Beint í efni

Forngripasafnið

Forngripasafnið
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Rúnar er nýfluttur með pabba sínum í lítið þorp úti á landi, langt frá vinum sínum og fjölskyldu í höfuðborginni. Honum líst ekki of vel á þann ráðahag en þegar hann kynnist systkinunum Möggu og Lilla verður lífið á nýja staðnum strax mun bærilegra. Enn betra verður það síðan þegar við bætast heimssögulegar uppgötvanir þar sem hægt er að horfa á hluti úr fortíðinni fyrir framan sig og meðal þess sem birtist er stelpa frá löngu liðinni tíð sem virðist vilja segja krökkunum eitthvað mjög áhugavert.

Allir þessir spennandi hlutir gerast í Forngripasafninu, nýrri barnabók Sigrúnar Eldjárn, sem sögð er fyrsta bókin í þríleik þar sem Rúnar og vinir hans verða væntanlega áfram í aðalhlutverki.

Sigrún Eldjárn er einn reyndasti og vinsælasti barnabókahöfundur landsins. Hún hefur fyrir langa löngu skapað sér skýr höfundareinkenni, bæði með myndum sínum með textum annarra og samfléttun mynda við sinn eigin texta. Forngripasafnið ber öll þessi einkenni með bravúr, myndirnar eru afar fallegar og vandaðar og framsetning þeirra smekkleg og í stíl við söguefnið.

Sigrúnu tekst í þessari sögu, eins og svo mörgum hennar fyrri verkum, á við þjóðlega arfleið og miðlun hennar til nýrra kynslóða. Það verður þó aldrei til þess að fortíðarþrá, sveitarómantík og hvað þá einhver þjóðremba grípi um sig. Þvert á móti stillir hún upp nútímalegri heimsmynd barna sem lifa í fjölbreyttum og fjölmenningarlegum heimi. Sú heimsmynd liggur til grundvallar hjá börnunum þegar þau takast á við hluti sem tengjast arfi fortíðarinnar.

Fjölbreytileikinn er, eins og áður sagði, til staðar í þessu verki Sigrúnar, eins og mörgum hennar fyrri verkum. Þó að sögusviðið sé pínulítið þorp lengst úti á landi, þá er heimurinn allur undir. Magga og Lilla eru ættleidd frá öðru heimshorni, hin fjarlæga mamma Rúnars er alltaf eitthvað að flandrast um hina víðu veröld og sænskt vísindafólk mætir á staðinn, kennir lesendum Forngripasafnsins örfáa sænska frasa og prufukeyrir byltingar á heimsvísu. Allt eykur þetta á fjörið og ólguna í frásögninni.

Þá er alltaf gaman að bókum sem brjóta upp hefðbundin kynjahlutverk, láta strákinn stundum vera aðeins meiri skræfu en stelpuna og leggja meiri ábyrgð á föðurinn en móðurina innan einstakra fjölskyldna. Sérstaklega vegna þess að það endurspeglar veruleika lesenda bókarinnar og býr þá til örlítið mótvægi við allar þessar skelfilegu staðalmyndir hefðbundins barnaefnis með passívum prinsessum fyrir stelpur og aktívum aksjónhetjum fyrir strákana.

Sigrún beitir hugmyndaríki til þess að láta ævintýralegan söguþráðinn ganga vel upp. Persónugerð er með ágætum og frásagnarmátinn sömuleiðis. Frágangur  og uppsetning bókverksins sjálfs er síðan til stökustu fyrirmyndar. Forngripasafnið hittir því áreiðanlega í mark meðal fróðleiksfúsra krakka.

Sigurður Ólafsson, nóvember 2010.