Tvær ljóðabækur Þórarins Eldjárns, Ydd frá 1984, og Hin háfleyga moldvarpa, sem sá dagsins ljós sjö árum síðar, rugluðu lesendur og gagnrýnendur sem höfðu vanist því að skáldið orti undir hefðbundnum bragarháttum. Ef til vill tóku þeir bara eftirfarandi erindi úr síðasta mansöng Disneyrímna (1978) sem manifestó höfundarins: „Útaf því ég fæ ei frí, / föst er á mér gríma. / Ekki flý þó æpt sé hí / örlög mín: að ríma“. Þessi „gríma“ var reyndar föst þannig að Ydd og Moldvarpan vöktu tilvistarspurningu um örlög forms í skáldskap Þórarins, þ.e. ætlar hann að ríma eða ríma ekki? Svo sendi hann frá sér ljóðabókina Ort (1991) með hefðbundnum ljóðum og enn var spurt. Skáldið virðist hafa orðið frekar þreytt á þessari ítrekuðu spurningu um form, var samt fús að svara henni og þá var það loks árið 2005 í ljóðabókinni Hættir og mörk að Þórarinn lét óbundin og hefðbundin ljóð lifa saman í sátt og samlyndi.
Þórarinn beitir sömu aðferð í nýjustu ljóðabók sinni Fjöllin verða að duga og slík samblanda skapar óvænta og bragðmikla fjölbreytni. Bókin skiptist í sjö hluta með sjö ljóðum í hverjum og þó hér sé ekki um neinn ljóðabálk að ræða, má samt finna ráðandi þemu, aðferð eða stemmningu í hverjum hluta. Staðir og minningar sem þeir kalla fram einkenna til dæmis ljóðin í öðrum hluta. Hann byrjar með lýsingu á akstri um landið og mynd af „vaxandi vorsól“ (21) og svo skín sólin til fulls í fallegu og nærgætnu ljóði „Sól heima“ sem upprunalega var flutt í ljóðagarði Sólheima í Grímsnesi: „Hér á sólin heima. // Sólin er heima.“(29) Inn á milli má finna „Palast der Republik“ þar sem „Asbestrykið þyrlast / um minningarnar / alla leið aftan úr / grárri forneskju 1976 / þegar allt var hér nýtt.“ (23) og svo nær heima eru Tröllaskagi, Skinnastaðir og Hótel Edda. Í því síðastnefnda var einu sinni héraðsskóli og ennþá er „keimur / af yddi og nöguðum eplum / í öllum hornum“ (26). Staðir í óvæntri hliðstæðu birtast líka í sjötta hluta bókarinnar sem inniheldur eingöngu prósaljóð (örsögur). Titill „Angelica Versallica“ þjappar saman þessari hliðstæðu sem örsagan fjallar um, þ.e. að hvannarfræ (hvönn er angelica á latínu) tínd á Ægisíðu lenda í franskri mold í görðum Versala og eru svo vökvuð með „ölkelduvatni frá Evian við suðurströnd Genfarvatns.“ (87) Slíkt menningarlegt og landfræðilegt brugg umturnar öllu: „Höllin var sokkin í óvinnandi hánorrænt / ætihvannarþykkni svo sólkonungur sá ekki til / sólar.“ (87) – en þetta gerist aðeins í draumi ljóðmælanda. Samt fær þetta ljóð, eins og nokkur fleiri í bókinni, okkur til að hugleiða stað okkar og stöðu „í staðlausum heimi“ („Ávarp fjallkonu“, 67).
Það kemur ekki á óvart að fjall verður aðalmyndin í fáguðu og vel sniðnu „Ávarpi fjallkonu“: „Að eiga sér fjall / í flötum heimi / eiga þar skjól“ og svo „Eiga það / mark / mið / kennileiti.“ (68) Fjall er svo eitt í þrenningu „sem rímar á móti menning.“ og þessi þrenning myndar súlu á blaði:
Fjall
kona
karl
er allt
sem
þarf
í
arf.
(69)
Fjöll koma aftur fyrir í fleiri ljóðum, t.d. í „Tröllaskaga“, „Landslagi texta“ og „Skuggum“. Fjall er eitt af þessum fyrirbærum sem okkur finnst freistandi að gera að tákni. Þórarinn hefur hins vegar alltaf viljandi verið að grúska í hverdagsleikanum og umbreyta með symbólík því ómerkilegasta í heimi. Í Erindum (1979), ávarpar skáldið t.d. sloppa („Þér sloppar ég ávarpa ykkur“, „Sloppar“, 59) og „Eldhúsljóð“ úr Yddi sýnir uppþvóttavélinni virðingu. Barnaljóð Þórarins gefa okkur ótal dæmi um hvernig hægt er að finna það merkilega, spennandi og stundum fullkomlega fáranlega í kunnuglegum hlutum. Ryksuga nýtur, til dæmis, ástúðar Rögnvaldar Ó. í ljóðabókinni Grannmeti og átvextir (2001, 52). Hér er ryksuga þekkt sem „vampíra frá AEG“ og nafnið sem hljómar svo kunnuglega, gegnir aðalhlutverki í „Horror vacui cleaner“. Vampíran virðist tjá best efni og eðli þessarar nýjustu ljóðabókar Þórarins þar sem svo mikið er um einhvers konar geymslu á minningum, pælingum, draumum og björgun þeirra frá gleymsku. Vampíra sem getur lýst „andrúmslofti / liðinna daga“ geymir „Einhverjar agnir / óbeygðar sagnir / þar býr mörg / segin saga.“ (45) og við hana segir ljóðmælandi „Haltu upp á hjómið / ég er hræddur við tómið.“ (45) Mörg ljóð í Fjöllin verða að duga bjarga fullkomlega frá gleymsku alls konar hjómi.
Eins og alltaf sýna ljóð Þórarins óviðjafnanlegan hæfileika skáldsins til að fanga hljóð orða og binda þau fast í stuðlum og rími eða lauslega til að halda hrynjanda. Samtímis heldur hann áfram að móta, ögra og endurnýja tungumálið og uppgötvar merkingu í andlausum tuggum með því að búa til ótal orðaleiki. Á meðan vit okkar fæst við orðaleikina og nýjar víddir merkinga sem þeir skapa, er eyrum okkar boðið að stilla inn á hrynjanda og opna fyrir hljóð ljóða: „Úttroðin eyru / en kokhlustin / gapir af undrun.“ (8) eins og segir í „Á vit vita“, fyrsta ljóði bókarinnar. Það má segja að hlustun, sérstaklega á sjálfan sig, straum hugsana og minninga myndi eitt af undirliggjandi þemum bókarinnar. Í ljóðinu „Yrking“ er fjallað um það að að yrkja sé eins og að „Rannsaka hugskot / í launkofum“(13) og svo er þessari úrvinnslu lýst þannig:
Loftnetin skyldu beinast
í allar áttir
standa á stilkum
stillt á tíðindi
sem detta í hug
hugur dettur um
dettur í.
(14)
Í ljóðinu „Skilaboð“ sem bókinni lýkur á er fjallað um punkt sem vildi ekki loka setningu og um aðra líka honum sem halda til í „blekbyttum, leturborðum og tölvukubbum“ (91). „Þar“ segir ljóðmælandi „halda þeir þræði þráðlaust. Hljóða í hljóði“ (91). Disneyrímur voru þar til nú eina ljóðabók Þórarins sem endar á ólokinni setningu og í síðasta erindi þeirrar bókar er boðuð bylting. Það er hins vegar engin bylting á ferðinni í Fjöllin verða að duga. Hvað er lesendum boðið upp á núna? Að „rannsaka hugskot“? Finna sér fjall „í flötum heimi“? Hlusta á minningar úr einnota poka vampíru? „Spurningamerki”, segir í ljóðinu „Pláss“, eru „eyru textans“ (90). Látum okkur þá heyra.
Olga Hołownia, desember 2007