Beint í efni

Eyja Sólfuglsins

Eyja Sólfuglsins
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Eyja Sólfuglsins er síðasta bókin í þríleiknum um unglingana Ými og Gunnu og börnin sem þau eru að passa, Sunnu Maríu og Tuma. Fyrsta bókin, Eyja Gullormsins, gerðist snemmsumars og segir frá fyrstu kynnum Ýmis og  Gunnu, en þau hittast þegar þau eru bæði að passa í sumarfríinu í stað þess að vera í unglingavinnunni eins og  flestir vina þeirra. Sögurnar gerast allar þetta sumar en nú er farið að hausta og skólinn á næsta leiti.

Í upphafi sögunnar er Sunna María nýbúin að eiga afmæli. Hún hefur fengið forláta flugdreka frá afa sínum í afmælisgjöf og krakkarnir fjórir ákveða að fara niður að Tjörn og láta hann fljúga. Eins og í hinum bókunum gerast óvæntir hlutir  við Tjörnina. Þegar Gunna hefur fest flugdrekann við Tuma fer ekki betur en svo að drekinn tekur Tuma með sér og svífur með hann á brott. Þegar krakkarnir leita leiða til að bjarga honum finna þau bát við Tjarnarbakkann, þau stökkva um borð og róa út í hólmann í Tjörninni, en þar sáu þau til Tuma þar sem hann sveif í átt að skrýtnu skýi yfir hólmanum. Ferðalagið ber krakkana að Eyju Sólfuglsins, þar sem sólin skín og  við fyrstu sýn virðist allt vera í himnalagi. Íbúarnir minna á hippa, þeir ganga í „blómóttum“ fötum, með fléttur í hári og ekki er annað að sjá en þeir lifi í sátt og samlyndi við hvor aðra og náttúruna. Yfir eyjunni vakir Sólbjartur og minnir á gúrú frá hippatímanum þar sem hann situr í turni sínum og fylgist með því sem gerist. En þegar þau hitta Trínu, sem er þríeygð systir Mónu og Bínu úr fyrri bókunum, komast þau að því að ýmislegt kraumar undir friðsælu yfirborði eyjunnar. Það er skemmtileg hugmynd að láta krakkana berjast gegn ranglætinu við eyjabúa sem minna um margt hippa, kynslóð sem við þekkjum sem baráttumenn fyrir friði og jafnrétti. 

Sjónarhorn sögunnar er hjá krökkunum til skiptis, en er brotið upp með upprifjunum Sunnu Maríu sem auðkenndar með bláu letri. Þó að sjónarhornið sé oftar hjá unglingunum en Sunnu Maríu er hún í aðalhlutverki í sögunni. Nafnið hennar, Sunna, þýðir sól og hún er sú sem að Sólbjartur vill ná til sín í turninn. Það er hins vegar ekki fyllilega unnið úr þeirri hugmynd og lesandinn fær aldrei að vita af hverju Sólbjartur vill halda henni í turninum.

Eyja Sólfuglsins er ákaflega falleg bók og mikið í lagt til að gera hana alla sem vandaðasta, en það sem ekki síður skiptir máli er að sagan er vel skrifuð og frásögnin skemmtileg. Hún hefur boðskap sem vonandi höfðar til allra, söguhetjurnar berjast fyrir réttlætinu sem, eins og í öllum góðum ævintýrum, sigrar að lokum.

Ég saknaði þess að hafa engin börn til að lesa þessa sögu með, minnug þess hve þá sex ára sonur minn skemmti sér yfir Beinagrindinni, bók Sigrúnar sem út kom árið 1993. Það var fyrsta bókin sem hann las sjálfur og ég held að engin saga hafi komist í hálfkvist við hana fyrr en Harrý Potter kom út sex árum síðar. Sögurnar um Eyjur Gullormsins, Glerfisksins og Sólfuglsins eiga án efa eftir að vekja samskonar gleði hjá börnum í dag.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2008