Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segist vera skáldsagnahöfundur. Hann segir að ef skáldsögurnar hans yrðu dregnar frá honum þá væri ekkert eftir. Þetta er setning sem gæti komið beint úr munni einhverrar sögupersónu Murakamis, líklegast þó einhverrar konunnar, sem eru stöðugt að hverfa, stundum bókstaflega, en allavega alltaf úr lífi karlmannanna. Og athugasemdin kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að Murakami skrifi annað en skáldsögur, á ensku hafa komið út eftir hann tvö smásagnasöfn og ein viðtalsbók.
Smásagnasafnið Fíllinn hverfur (The Elephant Vanishes) kom út árið 1993 á ensku og nú er búið að þýða annað smásagnasafn Murakamis, Eftir skjálftann (After the Quake 2002), en það kom upphaflega út árið 2000 í Japan. Sama ár kom bókin Neðanjarðar (Underground) út á ensku, en hún var gefin út í tveimur hlutum árin 1997 og 1998 í Japan. Þessar bækur eru iðulega tengdar saman, þær lýsa báðar eftirskjálftum meðal fólks í kjölfar tveggja skelfilegra atburða, jarðskjálftans í Kobe sem varð í janúar árið 1995 og eiturgas-árásarinnar í neðanjarðarlestakerfi Tokyo sem átti sér stað í mars sama ár. Þessir atburðir höfðu svo mikil áhrif á Murakami, sem ólst upp í Kobe, að hann fluttist aftur til Japan eftir að hafa búið erlendis í fjölmörg ár, og skrifaði áðurnefndar bækur.
Eftir skjálftann er safn sex smásagna sem gerast allar í febrúar, mánuðinum sem liggur á milli skelfingaratburðanna tveggja. Þær eru óvenju lausar við fantasíu ef miðað er við önnur verk Murakamis, en mörg verka hans, eins og Að eltast við kindur (1982, A Wild Sheep Chase 1990), Dansaðu, Dansaðu, Dansaðu (1988, Dance, Dance, Dance 1994), Spútnik-Ástin (1999, Sputnik Sweetheart 2001, ísl. 2003), Harðsoðið undraland og heimsendir (1985, Hard-boiled Wonderland and the End of the World 1991) og Frásögnin af upptrekkta fuglinum (1994-5, The Wind-Up Bird Chronicle 1997), eru þónokkuð ævintýraleg. Vegna þessa hafa japanskir gagnrýnendur kvartað yfir því að með þessum sögum sé hann ljóslega farinn að selja sig vesturlöndum (ætli þetta séu sömu gagnrýnendurnir og þoldu hann ekki fyrir að vera vinsæll?). En það er auðvelt að benda á veilu í þessum athugasemdum, Norskur skógur (1987, Norwegian Wood 2000, eftir samnefndu lagi Bítlanna) og Sunnan við mærin, vestur af sól (2001) (1992, South of the Border, West of the Sun, 2000) eru ekki sérlega fantasískar.
Kunnugleg minni birtast í sögunum, eins og flakk eða samspil milli tveggja eða fleiri heima og hverfandi dularfullar konur og sem fyrr er frásagnarstíllinn einfaldur og agaður og spilar stöðugt á þessi heillandi mæri kómedíu og tragedíu. Öfugt við flest verk Murakamis eru þessar smásögur skrifaðar í þriðju persónu, og telja sumir gagnrýnendur þetta skapa meiri fjarlægð í sögunum, þó ég geti ekki tekið undir það. Ég las safnið upphaflega á ensku fyrir tveimur árum og sögurnar hafa búið með mér síðan, sérstaklega er mér þó minnistæður rithöfundurinn í sögunni „Landslag með straujárni" sem neitar að eiga ísskáp. Frekar fer hann mörgum sinnum á dag út í búð og kaupir í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Ástæðan er sú að hann er sannfærður um að hann muni deyja af völdum þess að lokast inni í ísskáp, dauðinn mun verða hægur vegna þess að smá loft kemst að og heldur í honum lífinu í lengstu lög. Enginn þeirra sem skrifaði um bókina – og lenti í gagnabanka ProQuest á Hvar.is – nefnir þetta ógleymanlega atvik sem fyrir mér mótar alla bókina. Hmm.
Fyrsta sagan segir frá myndarlega sölumanninum Komura sem á óskaplega venjulega og óspennandi konu og elskar hana mikið. Hinsvegar er það greinilega ekki gagnkvæmt því eftir að hafa horft í fulla fimm daga á hörmungarfréttir af jarðskjálftanum í sjónvarpinu fer hún frá honum og skilur eftir miða þarsem hún segir að lífið með honum sé henni ómögulegt, hann gefi ekkert af sér, ekki vegna þess að hann vilji það ekki heldur vegna þess að hann hafi ekkert til að gefa. Því sé lífið með honum eins og að búa með bita af lofti. Eftir þetta hverfur konan úr sögunni og Komura tekur sér frí og lendir í ævintýrum í vetrarsmábæ með nýjum dularfullum konum (sem eiga ábyggilega eftir að hverfa bráðum).
Smásagnasafnið hefst á því að konan horfir á sjónvarpið: „Hún sat fimm daga samfleytt fyrir framan sjónvarpið, starði á banka og spítala sem höfðu hrunið, heilu verslunarmiðstöðvarnar í ljósum logum, járnbrautarteina og hraðbrautir sem höfðu kubbast sundur" (9). Þannig setja upphafsorðin lesandann strax inn í myndina, jafnframt því að halda henni alltaf í ákveðinni fjarlægð, hvergi er jarðskjálftanum lýst beint af einhverjum sem er á staðnum, heldur sjáum við hann gegnum fjölmiðla, og varla það heldur, því oft vitum við ekki annað en það að persónur sögunnar fregna af skjálftunum gegnum fjölmiðla.
Ein sagan fjallar þó beinlínis um jarðskjálfta, og það er dæmigert fyrir Murakami að sú saga er ævintýralegust. Sagan „Ofur-Froskur bjargar Tokyo" lýsir því hvernig hin ofurvenjulegi og fremur smávaxni innheimtumaður Katagiri kemur einn daginn heim og hittir þar fyrir risastórann talandi frosk – sem segir honum að kalla sig Frosk – og lýsir því yfir að saman þurfi þeir að berjast við neðanjarðarskrýmsli nokkurt, Orm, sem minnir ekki lítið á hið biblíulega stórhveli. Ormur þessi veldur jarðskjálftum með reiði sinni og nú á Katagiri að vera einskonar Björn að baki Kára í bardaga milli Frosks og Orms, annars setur Ormur af stað jarðskjálfta í Tokyo sem verður mun verri en sá í Kobe. Og aftur koma magnaðar lýsingar á hamförum þeim sem fylgja jarðskjálftum, flestir deyja kramdir í neðanjarðarlestum og undir fallandi ökutækjum og hrynjandi hraðbrautum. „Byggingar munu hrynja til grunna, íbúarnir kremjast til bana. Hvarvetna loga eldar, gatnakerfið verður ónýtt, ekkert gagn að sjúkrabílum og slökkviliðsbílum, fólk verður bara að liggja þar sem það er í dauðateygjunum.“ Þetta verður hreint helvíti segir Froskur og bætir við: „Fólki mun verða ljóst hversu veikburða sú samþjappaða heild sem heitir „borg'' er í raun og veru" (106). Lýsingin gæti fullt eins átt við þá heima sem Murakami skapar í sínum sögum, en þar virðist fólk stöðugt vera að uppgötva hversu brothætt ástand tilvera þeirra er, þó þar sé yfirleitt um að ræða einstaklinga fremur en samfélög og borgir.
Þýðing Ugga Jónssonar er fimleg eins og búast mátti við, en hún er unnin upp úr enskri þýðingu Jay Rubin (þó það komi hvergi fram). Það er alltaf athyglisvert að velta fyrir sér stöðu þýðinga úr millimáli og í tilfelli Murakamis verður málið svolítið snúið, því það er ljóst að heilmikill munur er á stíl bóka hans eftir því hver þýðir. Eins og stendur á Murakami þrjá enska þýðendur, Alfred Birnbaum, Jay Rubin og Philip Gabriel. Helsti munurinn er milli texta Birnbaum og hinna tveggja, en þýðingar hans eru öllu „ævintýralegri“ ef svo má segja, fyndnari og sprellnari. Ég las Murakami upphaflega í þýðingum Birnbaums, og var því í fyrstu (en ekki lengur) dálítið ósátt við stíl Rubin og Gabriel, sem mér fannst óþarflega látlaus. Hinsvegar vilja þeir sem til þekkja víst meina að þýðingar Rubin og Gabriel séu nær texta Murakami, og að Birnbaum hafi „spækað“ þetta svolítið upp. Ég sel slíkar pælingar ekki dýrar en ég keypti, enda alls ólæs á japönsku.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004
Þessi umfjöllun var upphaflega skrifuð fyrir Lesbók Morgunblaðsins, 6. september 2003, í tilefni af því að Haruki Murakami var staddur hér á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Með góðfúslegu leyfi ritstjóra birtist greinin hér aftur, lítillega breytt.