Beint í efni

Fyrirgefning

Fyrirgefning
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Þegar ég byrjaði að skipuleggja Stokkhólmsför í haust ákvað ég strax að lesa sænskar bækur í ferðinni, það er jú alltaf skynsamlegt að lesa á því máli sem maður þarf að tjá sig á þegar farið er til útlanda. Þegar bókin Fyrirgefning kom upp í hendurnar á mér gleymdi ég hins vegar allri skynsemi, skildi Håkan Nesser eftir á náttborðinu heima og flaug út með glænýjan íslenskan krimma í höndunum.

Í Fyrirgefningu hittum við aftur fyrir aðalsöghetjur fyrstu bókar Lilju, Spor (2009), þýðandann Magna og fyrrum eiginkonu hans, rannsóknarlögreglukonuna Iðunni. Þegar hér er komið sögu eiga þau von á barni og Iðunn er flutt heim til Magna, hins vegar stendur ekki til að endurnýja hjónabandið þó að Magni voni að þegar barnið fæðist muni Iðunn endurskoða þá afstöðu sína. Sem fyrr berst Magni við drauga alkóhólismans og setur sú barátta svip sinn á söguna. Hann er þjakaður af raunum þeim sem frá er sagt í fyrri bókinni, en fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Útgefandi einn hefur sett sig í samband við hann og beðið hann að skrifa viðtalsbók þar sem rætt er við fólk sem upplifað hefur eitthvað svipað, misst einhvern nákominn fyrir hendi ofbeldismanns eða sjálft komist í tæri við slíka misyndismenn. Ritstörfin verða til þess að hann hittir á ný nokkuð af því fólki sem hann kynntist þegar hann lenti í klóm raðmorðingja í fyrri bókinni. Á sama tíma og Magni hittir persónur væntanlegrar bókar sinnar og ræðir við þær rannsakar Iðunn dularfull dauðsföll. Magna fer að gruna að samband sé milli fólksins sem hann talar við og þessara dauðsfalla og þær grunsemdir leiða hann á fund sorgarhóps sem hittist í Hallgrímskirkju til að vinna úr sínum málum með aðstoð prests og sálfræðings.

Magni og Iðunn eru að mörgu leyti klassískt glæpasagnapar, en Lilja víxlar kynhlutverkunum frá því sem algengara er, til að mynda hjá Ericu og Patrik í sögum Camillu Läckberg og Þóru og Matthew í sögum Yrsu Sigurðardóttur, þar sem karlmennirnir eru löggur eða eins og hjá Yrsu, fyrrverandi lögga. Magna svipar á hinn bóginn til sænskra kvenkollega, til dæmis söguhetja þeirra Lisu Marklund og fyrrnefndar Läckberg, þær eru blaðamenn, hann er þýðandi og verðandi rithöfundur, taugaveiklaður og sveiflurnar á tilfinningaskalanum miklar. Hæfileikana í eldhúsinu sækir hann hins vegar frekar til ofursvala spæjarans Spencers sem Robert heitinn Parker skapaði og íslenska rannsóknarlögreglumannsins Árna í sögum Ævars Arnar. En þrátt fyrir breyskleikann, eða kannski vegna hans, þykir lesendum vænt um Magna og eins og áður segir tekst höfundi vel að skapa samkennd með honum og eiginkonunni fyrrverandi sem berst fyrir frama sínum innan karlaheims lögreglunnar, kasólétt og síþreytt.

Sögusvið Fyrirgefningar einskorðast að mestu við lítinn hluta Reykjavíkur en innri heimur sögunnar er mjög afmarkaður, hann miðast eingöngu við Magna og hans þrönga veruleika, allir sem hann hittir og talar við tengjast bókinni og glæpamálunum á einhvern hátt. Sagan er líka algjörlega tímalaust, það eru litlar skírskotanir til þjóðfélagsins sem persónurnar lifa í og engir sögulegir viðburðir nefndir. Þetta skilur eftir ákveðið tómarúm en undirstrikar um leið sjálfhverfan heim alkóhólistans sem sífellt á í baráttu við eigin veikleika.

Helsti galli sögunnar er þó, eins og þeirrar fyrri, hvað glæpurinn er fyrirsjáanlegur, reyndar svo mjög að ég átti erfitt með að trúa því að þetta gæti verið lausnin, að því leyti er sagan spennandi fram til þess síðasta, eins mótsagnakennt og það hljómar. Fyrirgefning er eins og áður sagði beint framhald af bókinniSpor sem út kom fyrir síðustu jól og lesendum sem ekki hafa lesið hana er eindregið ráðið frá því að lesa þessa á undan, þó ekki væri nema vegna þess að Magni talar mikið um þá reynslu sem hann varð fyrir og þar er lýst og nefnir morðingja fyrri sögunnar margoft á nafn. 

Í heildina litið er sagan vel heppnuð og skemmtilega skrifuð. Það verður forvitnilegt að fylgjast með Lilju og hvert persónur hennar stefna, því að allt bendir til þess að hún ætli að halda áfram á sömu braut. 

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2010.