Beint í efni

Ellefti snertur af yfirsýn

Ellefti snertur af yfirsýn
Höfundur
Ísak Harðarson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Árni Davíð Magnússon

Ellefta ljóðabók Ísaks Harðarsonar nefnist Ellefti snertur af yfirsýn. Undirritaður hefur orðið var við talsverða eftirvæntingu fyrir þessari bók sem er ekki undarlegt enda langt um liðið frá síðustu ljóðabók höfundar. Titill bókarinnar er fallegur og grípandi, yfirsýnin getur e.t.v. vísað til þess á hvaða hátt áhrifamikill kveðskapur getur orkað á lesendur. Þeir eru knúnir til þess að gefa sig ímyndunaraflinu á vald og sjá lengra en sem nemur hefðbundinni veruleikaskynjun. Ljóðið verður þá sem vin í óreiðu hvunndagsins, eða eins og ljóðmælandi segir:

 

En hvort sem fjallið heitir Úlfarsfell
eða Olympus Mons, er það fjallið
 sem ég verð að ganga á, til þess að fá
þó ekki nema snert af yfirsýn og 
finnast ég þekkja upp frá niður. 

 

Ljóð þessarar bókar bera lesendur víða, milli tímaskeiða og stjörnuþoka og svo sannarlega má segja að yfirsýn sé mikil meðan á lestri stendur. Minna má það ekki vera enda fæst bókin við risavaxin efni: hringrás mannlegrar tilveru, merkingu og merkingarleysi, ást og guðdóminn. Fyrsta ljóð bókarinnar gefur tóninn fyrir það sem koma skal. Dregin er upp svipmynd af allslausum dreng sem þeytir flöskuskeyti sínu út í ósegjanleikann, þar sem sjálft orðið ósegjanleiki myndar krossmark yfir blaðsíðuna. Þetta ljóð ber einnig einkenni svokallaðra myndljóða þar sem útlit og uppröðun orða á myndfletinum skírskotar út fyrir hefðbundna merkingu. Slík einkenni eru fyrirferðarmikil í bókinni og er notkun þeirra yfirleitt sannfærandi. Í þessu fyrsta ljóði gerir myndljóðsstíllinn ósegjanleikann, guðdóminn, þeim mun tilkomumeiri og allt að því áþreifanlegan.
    Ef lesendum skyldi þó detta í hug í kjölfar þessa fyrsta ljóðs að þeir hafi höndlað sannleikann þá eru þeir rækilega áminntir í því næsta að ekki sé allt sem sýnist:

 

Ekki búast við
að þessi orð og slitur 
myndi neina samfellu,
neina drætti, mynstur,
í ætt við landakort, mósaíkmynd,
heimsslitafræði trúarbragðanna ...

 

Þetta erindi beinir sjónum að því sem mér sýnist vera eitt meginstef bókarinnar þ.e. leit að merkingu og hvar hana sé yfirleitt að finna. Við lestur skáldskapar eru lesendur vitaskuld í sífelldri merkingarleit sem kann jafnvel að ganga í hringi og verða merkingarlaus. Sum ljóð bókarinnar brjóta sjálf til mergjar sína eigin merkingu allt niður í sjálfa bókstafina, eins og þetta sem er rammað inn á eftirfarandi hátt: n / ng / ögn / þögn [...] þögn / ögn / ng / n. 
Slík hringrás og hér er sýnd virðist einkenna byggingu bókarinnar og þar kemur heimsslitafræði trúarbragðanna einmitt mikið við sögu. Í ljósi tíðra vísana í guðdóminn er freistandi að túlka bókina sem svo að hún marki vegferð úr myrkrinu í ljósið, frá hruni til sköpunar. Lesendum er sýndur  heimur þar sem allt virðist glatað ... og  þó,  eftir stendur ástin „snuðrandi í volgum rústum / í leit að einhverju heilu: / stefnu, óbrotnum áttavita“. Í þessum heimi reynir ljóðmælandi að feta sig sólkerfa á milli í átt til ljóssins og myndmál dauða og lífs speglar iðulega hvort annað í gegnum bókina. Í leiðinni bregður einnig fyrir broslegri samfélagsádeilu sem kallast á við merkingarleitina og dregur fram merkingarleysi hins óendanlega lífsgæðakapphlaups: 

 

Halló, hjólbörustjóri! Ef við sjáum
gulan fána með bleiku svíni, þá
erum við komnir heim í gnægðirnar

þar sem gullgrísinn hrein þjóðsönginn
meðan hann stiknaði á grillinu á kvöldin
í garðinum hjá herra Gósen og fjölskyldu
á Allraveraldarvegi 2007. 

 

Það verður að segjast að Ellefti snertur af yfirsýn er frábærlega hugsuð. Jafnvel þótt ljóðin séu á mikilli hreyfingu þá gerir þessi hringlaga bygging það að verkum að heildarsvipurinn verður kyrrstæður, rétt eins og ekkert hafi gerst; líkt og að lesendur séu staddir inni í miðri kjarnorkusprengingu eða svartholi. Þegar best lætur verður tilfinning ljóðanna allt að því yfirþyrmandi: 

 

Rödd sem ómar
    augnatillit skært
útrétt hönd
    skref sem stigið er
faðmlag
    ̶  faðmað allt í gegn ...

Hið milda ekkert
    ryður öllu á braut

 
Við lok bókar finnur ástin, snuðrandi í rústum, loks það sem hún leitaði að: ljóðið sjálft. Ástin og ljóðið mynda ásamt mannkyninu sjálfu nýja þrenningu sem ljóðmælandi nefnir „farveg dásemda Guðs“. Það verður því ekki annað sagt en að inntak Ellefta snerts af yfirsýn sé hákristilegt. Svarið við tilgangsleit ljóðmælanda er í kórréttri kenningu við guðspjallamennina: Leitið og þér munuð finna. Það er að mörgu leyti óvenjulegt að nýútkomnar ljóðabækur nýti sér kristna trú á jafnhispurslausan hátt og hér er gert. Ljóðin eru þó algjörlega laus við helgislepju, og myndmál guðdómsins er á köflum nánast kæruleysislegt, það eru „Þrjú hjól undir bílnum: / faðir sonur og heilagur andi!“. Óhætt er því að mæla með Ellefta snert af yfirsýn fyrir trúlausa sem trúaða, þetta er firnasterk ljóðabók sem dustar rykið af klassískum viðfangsefnum og vinnur úr þeim á meitlaðan hátt.

 

Árni Davíð Magnússon, 2018