Beint í efni

Frostfiðrildin

Frostfiðrildin
Höfundur
Linda Vilhjálmsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

nú veit ég það loksins
elskan mín

veit að hamingjan
er eins og æðardúnn

sem svífur
í loftinu á milli okkar

Svona hljómar fyrsta ljóð ljóðabókarinnar Frostfiðrildin eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Línan er strax lögð, annarsvegar fyrir þá þráhyggjublöndnu ástríðu sem einkennir ljóðin og hinsvegar fyrir þema ‘vetrar’kuldans með tilheyrandi frosti og snjó, en samkvæmt ævintýrinu er snjórinn dúnn sem kemur þegar gæsamamma hristir sængurnar sínar.

Undanfarin ár hafa ljóðabækur í formi einhverskonar sögu verið að sækja í sig veðrið og eru Frostfiðrildin gott dæmi um þessa tísku. Ósjálfrátt vakna spurningar um hvort þetta sé leið ljóðsins til að ná til fleiri lesenda - þeirra sem vilja skáldsögur eða frásagnir, en óneitanlega eru margar þessara bóka nokkuð aðgengilegri, ef svo má segja, en hinar ‘hefðbundnari’. Á hinn bóginn má líka vel halda því fram að hér sé einmitt um að ræða afturhvarf til hefðar, gullaldartímabila bókmenntanna þegar ljóðabálkar sem sögðu sögur voru hið viðtekna. Hvernig sem það nú allt er þá er það mín skoðun að þessi tilhneyging til heildarmyndar og frásagnar sé ánægjuleg, og í höndum meistaraskáldkvenna eins og Lindu Vilhjálmsdóttur, nær ljóðafrásögnin að fanga lesanda og búa um sig í hugskoti hennar.

Þetta er kannski sérlega eftirtektarvert í tilfelli einsog þessu þegar ljóðabókin, sem líkt og fyrsta ljóðið gefur til kynna, er einskonar ástarljóð, er ort til þjóðþekkts manns, og ég verð að játa að í fyrstu flæktist þingmaðurinn og mál(um)vöndunarsinninn nokkuð fyrir mér. En líkt og í skáldsögu sinni Lygasögu tekst Lindu fimlega að halda jafnvægi milli hins persónulega og hins almenna og eftir smá tíma gat ég óhikað tekið á mig hlutverkin tvö sem lýst er bókinni.

Eftir þetta fyrsta ljóð um æðardúninn rúllar sagan af stað, ljóð af ljóði, mynd af mynd: í næsta ljóði horfir ljóðmælandi á ástvin sinn sofandi og heldur “óhreina andanum / niðri í mér til að trufla ekki draumana þína”. En það dugir ekki til því hann er “lagður af stað / í huganum lagður af stað / yfir jökulinn lagður af stað”. Og þarmeð hefst þetta undarlega ferðalag sem vegur salt milli hins raunverulega og ímyndaða - eða réttara sagt, hins áþreifanlega og hins tilfinningalega. Þrátt fyrir að ljóðmælandi reyni að hemja manninn í rúminu þá er hann rokinn í ferðalag “og ég breiði sængina upp fyrir haus / það er hálft landið á milli okkar hjóna / hugsa ég hnuggin og heil árstíð að auki”.

Kraftmikið náttúrumyndmál hefur löngum einkennt ljóðmál Lindu og hér færir hún leik sinn með landslag og náttúruöfl í nýjan búning, þarsem takast á hið hversdagslega stef undirbúnings og þráhyggjukenndur ótti gagnvart ferðinni. Þegar ljóðmælandi tekur til matinn til ferðarinnar “virðist” hún “hafa / pakkað augunum / niður með sáraumbúðunum / og nú bíða þau eftir slysunum / í myrkrinu á botninum á bakpokanum”. Heimskautasleðinn minnir á líkkistu og hrafnshjartað safnar í sig kjarki - þó krummi blandist reyndar seinna “svartagallsrausinu / sem kraumar í barkanum” - og þannig brunar lesandi áfram í gegnum tilfinningskala þeirrar sem bíður áhyggjufull heima og vorkennir sjálfri sér: “þætti ljóðrænna að glíma / við göfugri geðshræringar / ég nefni til sögunnar söknuð og sorg”. Húmorinn er aldrei fjarri og að vanda beinist kaldhæðni hans að ljóðmælanda sjálfum og þráhyggjunni. Í síðasta hlutanum fer ljóðmælandi í gufubað - á Laugavatni! - og þráhyggjan þiðnar; endirinn er síðan nokkuð dularfullur og þó hann sé vissulega rauður, þá er það ekki endilega í anda rauðu ástarsagnanna.

Það er dálítið fyndið að velta fyrir sér þeim hugrenningartengslum sem vakna við lestur bókarinnar, en óneitanlega er ekki hjá því komist að Íslendingurinn, alinn upp á sögum af hrakningum á heiðavegum, hugsi til slíkra sagna, enda er greinilega verið að kallast á við þær. Veður eru alltaf válynd uppi á hálendinu, jafnvel um hásumar, og svo er að sjálfsögðu reimt. Hér leikur skáldkonan sér með þessar hefðbundnu ímyndir hins hetjulega karlmanns sem tekst á við náttúröflin og hræddu konunnar sem kveður ferðalanginn (“ég kveð með þvílíkum örlagabrag / að hraustustu menn missa móðinn”) og bíður svo heima og hugsar til hans (“samt slæ ég upp tjaldi í skjólgóðu / hugskoti og breiði út pokann þinn”). Hin kunnuglegu kynhlutverk verða kómísk, ekki síst með tilliti til þess að ferðalagið gæti fullt eins verið tilfinningarússíbani ljóðmælanda, myndhverfing fyrir aðskilnað - enda byrjar ferðin í draumi æðardúnsins.

Linda Vilhjálmsdóttir er ein þeirra skáldkvenna sem hefur farið sér hægt í útgáfu, hún á að baki fjórar ljóðabækur og eina skáldsögu, en þessutan hefur hún sent frá sér ljóðverk og hljómorð. Þessi hógværa útgáfa kemur þó ekki í veg fyrir að Linda sé búin að skipa sér í flokk okkar bestu rithöfunda og Frostfiðrildin eru afarfalleg sönnun þess, bókin sjálf er nett og fínlega hönnuð og lætur afskaplega lítið yfir sér, en innihaldið er hinsvegar hvorki hógvært né látlaust, þar býr bæði kímni og kraftur.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006