Bókmenntafræðingurinn og rithöfundurinn Hermann Stefánsson setti eitt sinn fram, í grein á Kistan.is, formúlu nokkra fyrir bókmenntum. Hann hefur argentískan bókmenntafræðing, Walter Mignolo, fyrir jöfnunni, en hún mun vera tilraun Mignolo til að “svara spurningunni um hvað bókmenntalegur texti sé”. Jafnan lítur svona út:
BT = (FM + AOyx)
BT stendur fyrir bókmenntatexta , FM fyrir formgerðir máltákna (væntanlega bara orð og bókstafi) og AO er síðan orðræða af annari gráðu, það er að segja umræða um bókmenntir eins og umfjöllun um skáldverk, viðtöl við rithöfunda, gagnrýni á bækur og álíka. y er það sem er yfirlýst ætlun höfundar og x stendur fyrir hinn opna þátt viðtöku og túlkunar. Eins og Hermann bendir á er athyglisvert að sjá að Mignolo álítur að utanaðkomandi umfjöllun sé órjúfanlegur hluti bókmenntatextans. Þetta er náttúrulega afar mikið í takt við nútímafræði um að allur texti sé sprottinn uppúr öðrum textum, í það minnsta tengdur þeim tryggðarböndum á einhvern hátt. Hugmyndin er þá ennfremur sú að hvert skáldverk sé ævinlega í einhverskonar díalóg við það menningarlega eða jafnvel menningarsögulega umhverfi sem það er sprottið uppúr. (Dæmi um slíkt samhengi gæti verið að Mignolo heitir afarsvipuðu nafni og uppáhalds myndasöguhöfundurinn minn, Mignola, skapari Hellboy og því sé ég alltaf Hellboy fyrir mér á flakki innan þessarar jöfnu.) Þannig ber að lesa hverja afurð listamanna í því sama samhengi.
Nú ætla ég mér ekki að leggjast út í frekari fræðileg skrif um stöðu bókmennta og lista í menningu og sögu, heldur einungis að taka þessa ágætu jöfnu ofurlítið bókstaflega, og velta vöngum yfir því hvernig höfundar innlima annarar gráðu orðræðuna, bókmenntasamhengið, inn í verk sín. Hér á bókmenntir.is hef ég áður fjallað um bók Stefáns Mána, Túristi, en hún einkennist einmitt af þessu, þetta er skáldsaga sem fjallar um bókmenntir, nánar tiltekið íslenskar bókmenntir, rithöfunda, útgefendur og gagnrýnendur. Og nú er ég komin með aðra bók í hendurnar sem að einhverju leyti fjallar einnig um íslenskt bókmenntalíf, rithöfunda, útgefendur og gagnrýni, en það er Feigðarflan Rúnars Helga Vignissonar.
Feigðarflan er sjötta frumsamda skáldverk Rúnars Helga en þessutan hefur hann þýtt fjöldann allan af bókum, nú síðast Silfurvæng, hina dásamlegu barnabók um litlu leðurblökuna. Þrátt fyrir þetta er óhætt að segja að Rúnar Helgi sé ekki sérstaklega vel þekktur höfundur, á bókmenntafræðimáli mætti segja að hann sé ekki miðlægur í umræðunni. Ekki ætla ég mér þá firru að halda því fram að Egill Grímsson, sögumaður Feigðarflans, sé Rúnar sjálfur, nei, ég veit nefnilega betur: hann er söguhetja skáldsögunnar Nautnastuldur sem er oftlega nefnd í Feigðarflani sem skáldsaga eftir Egil Grímsson, sögumann Feigðarflans. Og eitthvað virkar þessi Nautnastuldur ólíkur þeirri sögu sem ég las á sínum tíma - eða er það kannski spurning um x, hinn óræða þátt jöfnunnar?
Feigðarflan hefst á vandlega undirbúnu sjálfsmorði. Eða réttara sagt á vandlegum undirbúningi að sjálfsmorði. Rithöfundurinn Egill Grímsson hefur gefist upp á rithöfundaferlinum og gerst framhaldsskólakennari. Þessi umskipti hafa ekki haft góð áhrif á hann, hann leggst í þunglyndi og ákveður að ganga frá sjálfum sér á snyrtilegan hátt. Málið er bara að undirbúningurinn og áherslan á snyrtimennskuna, stað og aðferð, er svo mikill að sjálfsmorðið verður næsta flókið mál. Áður en af veit er hann lagður af stað útá land, illa búinn í sparifötum með bindi og lendir þar í hinum ótrúlegustu ævintýrum. Hann hittir furðuleg hjón á bóndabæ, en eiginkonan reynist vera dyggur aðdáandi sem á allar bækurnar, og sumar, sérstaklega Nautnastuld, í fjölmörgum eintökum. Hún lítur á þetta sem framtíðarfjárfestingu. Þegar hingað var komið sögu hélt ég helst að maðurinn væri dauður og lentur í einskonar himnaríki, en óvenjulegir sögumenn eru ekki nýnæmi hjá Rúnari Helga, skemmst er að minnast fóstursins í Ástfóstri.
Áfram heldur förin, að því er virðist í leit að réttum stað til að deyja á, og áður en af veit er söguhetja vor komin á heimaslóðirnar. Það þema upprifjunar sem aðeins hafði gert vart við sig verður nú öllu sterkara samfara nokkurri þjóðfélagsádeilu, en Egill er frá Ísafirði. Á leiðinni verður hann svo fyrir því að taka unglingsstúlku uppí bílinn og fyrir tilviljun kemur hann í veg fyrir að gamall kunningi hans fremji sjálfsmorð og tekur hann einnig uppí. Þessi vanskapaða heilaga þrenning - eins og hún er nefnd í sögunni - endar síðan í miklu afmæli í heimabæ Egils.
Allan tímann er dauðastefið spilað, sögumaður skoðar umhverfi sitt náið með vænlegan andlátsstað í huga. Auk þess blandast kvennamál allnokkuð inní málið, en þau tengjast nokkuð karlmannlegum hremmingum Egils, og þarmeð vangaveltum um karlmennsku og kynhlutverk, en það stef er kunnuglegt úr fyrri verkum Rúnars Helga. Og svo er það semsagt bókmenntaumræðan, staða rithöfundarins, bóksala, gagnrýni og lesendur.
Bókmenntaleikurinn hefst náttúrulega með því að sögupersóna annarar skáldsögu er sögumaður hér, og rithöfundur að auki. Síðan er mikið um vísanir í aðra höfunda, en Egill er meðal annars spurður hversvegna hann skrifi ekki glæpasögur eins og Arnaldur, þá myndi honum ganga betur. Vitnað er til hinna og annarra þekktra höfunda og atburðum sögunnar líkt við verk þeirra eins og undir lok sögunnar þegar sögumaður er lentur í allundarlegum aðstæðum og segir: „Mér líður eins og ég sé staddur í skáldverki eftir Sjón“ (200). Og svo velta sögupersónur því aðeins fyrir sér hvort þær séu mögulega tilbúningur einhvers höfundar, eða jafnvel afrakstur hópvinnu.
Hér er margt skrítið og skemmtilegt á ferðinni. Grunnhugmyndin, sjálft feigðarflanið, er sniðug og blandast vel við upprifjanir og síðan bókstaflegt baklit, þegar hinn feigi ekki aðeins rifjar upp eigið liðna líf, heldur beinlínis hverfur á vit þess aftur, fer á æskuslóðirnar. Bókmenntahlutinn er einnig nokkuð skemmtilegur en nær kannski varla að fléttast nógu vel saman við söguna, virkaði á stundum dálítið utanáliggjandi. En það breytir ekki því að hér er á ferðinni dágóð skáldsaga, skemmtileg og umhugsunarverð og nær verulegum hæðum í geggjuðustu köflunum í upphafi og undir lokin. Nei, það er ekkert feigðarflan að leggja út í þennan lestur.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005