Eiríkur Örn Norðdahl hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem eitt af okkar helstu framúrstefnu- og tilraunaskáldum. Þess vegna kemur það nokkuð á óvart hversu látlaus nýjasta bók hans, Fimm ljóð, er á yfirborðinu. Síðasta bók Eiríks var sögulegi doðranturinn Náttúrulögmálin sem var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, og útgáfa Fimm ljóða sætir nokkurra tíðinda því um er að ræða fyrstu ljóðabók Eiríks í ein átta ár, síðan Óratorrek kom út 2017. Óratorrek er ef til vill „hefðbundnari“ bók innan höfundarverks Eiríks en bókin inniheldur framúrstefnuleg og „mælsk“ ljóð sem eru afdráttarlaust pólitísk, enda ber bókin undirtitilinn „Ljóð um samfélagsleg málefni“. Eiríkur Örn hefur þó sýnt og sannað í bæði skáldsögum sínum og ljóðum að hann er maður margra hatta, höfundur sem getur valdið jafn ólíkum formum og sögulegum skáldsögum, absúrd skáldævisögum, smábæjar ástarsögum og hinum ýmsu gerðum ljóða. Það skal því engan undra að nýjasta ljóðabók Eiríks sé ólík fyrri bókum hans að formi og efnistökum.
Fimm ljóð inniheldur, eins og titillinn gefur til kynna, aðeins fimm ljóð sem hvert um sig er þó frekar langt. Ljóðin bera titlana „Staðir“, „Borgir“, „Áverki,“ „Lyklavöld“ og „Þríhjól í Svíþjóð“. Á yfirborðinu er skáldið að yrkja um nærumhverfi sitt, landsbyggðina vs. höfuðborgina, en Eiríkur er Ísfirðingur og sögusvið nokkurra síðustu bóka hans, þar á meðal Náttúrulögmálin og Brúin yfir Tangagötu, er þar fyrir vestan. Hér yrkir höfundur um það sem aðskilur okkur Íslendinga og aðgreinir en fyrst og fremst um það sem sameinar okkur; einsleitnina og þjóðarsálina sem er til vill auðveldara að finna í heitu pottunum og pylsupottunum víða um land fremur en bókmenntunum og tungumálinu.
Í þessu landi eru tvær borgir
úr steypu, gleri og stáli225 kílómetrar
í beinni loftlínu
skilja þær að.Borgirnar eru eins
og í þeim býr sama fólkið.Tvær borgir, eitt fólk,
allt eins.(bls. 15)
„Borgir“, annað ljóð bókarinnar, þaðan sem textabrotið hér að framan er fengið, er jafnframt lengsta ljóð hennar og telur einar 35 blaðsíður. Ljóst er af vegalengdinni að borginar tvær sem skáldið nefnir í upphafi eru Reykjavík og Ísafjörður og verða Akureyringar því miður að bíta í það súra epli. Í ljóðinu eru dregnar upp myndir af hversdagslífi íbúa borganna tveggja, þar sem „baukar af kartöflukryddi / standa uppréttir innanum / amboð og bragðolíur“ (bls. 16). Grár hversdagsleikinn svífur yfir vötnum og sameinast við skarpa ljóðrænu sem dregur fram smáatriðin í heildarmyndinni svo úr verður eins konar tilvistarleg tímaleysa. Hér er ort um sjoppur, strætó, ís í brauðformi en líka um samband mannsins við nærumhverfi sitt, tilbreytingarleysi nútímans í heimsmynd þar sem „allt breytist en það breytist aldrei neitt“ (bls. 48). Ljóðið „Lyklavöld“ er nánast eins og framhald af ljóðinu „Borgir“. Þar er dregin upp mynd af samskiptum viðskiptavins og starfsmanns í sjoppu sem taka á sig táknrænan blæ, svo minnir jafnvel á leikrit eftir Samuel Beckett eða Harold Pinter.
Þessi staður skilgreinir okkur, grípur hann fram í,
jafn örugglega og holdið
sem umlykur okkur.Engin sjoppa er betri
en pylsan sem hún selur.
Segir hún.Og í þessum sjoppum
er alls staðar seld
sama pylsan.(bls. 64-65)
Starfsmaðurinn er að úbúa mjólkurhristing fyrir viðskiptavininn og samtal þeirra, sem er hversdagslegt á yfirborðinu, verður uppspretta vangaveltna um fólk og staði, það að tilheyra og tilheyra ekki, sveitina, borgina, siðmenninguna og mennskuna sem við setjum upp eins og grímu; „þessi linnulausa grimmd / sem verður að hylja með gatnamótum“ (bls. 66). Á endanum súrnar samtal starfsmannsins og viðskiptavinarins, þau fara að rífast og smætta hvort annað niður í það sem aðgreinir þau en enda að lokum á að þylja saman í kór síðustu erindi ljóðsins:
Við erum torgin sem við eigum eftir
að þramma yfir;
við erum ræsið sem við eigum eftir
að falla í gegnum
á leið okkar að matnum
sem ég á eftir að verða, segir hann,
dýrunum sem þú veiðir, segir hún.(bls. 69)
„Lyklavöld“ er skemmtilega táknrænt og absúrd ljóð sem væri án efa gaman að heyra flutt í leikrænum upplestri enda minnir það að mörgu leyti á leikrit.
Síðasta ljóð bókarinnar ber heitið „Þríhjól í Svíþjóð“ og er ort til dóttur höfundar, Aino Magneu. Ljóðið samanstendur af mörgum stuttum, fjögurra lína erindum þar sem ljóðmælandi telur upp hluti í nærumhverfi sínu, að því er virðist til að kenna barni sínu nöfn dauðra og lifandi hluta, hugmynda og staða:
Þetta eru reiðhjólin
og þetta vagninn.Þetta er Svíþjóð
og þetta þríhjólin.(bs. 74)
Fljótlega verða hugtökin þó flóknari og óhlutbundnari, svo sem „félagsmótun“ og „erfðir“. Inn á milli læðast svo ljóðlínur sem umbreyta einfaldri samverustund foreldris og barns í eitthvað meira, ljóðræna hugleiðingu um stöðu mannsins andspænis tilverunni, sem er í senn falleg, persónuleg og heimspekileg, rétt eins og lífið á það til að vera. Ljóðið lýsir einmitt svo vel þeirri tilfinningu sem allir eldri en tvívetra ættu kannast við; sem er að þrátt fyrir að allt gangi sinn vanagang og þrátt fyrir að sólin rísi alltaf í austri og setjist alltaf í vestri, þá hættir lífið aldrei að koma okkur á óvart.
Í fyrstu er allt ókunnuglegt, svo ævintýralegt,
þreytt, spennandi, þreytt, stabílt og svo mjög óstabílt.Einmitt þegar maður hélt sig
hafa snert endalok sögunnar.(bls. 76)
Eða eins og segir í ljóðinu „Borgir“, „allt breytist en það breytist aldrei neitt“. „Þríhjól í Svíþjóð“ kallast jafnframt skemmtilega á við fyrsta ljóð bókarinnar „Staðir“ sem er einnig skipt í stutt, fjögurra línu erindi, en þar telur ljóðmælandi upp allt það sem hann skilur eftir sig víða um húsið, rétt eins og hann sé eins konar nútíma útgáfa af stúlkunni Gullbrá á sínu eigin heimili. Ljóðin tvö mynda því rammafrásögn utan um bókina Fimm ljóð sem hverfist í kringum upptalningar og eins konar sköpunarsögur.
Í munnvikum barnanna skil ég eftir
græna sykurleðju þótt það
sé ár og dagur í næsta nammidag
og það megi alls ekki sjást að ég hafi verið hér.(bls. 8)
Fimm ljóð er óvenjuleg bók í höfundarverki Eiríks Arnar Norðdahl, ívið átakaminni og ópólitískari en fyrri ljóðabækur höfundar en þeim mun hófstilltari, fagurfræðilegri og kjarnyrtari. Þeim sem hrifust af Óratorreki og koma með þær væntingar til verksins gæti þótt Fimm ljóð daufleg við fyrstu sýn. En eitt af því sem síðari bókin hefur umfram þá fyrri er að hún ber meira traust til lesenda sinna. Með því að forðast fyrirframgefna merkingu gefur höfundur lesendum rými til að nálgast verkið á eigin forsendum og túlka ljóðin eftir eigin höfði. Fimm ljóð er bók sem stækkar með hverjum lestri og ljóðin fimm sem við fyrstu sýn virðast hversdagsleg eru þegar nánar er að gáð bæði margræð og útpæld.
Þorvaldur S. Helgason, apríl 2025