Beint í efni

Faðir um son frá afa til stráks

Faðir um son frá afa til stráks
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur,
 Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Guðrún Steinþórsdóttir

Það er kominn rétt rúmur áratugur síðan Guðmundur Andri Thorsson sendi síðast frá sér skáldsögu en það var bókin Sæmd sem kom út árið 2013. Tveimur árum fyrr kom út sagnasveigurinn Valeyrarvalsinn þar sem sagðar eru ólíkar sögur af fólki sem býr á Valeyri, en tengjast þó allar í gegnum sögusviðið og tengsl persóna hver við aðra. Eftir þessa áralöngu bið er það fagnaðarefni að út er komið nýtt skáldverk eftir Guðmund Andra, bókin Synir himnasmiðs sem er mögnuð og nýstárleg stúdía á karlmönnum og tilfinningalífi þeirra. Verkið kallast á við Valeyrarvalsinn því það er einnig sagnasveigur þar sem lesendur fá tækifæri til að gægjast inn í líf ólíkra persóna, nánar tiltekið tólf karlmanna. Þótt karlarnir kunni að virðast ólíkir eiga þeir eitt og annað sameiginlegt eins og kemur fram í upphafskafla verksins:

Þeir gætu í fljótu bragði virst meira og minna eins en þegar betur er að gáð eru þeir misaldra, misbrúnir, misþreknir, miseygir og mishærðir. Samt eru þeir meira og minna eins: karlar – þetta er faðir um son frá afa til stráks – og allir niðjar Ólafs himnasmiðs Jónssonar sem uppi var snemma á 18. öld. (14)

Ólafur himnasmiður var til í raun og veru en líkt og nefnt er í sögunni fæddist hann árið 1713, „var lögréttumaður og bjó að Lundum í Stafholtstungum“. Þá var hann einnig „smiður góður, bæði á málma og tré“ (111). Á efri árum var Ólafur rúmliggjandi og stytti sér þá stundir með því að skera út líkneski af postulunum tólf. Útskurðurinn er skemmtileg vísun bæði í Biblíuna og uppspunna afkomendur Ólafs, karlana tólf, en í einhverjum skilningi – og með útúrsnúningi – má líta á þá sem „lærisveina“; það er karla sem eru sífellt að læra að takast á við veruleikann.

Sagnasveigar – eða samansafn tengdra sagna – á borð við Valeyrarvalsinn og Syni himnasmiðs hafa lengi verið til en í því samhengi má minnast heimsbókmennta á borð við Ódysseifskviðu Hómers og Ummyndanir Óvíðs. Þeir hafa þó ekki verið sérlega algengt bókmenntaform í íslenskum bókmenntum en þó má nefna að til viðbótar við Guðmund Andra hafa höfundar á borð við Gyrði Elíasson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Rúnar Helga Vignisson sent frá sér slík bókmenntaverk. Í Synir himnasmiðs leikur Guðmundur Andri sér listavel með formið og sýnir aðrar hliðar þess en í Valeyrarvalsinum. Samsetning sagnasveiga getur verið margs konar en til dæmis kunna ólíkar sagnir að tengjast innbyrðis þegar aðalpersónan er sú hin sama í öllum sögunum, sama þema er í forgrunni sagnanna eða þegar sameiginlegur þráður tengir saman staði, fólk og atvik. Bókin Synir himnasmiðs gerist á einum degi en í gegnum upprifjanir persóna og lýsingar sögumanns spannar hún mun lengri tíma. Sagnasveigurinn er þannig upp byggður að hann hefst á inngangskafla þar sem dregnar eru upp örmyndir af körlunum tólf í upphafi dags – eins konar portrettmyndir – og síðan eru veittar nánari upplýsingar um þá og líkindi þeirra. Þessar almennu lýsingar eru afar myndrænar og fallega ljóðrænar eins og eftirfarandi textabrot er gott dæmi um:

Þeir eru ljúfmannlegir þumbarar. Þeir eru klókir vitleysingar. Þeir eru hlaunagleiðir. Þeir eru Þorgeirsboli, Írafellsmóri, Hjaltastaðafjandinn og jólasveinarnir einn og átján. Þeir eru ský á sólskinshimni og lækur í hlíð. Þeir eru vetrarfjall yfir lágreistri byggð. Þeir eru blær á vanga í gróinni laut. Þeir ýlfra um nætur og eigra um hjarn, sveima einir um eyðisanda í leit að týndri æru og tapaðri sál. Þeir ríða húsum í ljósakiptunum á meðan tunglið veður í skýjum. Þeir gráta undir stýri á leið á fund án þess að sjáist vipra við munnvik eða glói á tár. Þeir eru ýlustrá á eyðisandi. Þeir eru klettadrangur skapaður í bræði. Þeir eru dimmur hellisskúti á liðinni öld. (17-18)

Í kjölfarið inngangsins er hverjum karli helgaður einn kafli þar sem lesendur kynnast þeim og lífshlaupi þeirra nánar. Sögurnar tengjast í gegnum fjölskyldubönd og vinskap karlanna en eftir því sem lestrinum vindur fram verður tengslanetið skýrara. Áhersla er lögð á að sýna hvernig lífið og ástin leikur karlana og hvaða áhrif nánd og fjarvera í samböndum geta haft á einstakling.  

Með ólíkum sjónarhornum er ekki aðeins dregin upp gleggri mynd af körlunum og hvernig þeir standa sig í ólíkum hlutverkum – sem eiginmenn, elskhugar, feður, bræður, synir eða vinir – heldur einnig af þeim persónum sem standa þeim næst, svo sem eiginkonum, börnum, vinnufélögum og foreldrum. Um miðbik bókar og í lokakaflanum er frásögnin aftur brotin upp með örmyndum af körlunum og almennum lýsingum á þeim. Hver og einn kafli gæti vel staðið stakur og sjálfstæður sem smásaga en með því að raða þeim saman í stærri heild og skapa tengingar á milli þeirra verða frásagnirnar af körlunum áhrifameiri og skilningur á aðstæðum þeirra, bakgrunni, skoðunum og gjörðum dýpri. Frásagnaraðferðin er virkilega vel heppnuð en í krafti hennar hefur Guðmundi Andra tekist að finna einkar forvitnilega leið til að varpa ljósi á karlmenn og stöðu þeirra í nútímasamfélagi. Þá gagnast hún einnig mætavel til að sýna hvernig bæði nærvera fólks og fjarvera getur haft mótandi og afgerandi áhrif á líf annarra í sömu mund og hún minnir á hvernig tengsl fólks í íslensku samfélagi eru margslungin og iðulega þannig að allir tengjast að einhverju leyti - mynda saman eina stóra kærleikskeðju.

Lífssögur karlanna fléttast saman á ýmsan máta og þótt þær séu ólíkar kallast þær einnig á, ekki síst vegna þess að tregi, sorg og missir skína jafnan af þeim. Til dæmis syrgir Einar æskuástina Önnu sem hætti að elska hann fyrir áratugum og þótt hann hafi verið með öðrum konum getur hann aldrei skuldbundið sig. Jakob Jensen og eiginkona hans hafa aldrei jafnað sig til fulls eftir lát sonar þeirra og lífið hjá Jóhannesi og Áka hefur tekið stakkaskiptum eftir að eiginkonur þeirra féllu frá. Mundi elskaði Emilíu frá þeirra fyrstu kynnum en hún kaus frekar að binda trúss sitt við vin hans, fyrrnefndan Jóhannes, sem Mundi kynnti hana fyrir. Í áraraðir orti Mundi þó um hana ástarljóð, meira að segja eftir dauða hennar, en rétt eins og í lífinu sjálfu náðu „elskendurnir“ aldrei saman í ljóðunum.

Flókin sambönd innan fjölskyldu eru einnig miðlægt umfjöllunarefni bókarinnar, einkum samskipti barna og foreldra. Í því sambandi má nefna að Teitur Óli hitti ekki blóðföður sinn, séra Sigurð, fyrr en hann var tólf ára gamall en þá var of seint að skapa almennileg tengsl þeirra á milli. Það kom þó ekki að sök því þegar hann var sjö ára tók móðir hans saman við Jóhannes sem gekk honum í föðurstað. Þrátt fyrir að alast upp við ást og alúð upplifir Vikar, hálfbróðir Teits Óla og sonur Jóhannesar, sig utanveltu í fjölskyldunni og á alla tíð erfitt með að tengjast foreldrum sínum og bróður. Ingimar Freyr verður skilnaðarbarn þegar Sveinn faðir hans heldur framhjá barnsmóður sinni og kýs að skilja við hana til að hefja nýtt líf með ástkonunni. Við skilnaðinn verður ákveðið rof á milli feðganna og þegar Ingimar Freyr verður sjálfur faðir á hann erfitt með að skilja hvernig hægt er að ganga burt frá konu og barni. Þótt ekki sé dregið úr því að ýmsir eiginleikar persóna og ákvarðanir þeirra hafi mikil áhrif á aðra – bæði góð og slæm – er þeim einatt lýst af hlýju, skilningi og væntumþykju.

Einn af rauðum þráðum verksins er tónlist sem karlarnir ýmist hlusta á eða spila sjálfir. Þannig er til að mynda vísað í tónsmíðar á borð við O Grande Amor með Getz og Gilberto, Time in a Bottle með Jim Croce, og íslensku lögin Draumalandið og Ég fer í nótt. Auk þess að skapa vissa stemmingu – oft blúsaða – stækka þessar vísanir merkingarsvið textans enda endurspegla sum lögin tilfinningalíf persónanna.

Þótt Synir himnasmiðs sé helguð umfjöllun um karla er hún engin kallakalla-bók þar sem dregnar eru upp staðalímyndir af körlum. Þvert á móti leitast höfundur við að lýsa ólíkum körlum á raunsannan hátt; sigrum þeirra og ósigrum, kostum og göllum, ást og vináttu, störfum og áhugamálum; þannig að útkoman er æði fjölbreytt og margbrotið persónugallerí. Guðmundur Andri er þekktur fyrir virkilega fallegan stíl og á því er engin undantekning í Sonum himnasmiðs þar sem hann er auk þess íhugull og oft ljóðrænn. Það sem situr eftir er þó ekki eingöngu að bókin sé vel skrifuð og þess vegna áhrifamikil heldur ekki síður innsæi höfundar og næmni fyrir ólíkum persónum og frábærar lýsingar á því hvernig er að vera manneskja og takast á við lífið og allt sem það hefur upp á að bjóða.
 

Guðrún Steinþórsdóttir, desember 2024