Beint í efni

Einvígið

Einvígið
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Skák hefur löngum verið rithöfundum frjó uppspretta ýmiskonar táknrænna vangaveltna um mannlega tilveru og örlög. Leikurinn býr enda yfir ákaflega táknfræðilegu mynstri sem gefur Tarotspilum ekkert eftir, ef út í það væri farið. Heimsmeistaraeinvígið sem háð var í Reykjavík árið 1972 öðlaðist svo aukinn táknrænan slagkraft í krafti fulltrúa sinna, skákmannanna Boris Spassky og Bobby Fischer, en heimsmeistarinn Spassky var Rússi og áskorandinn Fischer Kani. Kalda stríðið teiknaðist því upp á taflborðinu með tilheyrandi hysteríu frakkaklæddra karla.

Þetta viðfangsefni varð teiknaranum Halldóri Péturssyni að listrænni gullnámu en teikningar hans sem lýsa átökunum og æsingnum í kringum heimsmeistarmótið eru einstæðar og allt of sjaldséðar, því þeim hefur engan veginn verið nægur gaumur gefinn í íslenskri menningarsögu. Kannski að nú sé kominn tími til að dusta af þeim rykið, því svo virðist sem áhuginn á taflinu sé að aukast hér á landi, allavega ef marka má þá staðreynd að tveir skáldsagnahöfundar gera  þessar frægu skákir að útgangspunkti verka sinna. Auðvelt er að tengja þessa endurkomu heimsmeistarmótsins við fræga endurkomu Fischers til landsins, en endalok hans hér á landi hafa valdið því að þessi átök hafa rifjast upp fyrir mörgum.

Arnaldur Indriðason notar þetta sögulega tímabil einnig til að tefla fram sínum eigin manni, Marion Briem, en sú persóna hefur lengi verið ákaflega dularfull nærvera í þeim skáldsögum Arnaldar sem fjalla um rannsóknarlögreglumanninn Erlend Sveinsson og lögregluteymi hans. Marion Briem er fyrrum yfirmaður og lærimeistari Erlendar og kemur fyrst við sögu í Mýrinni (2000) og deyr í Vetrarborginni (2005), án þess að kyn persónunnar sé nokkurn tíma gefið upp. Og ég get ekki betur séð en að kynið sé enn óútkljáð í lok þessarar sögu, þrátt fyrir að margt gefi sterklega til kynna annað kynið umfram hitt.

Bókin hefst á því að lýsa ferð ungs pilts í kvikmyndahús og teiknar í leiðinni upp kvikmyndahúsaheim þessa tímabils, en sem fyrr sýnir Arnaldur sérlega næmi og hæfileika þegar kemur að því að skapa sannferðugt sögulegt andrúmsloft. Skemmtunin endar þó illa því pilturinn finnst myrtur í lok sýningarinnar, auk þess sem upptökutæki hans er horfið. Marion og Albert nokkur, sem rannsakar málið með Marion, grunar strax að drengurinn hafi verið myrtur vegna upptökunnar og tengja það því andrúmslofti kaldastríðs-vænisýki sem einkennir umhverfi skákmótsins.

Það verður að segjast alveg eins og er að þessi hluti sögunnar er ekkert brjálæðislega áhugaverður fyrir utan hvað hinu sögulega andrúmslofti og umhverfi er almennt vel lýst. Öllu áhrifameiri er sá hluti sögunnar sem snýr að Marion Briem, en þessi leyndardómsfulla persóna er mun meiri leyndardómur innan verksins en morðið á strákgreyinu – þó Marion leggi ávalt mikla áherslu á að morðið á honum megi ekki gleymast í þeirri pólitísku refskák sem þarna teiknast upp.

Til hliðar við taflborðið er nefnilega dreginn upp annar heimur, einnig ákaflega kunnuglegur úr skáldskap, en það er veröld berklanna. Marion hafði þjáðst af berklum sem barn og liggur bæði á Vífilstöðum og er send(ur) til Danmerkur á berklahæli þar fyrir börn. Jafnhliða þessari veikindasögu kynnist lesandi uppvexti Marions og fjölskylduaðstæðum, en þær eru nokkuð óvanalegar. Nú hafa berklar löngum verið uppspretta ákaflega dramatískra og ljóðrænna lýsinga í bókmenntum og vissulega skirrist Arnaldur ekki við að leyfa lesanda að bragða á slíku en fer þó aldrei yfir strikið og heldur umfjölluninni um hinn hvíta dauða vandlega innan þeirra öguðu stílhreinu marka sem hann setur skáldsögum sínum, marka sem halda til haga allri tilfinningasemi en búa yfir undirliggjandi straumum  ólgu og átaka.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2011