Beint í efni

Eitthvað illt á leiðinni er

Eitthvað illt á leiðinni er
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Turninn
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hrollvekjan elskar börn og börn elska hrollvekjur – þetta eru gömul og ný sannindi. Eins og fram kemur í eftirmála Markúsar Más Efraím að Eitthvað illt á leiðinni er þá veldur þetta sumum foreldrum nokkrum áhyggjum, enda fordómar gagnvart hrollvekjum álíka gömul saga og ný. En við sem vinnum á bókasöfnum vitum að börn sækja sér óhikað fóður í hrollvekjandi bækur af ýmsu tagi, hvort sem þær eru gefnar út undir merkum fantasíu, spennusagna og ævintýra, nú eða bara hrollvekja. Þekktur rithöfundur sýndi mér einu sinni barnahrollvekjur sem hann hafði verið að þýða, afbragðsbækur og vel gerðar í alla staði: „En útgefandinn vill ekki gefa meira af þessu út“, sagði hann hryggur, „þetta selst ekkert því það vill engin amma gefa barnabarninu hrollvekju í jólagjöf“. Sem betur fer átti ég bæði ömmu og afa sem hikuðu ekki við að segja mér linnulausar sögur með hrollvekjandi ívafi og gefa mér hrollvekjur í jólagjöf.

Nú síðast birtist frétt á RÚV vefnum þess efnis að íslenskar vögguvísur væru skelfilega hrollvekjandi (http://ruv.is/frett/islenskar-vogguvisur-thykja-mjog-hraedilegar), sem eru sannarlega ekki fréttir fyrir neina aðra en örvæntingarfulla fréttamenn. Enda elskar hrollvekjan börn, eins og áður hefur komið fram.

Það er í þennan brunn krosseignatengsla barna og hrollvekja sem Markús Már sækir þegar hann lýsir því hvernig hann stóð fyrir námskeiði um hrollvekjuskrif sem enduðu í sagnasafninu Eitthvað illt á leiðinni er. Titillinn vísar í fræga setningu úr Makbeð sem Ray Bradbury notaði sem yfirskrift á skáldsögu sína frá 1962. Umskrifunin á þessum orðum hefði mátt vera þjálli, en það dregur hinsvegar ekkert úr gæðum þessarar bráðskemmtilegu útgáfu. Það sem gleður sérstaklega er hversu fallegur prentgripur bókin er, hönnun og myndlýsingar er allt til fyrirmyndar (þó letrið sé í smærra lagi). Það eru 19 krakkar á aldrinum átta til níu ára sem eiga sögurnar í bókinni, meirihluti þeirra eru stelpur, en þvert ofan í viðtekin sannindi höfða hrollvekjur ekki síður til stelpna en stráka.

Sögurnar eru fjölbreyttar og sækja margar til þjóðsagnahefðarinnar, aðallega draugasagna, enda lýsir Markús Már því hvernig hann beitti draugasögunni markvisst til að bægja frá fordómum foreldra. Viðfangsefnin eru fjölbreytt, sumar sagnanna sverja sig í ætt við hefðbundnar íslenskar draugasögur, aðrar eru öllu ævintýralegri, eins og sagan af morðóðu kanínunni. Hér eru sögur sem bera þess greinilega merki að höfundarnir eru vel heima í þekktum hrollvekjuminnum, því lesandi hittir bæði vampýrur og sombíur. Ein sagan tekur fyrir hið þekkta minni draugahús á hrekkjavöku og í öðrum sögum snýst veruleikinn á hvolf, móðirin er andsetin, hjúkrunarkonan líka og börn hverfa.

Allar sögurnar sýna vel hversvegna börn elska hrollvekjur og hrollvekjan elskar börn. Börn hafa löngum verið viðfangsefni hrollvekjunnar, því börn eru varnarlaus og lítil og því fullkomin fórnarlömb hrollvekjandi aðstæðna. En börn eru líka smávaxnar manneskjur með sinn eigin vilja og hugmyndir um heiminn og sem slíkar geta þau verið uppspretta hryllings, eins og frægt er í fjölda sagna og kvikmynda. Og síðast en ekki síst má ekki gleyma því að börn nota hrollvekjur til að máta sig við allar mögulegar ógnir, hvort sem það er að hjúkrunarkonan ætli að éta þau eða að kanínan reynist morðóð. Hrollvekjur eru því beinlínis hollar, því þær geta haft terapískt hlutverk.

Því fer þó fjarri að terapía sé eina hlutverk hrollvekjunnar. Hrollvekjan á sér tilverurétt í sjálfri sér, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna. Því hrollvekjur eru skemmtilegar, hressandi, spennandi og fylla lesendur innblæstri. Og það er það sem við sjáum í sögusafninu Eitthvað illt á leiðinni er, hvað hrollvekjan er lífleg og fjölbreytt og hvað það að lesa og skrifa hrollvekjur er gaman.

úlfhildur dagsdóttir, ágúst 2015