„Aldrei hefur fjall / sagt sitt síðasta orð“ segir í ljóðinu „Með fjöll í fasi“ eftir Þóru Jónsdóttur, í nýútkominni ljóðabók hennar, Elst milli hendinga. Það sama má segja um skáldkonuna, sem hefur allt frá árinu 1973 sent frá sér ljóðabækur og bætir nú nýrri við, 88 ára gömul. Bækurnar eru orðnar tíu talsins, auk tveggja ljóðasafna, örsögusafns og ljóðaþýðinga.
Í heimi ljóðanna er þetta dágott ævistarf, ekki síst þegar litið er til þess að þrátt fyrir að sækja ekki endilega ákaft í tilraunastarfssemi (skoðið þó örsögusafnið), þá bjóða ljóð Þóru alltaf upp á ánægjulega og efirminnilega lestrarreynslu. Vissulega liggja leiðir okkar ekki alltaf saman, en ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með ljóðabækur hennar. Það sama á við hér, enn tekst skáldkonunni að opna mér nýja sýn á heiminn, ljóðið og jafnvel sjálfa mig.
Ein helstu einkenni ljóða Þóru eru náttúrumyndir og tilvísanir í þjóðsögur, en í þessari bók ber minna á þjóðsögunum og meira á tilvísunum til kristinnar trúar. Þjóðsögur eru minn heimur, en náttúrubarn get ég seint talist. Þó tekst skáldkonunni að láta mig gleðjast yfir hinum margvíslegu undrum náttúrunnar eins og í ljóðinu sem fyrirsögn þessarar umsagnar er tekin úr:
Sálmur um vötn
Ör af æsku
renna fljótin undan jöklum
grafa djúp gljúfur
í gljúpt landið
þar fella hreindýr horn sín
fjallagrösin þekja mosann
Mettir af mjólk
falla fossar um aldir
Friðarboðar skarta í úða þeirra
Stríðar streyma árnar
frá vatnaskilum
um hörð brjóst landsins
Stóreyg stara fjallavötn til himins
bíða langa vetur
fugla með vítt vænghaf
Fyrir þá sem unna
eru þessar línur
Við sem eigum vötnin
árnar og gljúfrin
þörfnumst þeirra
svo að við séum við
og þú
þú sjálfur
Seint myndi Þóra teljast pólitískt baráttuskáld en þó er ekki laust við að í lokalínunum megi greina tóna náttúruverndar.
Myndmálið einkennist af krafti og gleði bernskunnar, fljótin eru „ör af æsku“ og allt er á fullri ferð, gljúfur grafin og horn felld, mosinn skríður yfir. Ég sé fyrir mér teiknimynd þar sem allt er sýnt hratt. Fossarnir eru líka börn, þeir eru „mettir af mjólk“, þrátt fyrir að falla um aldir, og árnar streyma um hörð brjóst landsins; allt eru þetta afkvæmi jarðarinnar. Fjallavötnin eru eins og nývöknuð börn, stara stóreyg til himins og bíða þess að eitthvað skemmtilegt gerist. Hér birtist náttúran sem sífersk, séð með ferskum augum skáldkonunnar; það er sýn hennar sem kallar fram hina barnslegu gleði
Annað athyglisvert við ljóðið er hversu Þóru tekst að halda sér frá allri væmni. Vissulega eru í bókinni náttúruljóð sem eru bæði hefðbundnari og um leið upphafnari, en oftar en ekki stinga sér niður línur og myndir sem skapa nýstárlega stemningu. Dæmi um það er ljóðið „Litirnir syngja“, sem í fyrstu virðist afar hefðbundið:
Á myndinni gengur maður
frá hvítu húsi
Birtan fellur
á bárujárnsþakið
Bjarthærð kona
stendur í dyrunum
Hægt væri að semja sögu
um húsið manninn og konuna
einnig að mála
aðra mynd á strigann
ellegar sauma
úr efninu fána
sem einhverntíma
blaktir í hálfa stöng
Upphafsstefið sýnir mynd af birtu og hamingju, og næstu gefa til kynna hvað viðfangsefnið er kunnuglegt, en fjórða og síðasta versið umbreytir myndinni: hún er efni, sem nota má í saum, nánar tiltekið fána, og hann blaktir í hálfa stöng – hið hefðbundna tákn sorgar. Bjarta og hamingjusama myndin geymir því andhverfu sína, dauðann, sem er eftir alltsaman hinn óhjákvæmilegi endir. Ferlið er einfalt teiknað upp án nokkurar dramatíkur.
Hér erum við líka minnt á kyn skáldkonunnar, en myndin er augljóslega kvenleg; í stað þess að semja sögu eða mála mynd þá er saumað. Það var Helga Kress sem fyrst kynnti mig fyrir ljóðum Þóru í námskeiðum í almennu bókmenntafræðunum í Háskóla Íslands (fyrir réttum 25 árum) og vakti meðal annars athygli okkar á því hvernig konur notuðu myndmál á annan hátt en karlar. Mig hefur lengi langað að skoða þetta á ný, því mér finnst oft eins og þau minni sem Helga nefndi séu ekki lengur eins kynbundin, en þó verður að segjast að ég man ekki eftir miklum saumaskap í ljóðum karla, en þónokkrum dæmum úr ljóðum kvenna (endilega látið vita ef þið vitið um samansaumuð karlaljóð!). Sumt virðist því ekki breytast.
Ljóðið „Litirnir syngja“ getur hvort sem er vísað til náttúru eða borgar, en samhljómur þarna á milli er enn eitt einkenni ljóða Þóru. Hún skirrist ekki við að skoða borgina sem svið náttúru, fyrir henni eru þetta ekki andstæðir heimar. Dæmi um þetta er „Grímsstaðaholtið“:
Hér í holtinu
býr sinan sig undir
að víkja
fyrir grænkunni
Á stórgrýtið
með ísaldarrispum
hefur tíminn letrað
framhaldssögur
með skóf og mosa
þær vekja enga óþreyju
eftir sögulokum
Fyrir utan að vera minnt á að borgin er byggð á klöpp, þá birtist hér enn á ný þessi hugmynd um land sem tjáir sig. Náttúran talar stöðugt og segir sínar sögur, jafnvel ævisögur, eins og „Sálmur um vötn“ gefur til kynna. Þessar sögur eru bæði sögur af náttúru, landi, byggð og þjóð, en geta líka verið sögur um einstaklinga og tilfinningar. Þannig er „Veðurhljóð“ dæmi um ljóð sem nýtir sér klassískt táknmál veðurs og tilfinninga, en þar „er ekkert lát á storminum“, regnið er slóttugt og finnur sér leið inn. Ljóðmælandi „treystist ekki út“, lokar „öllum gáttum“ og lætur sig „hverfa / inn í músarholu“. Smæð manneskjunnar gagnvart náttúrunni er endurspegluð í tilfinningum innilokunar og ógnar.
Birtubrigði eru skáldkonunni hugleikin: í „Allir heimsins morgnar“ undrast hún hvað sólin er örlát á gull; Óðinn þeysir á Sleipni og ber með sér „norðurljósaskikkju“ en er sviptur völdum af stundvísri dögun í ljóðinu „Óðinn þeysir“; og í „Nátthrafnar“ tekur dagsbirtan sér far með vængjum hrafna. Og svo er „Sofið í björtu“:
Trén depla ekki auga
Fuglar með gagnsæ augnlok
þagna andartak um lágnættið
Vindarnir flytja frjókorn
Stráin leggja nótt við dag
safna birtu drekka dögg
Landið andar ljóðum
Hljóðfæri dagsins
bíður eftir áslætti
Á meðan sofa mennirnir
og dreymir eitthvað
annarlegt
Á meðan augnaráð náttúrunnar hvílir á okkur andar landið ljóðum, og öllu er þessu fleytt inn í annarlega drauma mannanna, eða eru það hinir annarlegu draumar mannanna sem gefa náttúrunni líf og ljóð?
úlfhildur dagsdóttir, desember 2013