Um þessar mundir velti ég mikið fyrir mér flokkunum og flokkum menningar, en í námskeiðum sem ég kenni í Listaháskóla Íslands um menningarfræði og sjónmenningu er slík umræða mjög viðvarandi. Þegar ég tala um mismuninn á afþreyingarmenningu og fagurmenningu, eða bara Menningu með stórum staf vita flestir til hverskonar markalína ég vísa, en þó eru alltaf einhverjir sem bara hugsa ekki samkvæmt þessum línum. Nei, ég bara skil þetta ekki nógu vel sagði ein áhyggjufull nemönd, afhverju er þetta endilega flokkað þarna? Önnur kom með tillögu: að til væru verk - jafnvel nokkur fjöldi menningarafurða - sem væru eiginlega hvorki né, svona eins og unglingar, sagði hún, hvorki börn né fullorðnir.
Mér fannst þetta nokkuð skondin samlíking og hún kom óneitanlega upp í hugann þegar ég las hina frábæru bók Natalie Babbitt, Fólkið sem gat ekki dáið, en þar er einmitt á ferðinni verk sem flokkast illa undir tiltekinn hatt, barnabók, unglingabók, fullorðinsbók? Ódauðleikinn hefur verið viðfangsefni ýmissa heimspekilegra höfunda, allt frá Milan Kundera til Simone de Beauvoir, en þó er ódauðleikinn líklega helst viðfangsefni lágmenningar, hrollvekja sem fjalla um óvætti ýmiskonar sem af ýmsum ástæðum, aðallega þó sem tengjast erótík, ofbeldi og blóði, eru ódauðlegar. Fólkið sem gat ekki dáið segir frá Winnie Foster, hún er tíu ára, það er heitt og henni leiðist svo að hún tekur upp tal við körtu sem situr hreyfingarlaus hinum megin girðingarinnar. Einn daginn ákveður hún að rölta út úr garðinum heima hjá sér og skoða skóginn, sem strangt til tekið er í eigu fjölskyldu hennar. Þaðan heyrir hún fallega og undarlega tónlist og þar hittir hún Jesse Tuck, fallegan 17 ára pilt sem hún heillast af, og fjölskyldu hans, bróðurinn Miles og móður þeirra Mae. Og þau ræna henni. Ekki þó til að skaða hana heldur til að segja henni sögu sína og sögu ódauðleika-lindarinnar sem sprettur upp í miðjum skóginum og til að sannfæra hana um skaðleika þess að láta fréttast af þessari einstöku uppsprettu. Inn í söguna blandast svo hávaxinn maður í gulum fötum sem greinilega hefur áhuga á skóginum og Tuck fjölskyldunni og virðist ekki hafa gott í huga.
Saga Babbitt er ekki sérlega heimspekileg, allavega svona í samanburði við tilvistarheimspekina í Allir menn eru dauðlegir Beauvoir, né er hún hasarbók að hætti Anne Rice, og þó höfundurinn sé þekktur sem barnabókahöfundur á ég líka erfitt með að segja afgerandi á um að hún sé barnabók. Þó fjallar sagan um barn, auk þess sem hér eru bæði heimspekilegir þræðir og nokkur hasar! Fólkið sem gat ekki dáið er einfaldlega lítil en áhrifamikil saga, jafnvel einskonar nóvella, um fjölskyldu sem óvænt og óvart verður fyrir því að verða ódauðleg og um litla stúlku sem óvænt og óvart kemst í kynni við þau. Þetta er saga um trygglyndi og traust, ábyrgð og eilíft líf. Ódauðleikinn er ekki gerður að ævintýri, því líf Tuck fólksins er afar fábreytt og hljóðlátt.
Á sama hátt er stíll sögunnar látlaus en samt lifandi – á einhvern undarlegan hátt er það afar kyrrstæð karta sem lífgar mikið upp á söguna – og Babbitt lýsir því tilgerðarlaust hvernig Winnie sveiflast til og frá í viðbrögðum sínum við mannráninu og sögu fjölskyldunnar. Jú, henni finnst þetta vera ævintýri en hún er bara barn og hana langar heim til mömmu. Allt er öðruvísi og það er spennandi en samt er fólk sem rænir barni glæpafólk. Vissulega er tilhugsunin um það að deyja að lokum ekki góð en þó er eitthvað við yfirbragð þessa fólks sem gerir ódauðleikann í það minnsta umhugsunarverðan. Umræðan um ódauðleikann er sömuleiðis fallega unnin og án þess að vera yfirdrifin, faðirinn, Angus Tuck útskýrir hinar neikvæðu hliðar fyrir barninu og reynir að leiða því fyrir sjónir hvernig heimurinn yrði ef allir lifðu að eilífu. Winnie horfir á flugurnar sem sveima í kringum hana og sér fyrir sér heim fullan af flugum sem aldrei deyja. Jesse er síðan fulltrúi lífsgleðinnar: honum finnst ódauðleikinn ekki byrði heldur tækifæri til þess að lifa lífinu til fulls. Og Winnie er dálítið skotin í Jesse.
Gyrðir Elíasson þýðir söguna afarvel og líkt og með fyrri þýðingar hans þá virkar þessi eins og hluti af hans höfundarverki fremur en aðkomuhlutur. Þeir sem þekkja verk Gyrðis geta strax séð hversu vel sagan fellur að hans eigin skrifum, sem einmitt oft fjalla um bernskuna, dulúð þjóðsögunnar, drauga og hægfara hljóðlátt líf.
Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2006