Beint í efni

Ég er að spá í að slútta þessu og Fyrir fallið

Ég er að spá í að slútta þessu og Fyrir fallið
Höfundur
Iain Reid
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Ég er að spá í að slútta þessu og Fyrir fallið
Höfundur
Noah Hawley
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Alltaf annað slagið koma á markaðinn bækur sem eru kynntar sem bókmenntalegar glæpasögur, eða spennusögur fyrir þá sem eru ekki gefnir fyrir afþreyingarmenningu. Með þessu er gefið til kynna að glæpasagnaformið sé í sjálfu sér ekki merkilegt, en þó séu til höfundar sem geti lyft því á hærra plan. Þetta sýnir afar takmarkaða sýn á sakamálasöguna, en hún er afskapalega fjölbreytt fyrirbæri eins og fram hefur komið í umfjöllununum hér að ofan. Sumar þessara bóka standa fyllilega undir því að teljast Bókmenntir, með stórum staf, eins og Konan í glugganum, Krítarmaðurinn og Náttbirta, án þess þó endilega að vera að reyna neitt, meðan aðrar glæpasögur eru einfaldlega skrifaðar sem hressandi dægrastytting.

Fyrsta skáldsaga kanadíska höfundarins Iain Reid, Ég er að spá í að slútta þessu, er kynnt sem bókmenntaleg spennusaga. Bókin er stutt og lýsir ökuferð kærustupars um sveitavegi að vetrarlagi. Sagan er sögð út frá sjónarhorni stúlkunnar sem er allan tímann að hugsa um að ‚slútta þessu‘, hætta með kærastanum. Það sem gerir málið flókið er að þau eru að heimsækja foreldra hans. Auk þess kemur þeim vel saman, þau eiga margt sameiginlegt og henni finnst hann myndarlegur. Þó er einhver órói í henni, meðal annars vegna ‚hringjarans‘, einhvers sem hringir í símann hennar og skilur eftir óþægileg skilaboð. Þá hefur ókunnur maður, líklegast sá sami, sést á vappi fyrir utan heimili hennar. Hún hefur ekki sagt neinum frá þessum ásóknum, er greinilega frekar átakafælin og óákveðin á allan hátt. Heimsóknin til foreldranna er afar undarleg, bæði þau og heimilið virðast sótt beint í hrollvekju og stúlkan ræður illa við aðstæðurnar. Á leiðinni frá foreldrunum vill kærastinn aka hliðarveg að gömlum skóla og þar endar sagan á dramatískan hátt.

Inni á milli lýsinga á ferð parsins koma stuttir kaflar sem lýsa aðkomu lögreglufólks að glæpavettvangi. Jafnframt ræðir það um undarlega hegðun manns, sem greinilegt er að tengist málinu.

Sagan er stutt og þess eðlis að það er erfitt að segja meira frá henni án þess að gefa of mikið upp og er ágæt aflestrar en það er ekki gott að átta sig á því hvar þetta ‚bókmenntalega‘ er að finna. Vissulega er endirinn nokkuð flókinn og þar koma fram einkenni sem sýna greinilega fram á bókmenntalegan metnað höfundar, en það að málið er ekki útskýrt í smáatriðum er ekki endilega ávísun á að verkið tilheyri fagurbókmenntum. Reyndar var það allt önnur bókmenntagrein sem kom upp í huga mér við lesturinn, bókmenntagrein sem almennt er talin andstæða fagurbókmennta, sjálf hrollvekjan. Plottið, uppbyggingin, tóntegundin, eltihrellirinn og lýsingarnar á sveitaheimili foreldranna eru alltsaman vel þekkt brögð úr hrollvekjum, og sömuleiðis endirinn. Reyndar má í þessu sambandi benda á að heilmikið hefur verið fjallað um líkindi milli hryllingsmynda og listrænna mynda, en í báðum tegundum er lögð áhersla á að skýra sem minnst út og gefa sem mest í skyn. Þetta á ágætlega við sögu Reids, en gerir hana þó ekki endilega að miklu bókmenntaverki. Hinsvegar er sagan bæði vel læsileg og nokkuð áhugaverð.

Önnur spennusaga, Fyrir fallið eftir Noah Hawley, hefur líka verið útnefnd sem óvenjuleg og vitræn og heppilegur lestur fyrir þá sem ekki hrífast mjög að sakamálasögum. Þar er listin í stóru hlutverki, en sagan hefst á því að listamaður nokkur, Scott, verður óvart farþegi í einkaþotu auðmanna, en þotan ferst á leið sinni frá sumarleyfiseyju til New York borgar. Scott lifir af, auk sonar annars auðjöfursins, en auk þess að vera listfengur er Scott sundkappi mikill. Sundáhugann rekur hann til þess að hafa orðið vitni að sundafreki sem barn og heillast svo mjög af líkamsræktartröllinu að hann áleit þar kominn sjálft Ofurmennið, Súperman.

Sagan segir svo frá þeim ýmsu samsæriskenningum sem koma upp í kjölfar slyssins, en sá sem hafði þotuna til umráða stýrði stórri sjónvarpsstöð. Fjölmiðafárið er því mikið. Skipt er á milli kafla sem lýsa ævi þeirra sem fórust, með áherslu á sjónvarpsstjórann, konu hans og dóttur og vinahjónin. Jafnframt er velt upp mögulegum ástæðum fyrir hrapi vélarinnar. Stór hluti sögunnar fjallar svo um Scott og líf hans, en hann hefur sóað meirihluta ævinnar í drykkju og misheppnaða listsköpun. Nokkru fyrir þessa örlagaríku ferð hafði hann þó náð áttum á ný, tekið líf sitt í gegn og byrjað aftur að synda, og jafnframt að sinna listinni af meiri krafti. Nýju verkin hans hafa fengið athygli og ferðin til New York gengur út á kynningarfundi. Svo vill til að listaverkin lýsa hörmungum og stórslysum og því þykir Scott afar grunsamlegur, ekki síst þegar í ljós kemur að hann nær góðum tengslum við drenginn sem hann bjargaði, en sá er erfingi gífurlegra auðæva.

Líkt og saga Reid líður Fyrir fallið fyrir óþarfa tilgerð, en öfugt við sögu Reid sem ber titil með rentu og er stutt – sbr. slútta þessu – er Fyrir fallið afar löng og langdregin. Lýsingar á myndlistaverkum Scotts eiga að skapa dramatík og listrænt yfirbragð, en tekst ekki. Það sama á við um tilvistaruppljómun hans í kjölfar sundsins, en þar er ítrekað hvernig listin skapar honum sérstöðu og gerir hann að ‚betri‘ manni – einskonar Ofurmenni, þó það sé á allt annan hátt en fyrirmyndin. Hinsvegar er afar athyglisverður sá hluti sem snýr að fjölmiðlunum, áhrifavaldi þeirra og þætti í því að móta og hreinlega búa til fréttir og fréttamat, og þá ekki síst í ljósi þess hvernig mörk hins persónulega og opinbera eru að engu höfð og ýmiskonar spilling þykir sjálfsögð. Fréttamaðurinn sem gerist sjálfskipaður siðapostuli eftir dauða yfirmanns síns hikar ekki við að brjóta bæði siðferðislegar reglur og lög til að ná fram þeirri frétt sem hann vill, hvort sem hún hefur við rök að styðjast eða ekki.

Það er sláandi að sjá hvernig glæpasagan hefur tekið að sér hlutverk samfélagsrýni í nútímanum, ekki síst þegar svo mikið liggur við í heimi sem einkennist í æ ríkara mæli af lýðskrumi, græðgi og misbeitinu valds, hvort sem er meðal valdhafa eða þeirra sem taka sér völd í krafti auðs. Mörk sektar og sakleysis og það hvað telst glæpsamlegt og refsivert eru langt frá því skýr og siðferðisleg viðmið ítrekað þverbrotin og um þetta fjalla sakamálasögur í auknum mæli. Spennusagnalestur er því langt því frá að vera einungis dægurþras eða afþreying, þegar vel er á haldið. Ennfremur er áhugavert að sjá hvernig glæpasagnaformið getur boðið upp á ánægjulega bókmenntalega upplifun og hafnar þar með öllum einföldum afgreiðslum á viðhorfi til formúla og klisja.

Að lokum nokkur (hörð) orð um þýðingarnar. Allar eru bækurnar vel þýddar, enda eru þarna á ferð afbragðsþýðendur með mikla reynslu. Þó er óþarflega mikið um hnökra og klaufalegar setningar inni á milli, sem sýnir vel að þessum bókum er ekki nægilega mikill sómi sýndur þegar kemur að yfirlestri og frágangi. Það er ljóst að þessar bækur munu allar njóta mikilla vinsælda og verða mikið lesnar og því er það synd að sjá að útgefendur leggi ekki meiri rækt við að tryggja að málfar sé eins gott og á ‚Bókmenntalegri‘ skrifum. Í þessu felst vanvirðing, bæði við lesendur sakamálasagna, og íslenskt mál yfirleitt.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2018