmyndina að bókinni sækir McCaughrean að nokkru í raunverulega atburði sem áttu sér stað á 18. öld á St. Kilda eyjaklasanum, afskekktasta hluta Bretlandseyja, þegar hópur manna og drengja urðu strandaglópar á óbyggðum dranga í níu mánuði. McCaughrean tekur þó skýrt fram í eftirmála að bókin sé fyrst og fremst skáldskapur enda engar heimildir fyrir því hvernig hópnum reiddi af á meðan á dvölinni stóð né hvernig þeir vörðu dögunum. Og einmitt það vakti forvitni hennar. Hvernig lifir fólk af í slíkum aðstæðum? Hvernig heldur manneskjan í lífsviljann þegar öll von virðist úti?

Í ríki veðuraflanna

Bókin hefst þegar hópnum er siglt út í drangann í sumarlok þar sem þeir eiga að dveljast í tvær til þrjár vikur. Þeir eru fyglingar og tilgangur fararinnar er fuglaveiðar. Hópurinn telur ellefu, níu drengi á barns- og unglingsaldri og tvo fullorðna karlmenn. Í fyrstu köflunum fylgist lesandinn með þeim koma sér fyrir á köldum og hrjóstrugum dranganum og hefja vinnuna sem þeim hefur verið falin. Í augum nútímalesanda, sem í þessu tilviki er líklega barn eða ungmenni, er sú vinna langt frá því að geta talist við hæfi barna. Drengirnir klífa snarbratta veggi drangans, snúa fugla úr hálsliðnum og safna eggjum og fiðri með opið og úfið hafið fyrir neðan sig og veðráttan … ja, hún er eins og við er að búast úti á reginhafi á hjara veraldar.

Reyndar mætti segja að veðuröflin, náttúrulífið, hafið og ekki síst dranginn sjálfur séu einar af höfuðpersónum bókarinnar, slík er fyrirferð þeirra og nálægð. Textinn fer á mikið flug í lýsingum á þessum máttaröflum sem hafa líf drengjanna í hendi sér og vekja lesandann til umhugsunar um hversu tilvera fólks á öldum áður var að miklu leyti undir ægivald náttúrunnar sett. Höfundinum tekst gríðarlega vel að færa lesandann inn í þennan brimsalta heim sem er ískaldur og gegnblautur - hvernig þurrkar maður föt fyrir opnu hafi í beljandi rigningu? Hvernig hvílist maður með harðan og kaldan klett undir sér í hvínandi vindi? Við hvað ornar maður sér þegar enginn er með eldspýtur í vasanum og allt er gegnsósa af sjó og regni? Það er satt að segja erfitt að lesa þessa bók án þess að finnast maður votur í lappirnar og loppinn á fingrunum, í stuttu máli sagt er þetta ekki bók sem maður yljar sér yfir.

Kuldakrákan hafði nefnilega gert sig heimakomna í Mið-Skála. Hún goggaði göt í andlit þeirra, stal allri tilfinningu úr nefi þeirra, fingrum og eyrum. Hún flaug um svefnstæði þeirra og breiddi úr klóm sínum á hálsum þeirra til að kanna hvort nokkur hiti væri eftir í þeim. Og litlu vængjuðu svöluluktirnar á hellissyllunum, sem brunnu frá höfði niður í fætur, voru of litlar til að bægja krákunni í burtu. Töluverðar líkur voru á að eina nóttina myndi kuldakrákan stela einum lífsanda eða tveimur meðan þeir svæfu. (175)

Að vona er að lifa

Og tíminn líður og veðrið versnar. Og ekkert bólar á skipi þegar komið er að heimför. Hvað hefur gerst? Hvers vegna kemur enginn að sækja hópinn? Svarið við þeirri ráðgátu verður ekki opinberað hér enda er það hlutverk lesandans að dvelja í óvissunni með drengjunum. Dagarnir líða og tapa tölunni og örvæntingin stigmagnast og með henni ágreiningur og valdabarátta innan hópsins. Þó sögumaðurinn sjái inn í hugarheim allra persóna sögunnar er sjónarhornið að megninu til hjá Quilliam, dreng á efri unglingsárum sem nýverið hefur kynnst ástinni. Quilliam hefur til að bera góðsemi og mannskilning sem gerir hann að sameiningarafli þegar átökin innan hópsins magnast. Í stað þess að sækjast eftir valdastöðu eins og sumir þeirra eldri áttar hann sig á að til að lifa af þurfa drengirnir að hafa hlutverk og tilgang. Auk þess er hann sagnamaður og styttir drengjunum stundir með því að segja þeim sögur. Hann er því fulltrúi ímyndunaraflsins og sköpunargáfunnar sem eru lykilkraftar í lífsbaráttu mannsins. Til að mynda heldur hann sér gangandi með því að tala í huganum við stúlkuna sem hann elskar, Murdinu, en hún verður nokkurs konar hliðarpersóna í bókinni og tákn fyrir þann drifkraft og akkeri sem ástin er fólki í erfiðum aðstæðum.

Bókin gefur lesandanum ríka innsýn inn í það erfiði sem það kostaði fólk fyrr á tímum að hafa í sig og á en einnig inn í hugmyndaheim sem einkenndist af hjátrú og guðsótta. Á sama tíma er hún tímalaus stúdía á mannlegu eðli, lífshvötinni og síðast en ekki síst voninni. Eftir lesturinn situr sú spurning með manni hvað það sé sem komi fólki í gegnum slíka reynslu og það verður óhjákvæmilegt að beina þeirri spurningu inn á við.

Fuglar leika eðli málsins samkvæmt stórt hlutverk. Hver kafli er skreyttur mynd af tilteknum fugli og aftast í bókinni er stuttur fróðleikstexti um hvern og einn þeirra en fyrst og fremst eru þeir alls staðar í myndmáli textans. Hér er því af mörgu að taka fyrir góðan kennara en bókina mætti til margs nýta við kennslu. Þýðingin flýgur áfram hnökralaust. Margt varðandi verklag, lifnaðarhætti og fuglaveiðar sem er lesandanum mögulega framandi er ákaflega vel leyst og verður ljóslifandi og skýrt við lesturinn. Eins eru hinar ljóðrænu náttúrulýsingar einstaklega fallega þýddar og hrífandi. Þótt bókin sé ætluð ungmennum er full ástæða fyrir eldri lesendur að kynna sér hana. Fólki á öllum aldri er þó eindregið ráðlagt að fara í ullarsokka áður en að lesturinn hefst.

Að setja orð á hið ósýnilega : Um Hjartað mitt eftir Jo Witek og Christine Roussey – þýðandi Hallgrímur Helgason

Hjartað mitt er myndskreytt ljóðabók ætluð yngstu lesendunum, þeim sem enn þurfa að láta lesa fyrir sig eða eru á fyrstu stigum þess að læra að lesa. Hér er boðið í ferðalag inn í heim hjartans en umfjöllunarefnið eru tilfinningar. Bókin kom út hjá Drápu en það er Hallgrímur Helgason sem þýðir úr frönsku.

Margskonar lestur

Á síðastliðnum árum hefur orðið tilfinningalæsi flotið inn í meginstraum umræðunnar um uppeldi og æ ríkari áhersla verið lögð á mikilvægi þess að tala um tilfinningar við börn. Í dag er það til að mynda skilgreint sem lykilfærni í flestum menntastefnum að geta sett orð á líðan sína og skilið áhrif þessara ósýnilegu innri afla á líkamleg viðbrögð, hegðun og samskipti okkar við annað fólk. En að tala um það sem við sjáum ekki við ung börn getur verið snúið. Hjartað mitt fer ákaflega vel með þetta efni, ekki síst þar sem myndlíkingar ljóðanna setja hið óhlutbundna, tilfinningarnar, í samhengi sem börn geta skilið og tengt við.

Hver opna tekur á tiltekinni tilfinningu og myndskreytingarnar styðja við ljóðin með því að myndgera einföld og skýr tákn. Í fyrsta ljóði bókarinnar er hjartanu líkt við heilan heim út af fyrir sig sem hýsir hinar ólíkustu kenndir. Hver síða færir lesandann dýpra inn í heim hjartans og kannar hvern krók þess og kima. Í gleðinni er hjartað skínandi stjarna sem lýsir upp heiminn, birtan innra með okkur gerir okkur ekki aðeins bjartsýn heldur varpar birtu á það sem er í kringum okkur. Sorgin sviptir okkur svefni og kallar á huggun frá góðum vinum. Samspil texta og mynda afhjúpar oft hið spaugilega í erfiðum tilfinningum og bókin er full af húmor, líkt og í ljóðinu um reiðina:

Nú er ég dramadama.

Um dótið og allt er mér sama.

Ég stúrin er bæði og stygg.

Já, í þungu lyndi ég ligg.

Nú elta mig angur og leiði.

Ég er að springa úr reiði!

Hér er því tækifæri til margskonar lesturs, að skoða tungumálið í gegnum líkingamál og myndir í þeim tilgangi að efla tilfinningalæsi. Ljóðin eru rímuð sem er gagnlegt til að læra ný orð og festa þau í minni en að læra ljóð og vísur er einnig leið til að efla málþroska barna og tilfinningu fyrir hrynjandi tungumálsins. Hvað sem því líður er Hjartað mitt fyrst og fremst frábærlega skemmtileg aflestrar, full hugmyndaauðgi í máli og myndum og ætti að skemmta öllum á aldrinum níu mánaða til níutíu og níu ára.

Kjarni málsins

Að þýða myndskreyttan texta sem í ofanálag er rímaður hlýtur að vera snúið verk og krefjast frjórrar hugsunar og útsjónarsemi af hálfu þýðandans. Og það vantar ekki hér. Þýðing Hallgríms er leikandi og hugvitsamleg og teymir lesandann áfram í dillandi takti. Lesandinn staldrar oft við hljómfögur og skemmtileg orð sem gaman er að skoða, taka í sundur og ræða við börn - til að mynda kátínuborgir, dramadama, dýjamosi og undragarður. Eðli ljóðsins samkvæmt er textinn umfangsmeiri en orðafjöldi hans gefur til kynna og margt að skoða þegar líkingamálmál er annars vegar. Hvað merkir það til dæmis að líða eins og maður sé felgu- og dekkjalaus bíll?

Hönnun bókarinnar er einkar falleg. Síðurnar eru harðspjalda og á þeim hjartalaga op sem fer minnkandi með hverri síðu. Svo mætti því að orði komast að við lesturinn sjái lesandinn inn í hjarta bókarinnar sem er táknrænt fyrir efnið en vekur einnig forvitni um það innra ferðalag sem er í vændum.

Teikningarnar eru í barnslegum og glaðlegum stíl, skýr form dregin með blýanti og vaxlitum sem tala við textann með skapandi og smellnum hætti. Myndskreytirinn virðist nálgast teikningarnar á sama hátt og textahöfundur nálgast ljóðið – aðeins það sem skiptir máli og þjónar tilgangi fær pláss. Litir eru til að mynda notaðir sparlega en markvisst og þar sem bókin er í nokkuð stóru broti loftar vel um textann og myndirnar. Fyrir vikið er yfir henni birta og léttleiki sem er kærkomin hvíld frá þeirri skynáreitaofgnótt sem stundum einkennir efni ætlað börnum. Í því sambandi virðist oft brenna við að lykillinn að athygli barna sé einfaldlega sá að nógu mikið sé í gang. Hjartað mitt hefur meiri trú á lesandanum en svo og í því er mögulega boðskapur út af fyrir sig. Eða er það ekki einn af lærdómum lífsins að átta sig á að oft er minna meira? Að hisminu er hent en kjarninn varveittur? Líkt og segir aftast í bókinni, í innsta kjarna hjartans:

Þá opnast öll himins hlið

Og í sálinni finn ég frið.     

List milli mála

Þau verk sem hér hefur verið fjallað um eru í alla staði afar ólík en öll hafa þau reynt á þanþol sköpunargáfu þýðenda sinna. Starf þýðandans er aldrei einfalt. Að flytja texta milli tungumála svo merking hans, blæbrigði og stíll komist til skila er eitt og sér ekkert áhlaupaverk. Það krefst þess að þýðandinn kafi í tungumálið og nýti það til hins ýtrasta með skapandi hætti en haldi um leið tryggð við frumtextanum. Þetta er örðugra ferli en margan myndi gruna; að standa á mærum tungumála, menningar og merkingar þar sem höfuðáttin er listaverkið sem þarf að ferja yfir þessi mæri. List þýðandans felst hins vegar í því að fela, með leikni sinni í tungumálinu, þá þraut sem er samofin verknaðinum. Þar að auki eru gríðarlegar kröfur gerðar til þýðenda þegar að því kemur að miðla textanum á tærri og lýtalausri íslensku – gullaldarmálinu sem virðist á hverfanda hveli og við hömumst við að varðveita. Þýðingar eru því mikilvægur þáttur í þeirri linnulausu kyndilför að viðhalda og rækta tungumál á örmálssvæði. Ekki er það smátt. Öllum þeim höfundum sem tilnefndir eru til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár er hjartanlega óskað til hamingju. Og megi þeir þökk hafa fyrir að auðga íslenskt mál og bókmenntir.    
 

Hrafnhildur Þórhallsdóttir, febrúar 2022