Beint í efni

Englaryk

Englaryk
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Alma er ósköp venjuleg fermingarstúlka úr Stykkishólmi sem fer með vísitölufjölskyldu sinni í sumarfrí á Spáni. Þar verður hún viðskila við fjölskylduna og telur sig hitta sjálfan Jesú Krist. Hann tekur að fræða hana um fagnaðarerindið og á nokkrum tímum verður Alma fyrir vitrun og sér ljósið með afar bókstaflegum hætti (innskot: hér hélt undirrituð að Alma hefði hreinlega fengið sólsting). Þegar hún hittir fjölskyldu sína aftur hefur hún breyst úr saklausri unglingsstelpu í ákafan og trúaðan einstakling sem telur sitt hlutverk vera að breiða út sannleikann um Jesú og kristna trú. Þessi umbreyting Ölmu hefur áhrifamiklar afleiðingar fyrir fjölskylduna sem ákveður að leita til geðlæknis til að leysa vandamálið og lækna Ölmu. Þá kemur trúarleg afstaða unglingsstúlkunnar einnig nokkru róti á samfélagið í bænum þar sem fjölskyldan býr, á skólafélaga Ölmu og fermingarsystkin, en ekki síst á foreldra þeirra. Prestur staðarins tekur einnig að efast um hlutverk sitt sem predikari og boðberi kristinnar trúar.

Í grófum dráttum er þetta söguþráður nýjustu bókar Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Englaryk. Guðrún Eva er flestum íslenskum lesendum vel kunn, enda hefur hún verið starfandi rithöfundur í hálfan annan áratug og gefið út fjöldamargar skáldsögur, en síðasta saga hennar Allt með kossi vekur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011. Efnistök á borð við öfgatrú og frásagnir af fólki, sem telur sig boðbera æðri sannleika, þekkja lesendur vel úr daglegu lífi og úr fjölmiðlum. Í ljósi undanfarinna atburða í Írak, Sýrlandi og nágrannalöndum, og síendurteknum árásum Ísraelsríkis á Palestínu, eru átök trúarbragða eitt stærsta vandamál sem alþjóðasamfélagið þarf að kljást við í dag. Ef við lítum okkur aðeins nær, má nefna bænahópinn sem stillti sér upp í tvígang fyrir framan kvennadeild Landspítalans þar sem fóstureyðingar fara fram. Upphaf Englaryks minnir þannig lesandann á tíðrædd og alvarleg málefni samtímans sem gjarnan eru borin fram í nafni trúarbragða og hafa afdrifaríkar afleiðingar sem einkennast af mannréttindabrotum, ofbeldi og kúgun. Það er ef til vill þess vegna sem höfundur sagði nýverið í útvarpsviðtali á Rás 1 að trú væri tabú og mætti kannski alveg vera það.

Í Englaryki er sjónarhornið aftur á móti ekki svo breitt að það nái til þessara samtímalegu þátta og þrátt fyrir að vangaveltur í textanum séu að einhverju leyti heimspekilegar verða þær aldrei pólitískar. Hér er sjónum beint að míkrókosmósi fjölskyldunnar og samskiptum fjölskyldumeðlima. Þá er nánar tiltekið athugað hvað gerist þegar einn fjölskyldumeðlimur, sem er þar að auki nánast barn að aldri, tekur upp ákafa trú á Jesú krist og fagnaðarerindi hans og angrar aðra fjölskyldumeðlimi með orðræðu um trúna. Einlæg trú Ölmu og einstrengingsháttur hefur afhjúpunaráhrif á aðra fjölskyldumeðlimi og frásögnin, sem fer mikið fram í endurliti í gegnum samtöl við geðlækninn, gerir tilraun til að afhjúpa persónur, leyndarmál þeirra og minningar sem hafa verið þaggaðar.

Sagan er því byggð í kringum afhjúpunarform sem dvelur þó að mínu mati of mikið við yfirborðið. Á sama tíma má kasta þvi fram að yfirborðsleg nálgunin endurspegli afstöðu foreldra stúlkunnar sem nenna ekki að skilja Ölmu heldur vilja fyrst og fremst „lækna“ hana og losna þannig við óþægindin sem af henni stafa í venjubundnu millistéttarlífinu. Foreldrarnir eru fyrir vikið báðir frekar óviðkunnanlegar persónur sem eru uppteknar af veraldlegum hlutum eða því sem móðirin kallar „félagslega þættinum“ og virðist aðeins snúast um að verða eins og aðrir í einsleitu samfélaginu. Þrátt fyrir afstöðu foreldranna, sem að einhverju leyti endurspeglar sinnuleysi hins almenna borgara, saknaði ég þess að ekki væri tenging út fyrir það skilningsleysi sem hér einkennir míkrókosmós fjölskyldunnar. Til dæmis við sögulegan tíma nunnanna sem birtast á ljósmynd aftast í bókinni, og tengja söguvettvanginn við sögulegan tíma, eða út í alþjóðasamfélagið. Höfundur daðrar aðeins við það í gegnum sögupersónuna Sigurbjart, eldri og gáfaðri bróður Ölmu, sem reynir að rökræða við hana á vitsmunalegum forsendum og tekur að senda henni greinar af internetinu um óþægilegar staðreyndir um kristna trú og kirkjustofnunina. Hann tengir þannig ofsafengna trú Ölmu við menntunarskort og reynir að upplýsa hana. En þegar líður á söguna virðist Sigurbjartur gefast upp og hverfa af sjónarsviðinu.

Ein eftirminnilegasta persónan í sögunni er án efa presturinn og það er forvitnilegt að fylgjast með hvernig trúarleg sannfæring Ölmu fær hann til að efast um sjálfan sig og starfsferilinn. Hér örlar á húmor og kímni sem veitir sögunni íróníska dýpt. Það stílbragð hefði þess vegna mátt taka fastari tökum til að draga skýrar fram margrætt gildi sögunnar. Hér varð mér einnig hugsað til titilsins. Er Englaryk írónískur titill sem vísar til hlutskiptis Ölmu og trúarlegrar sannfæringar með meinlegum hætti ? Og á hann um leið að endurspegla þessa hugmynd persónunnar sem kemur fram í textanum og lýsir því með dálítið duldum hætti hvernig trú getur slegið ryki í augu fólks : „ [...] englarykið hafði umbreytingarmátt. Allt sem það komst í snertingu við varð ljómandi, töfrandi og þrungið merkingu.“ (bls. 255)

Guðrún Eva hefur góð tök á frásagnartækni og textinn í Englaryki endurspeglar það vel. Sagan er vel skrifuð og einkennist af snotrum og vel meitluðum myndlíkingum. Þá eru samtölin nokkuð sannfærandi og vel skipt á milli sjónarhorna þannig að innra líf og hugsanir ólíkra persóna fléttast vel saman. Eins er vel tengt á milli kafla og því gengur lesturinn snurðulaust fyrir sig. Ef til vill einum of því efni sögunnar býður alveg upp á að stinga í lesandann og hreyfa dálítið við honum. Alma verður að óþægilegri persónu innan fjölskyldunnar og í fermingarfræðslunni, og þerapían á að lækna hana af þessum kvillum. Þessi upplifun af sögupersónu hefði alveg mátt skila sér í frásagnargerðinni sjálfri til að auka áhrif lestrarupplifuninnar og túlkunarmöguleika lesandans.

Eins og fyrri bækur höfundar er Englaryk fyrst og fremst saga um samskipti og takmarkanir þeirra. Að mati höfundar, og eins og Guðrún Eva lýsir í viðtali við Fréttablaðið, eru samskipti tilraunir til að byggja brýr milli ólíkra hugarheima. Hér virðast allar tilraunir fjölskyldumeðlima til brúarsmíði mistakast og skilningsleysi þeirra á milli ráða ríkjum. Geðlækninum, sem er ætlað að vera milligöngumaður í samskiptum fjölskyldunnar, tekst miður vel og samtal hennar við hvern fjölskyldumeðlim snýst upp í sjálfskoðun hvers og eins án þess að það leiði til skilnings á afstöðu hinna. Sagan af björgun fyllibyttunnar í bænum bregður upp ákveðinni tvífaramynd. Á meðan hann er ölvaður, og eyðileggur fyrir sjálfum sér og fjölskyldu sinni, er Alma ölvuð af trú eða undir áhrifum englaryks. Sú saga býður upp á áhugaverðan vinkil, en snýst upp í dálítið melódrama, á meðan sagan af samskiptum Ölmu við vandræðaunglinginn er öllu beittari.

Englaryk varpar vissulega fram ýmsum spurningum, sem lúta að samfélagslegum þáttum eins og samskiptum, tabúum og trú, en ég saknaði þess að ekki væri tekist betur á við þessar spurningar og þær krufðar af afdráttarleysi. Höfundur fer af stað með safaríka hugmynd um aðkallandi efni, sem býður upp á alls konar flækjur, en úrvinnslan hefði getað verið áhrifaríkari.

Vera Knútsdóttir, október 2014