Beint í efni

Furðustrandir

Furðustrandir
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Það fylgir því alltaf töluverð eftirvænting að fá í hendur nýja bók eftir Arnald Indriðason og ekki dregur það úr eftirvæntingunni að nú eiga lesendur von á að fá að vita hvað kom fyrir Erlend þegar hann hvarf.

Í þessari nýjustu bók Arnaldar segir frá ferðum Erlendar Sveinssonar austur á æskuslóðirnar. Hann hefst við í hálfhrundu eyðibýli foreldra sinna og gengur á fjallið Harðskafa, enn heltekin af hvarfi bróður síns mörgum áratugum fyrr. Hvarf bróðurins er ekki eina mannshvarfið sem vekur áhuga Erlendar, hann fréttir af hvarfi konu frá Eskifirði sem hafði ætlað að ganga til Reyðarfjarðar veturinn 1942 en lent í óveðri og aldrei neitt spurst til eftir það. Í sama óveðri lenti sjötíu manna hópur breskra hermanna í vandræðum á þessari leið, sem lauk með því að átta þeirra fórust. Eins og oft áður notar Arnaldur hér sögulega atburði sem grunn að verkinu. Hrakningar bresku hermannanna er söguleg staðreynd og auka þeir því trúverðugleika hinnar skálduðu sögu Matthildar, konunnar sem hvarf frá Eskifirði í þessu sama óveðri. Hermennirnir fundust hins vegar allir og eftir stendur því spurningin um hvað kom fyrir Matthildi. Eins og gefur að skilja eru ekki margir til frásagnar um þennan löngu liðna atburð en forvitni Erlendar er vakin og hann tekur að rannsaka málið upp á eigin spýtur.

Erlendur er hér einn á ferð, það á að heita svo að hann sé í fríi og eins og dyggir lesendur Arnaldar vita eru kollegar hans, þau Elínborg og Sigurður Óli, önnum kafin við að leysa morð og nauðgunarmál í Reykjavík á sama tíma. Sögutími Furðustranda er sá sami og Myrkár, sem út kom 2008 en hér er ekkert lögreglugengi að eltast við morðingja  heldur hverfist þessi saga algjörlega um Erlend, hans tilveru og hugarheim. Það eru ekki margar persónur sem koma við sögu, þær sem Erlendur hittir og talar við eru nær undantekningarlaust hluti af ráðgátunni sem hann hyggst leysa.

Þema verksins er kunnuglegt, mannshvörf og þörf þeirra sem eftir sitja fyrir að skilja hvað gerðist og hvað kom fyrir ásvini þeirra. Eins og persóna Erlendar er uppbyggð skilur hann  þessa þörf aðstandenda manna best. Því fannst mér það galli á annars vel gerðri sögu, og ekki í samræmi við persónu hans, að hann skuli ekki segja systur Matthildar frá afdrifum hennar í lokin.

Sá Erlendur sem lesendur hitta fyrir hér er ekki sá sami og þeir eiga að venjast. Horfin er staðalmyndin af geðvonda lögreglumanninum sem hvorki getur látið sér lynda við samstarfsmenn sína né fjölskyldu en í staðin komin nærfærin lýsing á einmana manni sem leitar sátta við fortíðina.  Hugur hans er þungur þar sem hann rifjar upp æskuna og leitar svara við spurningunni um örlög bróður síns. Þunglyndi Erlendar endurspeglast síðan í frásögninni sem er hæg og stígandi og mörk draums og veruleika stundum óljós. Náttúran er hrjóstug og það er dimmt og kalt mest alla bókina. Arnaldur hefur fullkomin tök á þessum stíl og  lesandinn sogast inn í hugarheim Erlendar, nauðugur viljugur.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2010.