Það var óneitanlega svolítið sérstakt að eyða páskunum meðal norrænna glæpa, sem flestir tengdust fortíðinni með einum eða öðrum hætti, misfjarlægri þó. Þannig ferðaðist ég frá vesturheimi til smábæjar í Svíþjóð, þaðan til lítillar sænskrar eyjar og endaði loks í Osló. Ég fræddist um norræna vesturfara, og sannfærðist um að smábæjarlífið myndi gera mig brjálaða, en gladdist yfir því að heimsækja Osló og litast svolítið um þar. Ekki síst var Oslóarheimsóknin ánægjuleg eftir hörmulega viðkomu þar í sögu þeirra Lizu Marklund og James Patterson, Póstkortamorðin, sem er líklega alversti krimmi sem ég hef lesið (og ég er kona með reynslu). Sögurnar fjórar, Nemesis eftir Jo Nesbø, Hafmeyjan eftir Camillu Läckberg, Land draumanna eftir Vidar Sundstøl og Hvarfið eftir Johan Theorin, eru gefnar út undir merkjum Undirheima, sem er einskonar undirheimaútgáfa Uppheima, bókaútgefanda sem hefur verið að sækja verulega í sig veðrið á síðustu árum. Þessi feiti og fallegi páskapakki er áhugavert dæmi um tilraun til að brjóta upp einræði jólabókaflóðsins og sem slíkur er hann sérlega þakklátt verkefni.
Bækurnar fjórar standa einnig fyllilega fyrir sínu, það er best að taka það fram strax. Þetta eru allt flottir krimmar, eins og norrænir krimmar gerast bestir og bjóða lesanda uppá áhrifamiklar sögur með hæfilega miklum glæpasagnaklisjum í bland. Reynsluboltarnir tveir, Nesbø og Läckberg standa við sitt, en ferskleikinn er óneitanlega meiri í sögum þeirra Sundstøl og Theorin. Þrjár sagnanna gerast í afskekktum byggðum en slíkar sögur virðast eiga miklum vinsældum að fagna í kjölfar nokkuð ráðandi stöðu ‘skipulagðra-glæpa’ sagna með tilheyrandi vonleysislegu undirheimalífi stórborga. Nemesis sker sig þó úr, því þar er einmitt fjallað, meðal annars, um skipulagða glæpastarfssemi, en Nesbø tekst að vinna nokkuð snarplega úr þeim efniviði. Sagan er sjálfstætt framhald Rauðbrystingsins sem fjallaði á eftirminnilegan hátt um nasisma í Noregi. Hér er þó viðfangsefnið bankarán í Osló, sem endar með morði, auk þess sem sjálfsmorð fyrrum kærustu rannsóknarlögreglumannsins Harry Hole virðist ekki einfalt mál. Lausnin á því máli var nokkuð ljós frá byrjun, sem var alltílæ, en bankamálið reyndist öllu flóknara. Málin snertast á óhefðbundinn hátt, meðal annars gegnum unga konu sem nýlega hefur gengið til liðs við rannsóknarlögregluna. Og undirliggjandi er svo rannsókn Hole á morðinu á samstarfskonu sinni, morði sem á yfirborðinu telst leyst. Ofdrykkjumaðurinn Harry Hole er karakter sem var gaman að hitta aftur, þó á stundum sé hann óþarflega lengi að sjá ljósið, og svo er alltaf svolítið sætt að sjá hvernig karlkynshöfundar passa sig á að minna (kvenkyns)lesendur sína á að myndarlegir menn reynast iðulega flögð undir fögrum skinnum.
Saga Nesbø er að mörgu leyti frábrugðin þeirri næstu á undan, enda málin ólík. Camillu Läckberg er hinsvegar ekkert að fara út fyrir þá formúlu sem hún hefur útbúið sér. Hafmeyjan er nákvæmlega eins uppbyggð og fyrri sögur hennar; leyndarmál fortíðarinnar eru hér allsráðandi og það er bara nokkuð umhugsunarvert hversu mörg vafasöm fjölskylduleyndarmál geta leynst í litlum bæ, en sögur Läckberg gerast allar í sænska smábænum Fjällbacka. Þar búa þau Erica og Patrik, hún er rithöfundur og hann er lögga og sameiginlega leysa þau hin ýmsu óhuganlegu morð sem herja á bæinn, og berjast í leiðinni við ýmsar hindranir, svosem heimskan yfirmann og stöðuga óléttu í bland við fæðingarþunglyndi. Að þessu sinni hefst atburðarásin á því að karlmaður á miðjum aldi hverfur og þegar lík hans finnst er ljóst að hann hefur verið myrtur. Hann tilheyrði vinahóp fjögurra karla, en einn þeirra er rithöfundur sem hefur óvænt slegið í gegn með fyrstu skáldsögu sinni, Hafmeyjunni. Þó ýmislegt í sögunni sé nokkuð fyrirsjáanlegt var annað sem kom nokkuð hastarlega á óvart og sagan var, eins og fyrri sögur höfundar, skemmtileg aflestrar og formúlan skemmdi barasta ekkert fyrir.
Land draumanna Vidar Sundstøl var tilnefnd til Glerlykilsins á síðasta ári, en Hvarfið eftir Johan Theorin varð hlutskarpari og hreppti gagnsætt hnossið. Sjálf hefði ég átt erfitt með að gera upp á milli þessara tveggja, því mér fannst saga Sundstøl afar áhrifamikil. Hún gerist í vesturheimi, nánar tiltekið í Minnesota þarsem afkomendur norræna innflytjenda búa. Skógarlögga finnur blóðugan og allsnakinn ungan mann, sem þó er óskaddaður, en hleypur undan og leiðir lögguna að líki annars, sem er álíka búinn. Þeir reynast vera norskir ferðamenn og samkynhneigðir, en samband þeirra er forboðið vegna trúar þeirra, þarsem báðir tilheyra sama sértrúarsöfnuðinum. Sundstøl fléttar svo sögu staðarins, forsögu hinna norrænu innflytjenda og samskipti hvítra við frumbyggja inn í plottið á flottan hátt, auk þess að teikna þetta þrönga fordómafulla samfélag sterkum dráttum. Sagan er laus við alla tilgerð og hið þrönga samfélag og þau vandamál sem það skapar er notað vel, án þess að ganga út í öfgar.
Samskonar snerpa einkennir sögu Theorins, handhafa Glerlykilsins. Hér er líka fjallað um lítið samfélag, nánar tiltekið eyju í smálöndum Svíþjóðar. Annað atriði sameinar sögurnar, en hér gengur einnig einskonar draugur laus, sem er hentugur blóraböggull samfélagsins. Smæð samfélagsins og of mikil nánd fólks leikur einnig lykilhlutverk þó á ólíkan hátt sé en sagan segir frá Júlíu sem syrgir enn hvarf sonar síns, tuttugu árum síðar. Faðir hennar biður hana að heimsækja sig, en hann hefur í félagi við nokkra gamla vini sína byrjað á gamals aldri að grúska í málinu. Hann álítur að illmenni sem flúði eyjuna í stríðslok og sneri aftur í líkkistu tveimur áratugum síðar, hafi í raun ekki verið dauður og álítur hann ábyrgan fyrir hvarfi stráksins. Þegar Júlía kemur til eyjarinnar deyr einn vina pabbans og því virðist ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þessi feðgin, og félagar karlsins, eru sérlega skemmtilegt spæjarateymi og þrátt fyrir þungan undirtón er eitthvað spriklandi við þessa sögu, sem gerir hana vel að verðlaununum komna.
Þetta voru góðir páskar.
Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2010