Hér er komin út þriðja bókin um (ónefndan) forseta Íslands og ævintýri hans og í þetta sinn er svo sannarlega um að ræða ævintýri. Í þessari bók ákveður forsetinn loksins að skella sér í langþráð ferðalag því honum hefur verið boðið að vera viðstaddur krýningarhátíð foreldra prinsessunnar vinkonu sinnar í Noregi. Forsetinn er bæði spenntur og svolítið stressaður yfir þessu ferðalagi, því ekki aðeins er hann að fara í þessa fínu veislu heldur á hann sjálfur afmæli á meðan hann er í ferðalaginu. Hann hefur svolitlar áhyggjur af því að afmælið verði eitthvað misheppnað þar sem hann hefur ekki hjá sér allt það sem honum þykir vænst um, en það eru auðvitað meðal annars Halldóra ráðskona, pönnukökur og Bessastaðir.
Þegar komið er til Noregs og í höll prinsessunnar er margt um manninn og fína fólkinu parað saman í herbergi (sem er ansi góð hugmynd og skemmtileg tilhugsun ef raunverulegu kóngafólki væri parað svona saman í gistingu í veislum!). Forsetinn lendir í herbergi með Ómari frá Egyptalandi en hann er níu ára og prins. Ómar kann karate að eigin sögn og helling af sögum af úlföldum sem hann segir forsetanum við hvert tækifæri.
Höllin sem prinsessan, foreldrar hennar, amma og afi og langafi búa í er risastór og í henni endalausir rangalar sem auðvelt er að villast um. Þar er líka turn og kjallari og heill hellingur af herbergjum. Eftir því sem forsetinn kynnist höllinni og lífinu þar betur kemst hann að því að ekki er allt með felldu. Allir eru sísofnandi út um allt og hirðin öll eins og hún leggur sig þjökuð af langvarandi svefnleysi. Í ljós kemur að þetta er vegna ógurlegs hávaða í dreka sem heldur til í kjallaranum og enginn þorir að hafa afskipti af nema litla prinsessan. Það dettur heldur engum í hug að reyna að losa sig við drekann því það er jú fullkomlega eðlilegt að það búi dreki í konungshöll og svo eru líka allir of syfjaðir til að ná að hugsa svo langt. En forsetinn kemst að því að prinsessan á sér leyndarmál sem tengist bæði drekanum og gæludýrum konungsfjölskyldunnar sem langafi lét þau losa sig við. Langafi lenti nefnilega í sérlega óheppilegu slysi þar sem naggrísinn Eiríkur kom við sögu og þar sem langafi er elstur í höllinni og ræður gat hann bannað öllum að eiga gæludýr. Allir í höllinni sakna dýranna sinna ógurlega og forsetanum líst hreint ekki á blikuna. Hann ákveður að hjálpa prinsessunni að fá dýrin sín aftur og hann hjálpar henni alveg óvart að gera eitthvað í þessu drekamáli í leiðinni.
Fyrri bækur Gerðar Kristnýjar um forsetann á Bessastöðum og prinsessuna vinkonu hans hafa slegið í gegn meðal ungu kynslóðarinnar og verið vinsælar bæði hjá strákum og stelpum. Þetta er auðvitað engin venjuleg prinsessusaga og aðalpersónan er eftir sem áður (ónefndur) forseti Íslands sem er ferlega hress og skemmtilegur og alveg einstaklega einlægur og góður. Frásagnarstíllinn er eins og forsetinn, léttur og hressilegur og myndirnar eftir Halldór Baldursson eru skemmtileg viðbót við söguna og glæða hana enn meira lífi. Hér leikur Gerður Kristný sér með ævintýraminni svo sem drekann í kjallaranum og sofandi hirðina en beitir þeim á afar nýstárlegan hátt.
Ég á ekki von á öðru en að Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf verði álíka vinsæl og fyrri bækurnar um forsetann, enda allt í senn fyndin og leyndardómsfull, svolítið ógnvekjandi og spennandi og alveg hreint bráðskemmtileg.
María Bjarkadóttir, nóvember 2011