Náttúran hefur löngum þótt helsta aðdráttarafl Íslands; hin hreina og hrjúfa náttúra sem er alltumvefjandi og allsstaðar. Meginþorri þjóðarinnar er svo mikill náttúrunnar barn að hér trúa allir á álfa, tröll og drauga, og verndarvættirnar fjórar prýða forsíðu þinghússins. Einu sinni var Reykjavík auglýst erlendis sem ‘next door to nature’, eða í næsta húsi við náttúruna, og átti þetta greinilega að gera höfuðborgina örsmáu meira aðlaðandi, að hún væri eiginlega einskonar náttúrufyrirbrigði. Þessar klisjur um náttúruna og Íslendinga hafa síðan á undanförnum árum orðið æ þreyttari, en segja má að þær nái ákveðnu hámarki í huldufólksgöngum fyrir ferðamenn sem lýsa Reykjavík sem einskonar álfaborg. Svo rammt kveður að náttúru-dýrkunar-leiðanum að það má næstum gleðjast þegar ein og ein rödd bendir á að borgin sé reyndar langt frá því að vera náttúruleg, hún er módernísk bílaborg, mekkanískt kerfi.
Í prósaljóðabók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Fjallvegir í Reykjavík, birtist ekki aðeins fersk og ný sýn á þetta náttúruvafstur allt heldur líka bílaborgina. Titillinn gefur mikið upp, prósarnir lýsa einfaldlega fjallvegum í Reykjavík, götum sem eru á einhvern hátt afmarkaðar - eða markaðar - af fjöllum. Keilir botnar Suðurgötuna, Esjan drottnar yfir Sæbrautinni og Akrafjall spannar Eiðsgrandann, en þar býr skessan Jóka. Þannig upplifir lesandi Reykjavík skyndilega í næsta húsi við náttúruna, á algerlega nýjan, óvæntan og ánægjulegan hátt. Þessi náttúra er fyndin og lúmsk, hún er í senn heimilisleg og dálítið óhugnanleg, en aldrei yfirþyrmandi né hástemmd.
En það er ekki bara náttúran sem Sigurlín lýsir í prósum sínum, því hér birtist okkur bílaborgin Reykjavík einnig í nýju ljósi. Um alla þessa vegi (utan einn, Laugavegurinn) er ekið, á bílum eða í strætisvögnum, og þannig njóta fjöllin sín best, út um bílgluggann.
Fjallvegir í Reykjavík er fyrsta bók Sigurlínar Bjarneyjar, en fram að þessu hefur mátt finna texta eftir hana í Lesbók Morgunblaðsins og Tímariti Máls og menningar. Í fyrra varð hún í fyrsta sæti í glæpasagnakeppni Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags. Hið síðarnefnda kemur ekki á óvart því það er ákveðinn töffaratónn í prósunum, sem á vel við vega-andrúmsloftið. Á stöku stað hefði mátt pússa textann betur til, en heildarmyndin er vel útfærð.
Sumir prósarnir eru einfaldlega lýsing í stíl ferðahandbóka eins og sá fyrsti um Suðurgötuna og Keili, aðrir eru meiri sögur, eins og „Vitastígur í Norðaustur„ sem er sérlega velheppnuð ferð í tíma, auk þess að bjóða uppá Íslendingasagnastíl. Sú vísun er dæmi um afskaplega hæfilegan skammt af bókmenntalegum tilvísunum, en aðra skemmtilega er að finna í „Vestur Suðurlandsbraut„, þarsem smásagnasafn Ísaks Harðarsonar, Snæfellsjökull í garðinum, er einskonar leiðarvísir. Saga borgarinnar birtist stuttlega í „Höfðatún í norðaustur„ í bland við tilvísun til annarar borgar. Ljóðmælendur eru ýmist karlkyns eða kvenkyns og nær Sigurlín að fanga skemmtilega ólíkar raddir í heimi sem í fyrstu gæti virst fremur einsleitur.
Flestöllum prósunum fylgja GPS staðsetningar vegfarendum til hægðarauka.
Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2007