Gæska, nýjasta skáldsaga Eiríks Arnar Norðdahls, hefði verið kölluð fantasía fyrir hrun. Gæska lýsir nefnilega atburðum og dregur upp myndir af ástandi sem fáir tengja við hæglátt hversdagslífið á Íslandi. Hæglátt hversdagslífið á Íslandi fyrir hrunadansinn allan, vel að merkja. Nú er nefnilega nær lagi að kalla ástandið á Íslandi í Gæsku Eiríks einhvers konar hliðstæðan veruleika. Það fer nefnilega allt á hvolf.
Gæska lýsir Íslandi á umrótstímum. Mótmælendur hertaka Austurvöll, íhaldssamur alþingismaður kiknar undan innri efa og hættir að mæta í vinnuna, aktívistar setja upp götueldhús fyrir svangan lýðinn, George Bush veifar útlimi dauðs hermanns í áróðursskyni á NATÓ-fundi inni á Hótel Borg og sjálf Esjan er eitt glóandi eldhaf. Óreiðan ríkir, valdamenn gærdagsins fara heim til sín og læsa sig inni í svefnherbergjum. Á meðan taka konur völdin. Upp virðist risin veröld ný og góð, eins og í Völuspá með fallandi fossum og örnum sem fljúga yfir og veiða fiska.
En lokahluti sögunnar er æsilegastur. 90 milljónir flóttamanna flykkjast til Reykjavíkur og proppfylla miðbæinn og næsta nágrenni. Hvað er þá til ráða fyrir örríki sem fyrir er með nærbuxurnar á hælunum?
Gæska Eiríks Arnar Norðdahls er áleitin bók og ferskur andblær í allri þeirri íslensku listsköpun sem nú sækir andagift sína í hrunið alræmda, en allt of stór hluti hennar hefur einkennst af andleysi og fyrirsjáanlegri retórík. Það má nefnilega margt um hann Eirík segja en seint verður hann sakaður um að vera fyrirsjáanlegur í verkum sínum, hvað þá að hann skorti ímyndunarafl!
Sérstaklega er vert að velta lokahluta bókarinnar fyrir sér í sambandi við taumlausa sjálfsvorkunn þess hluta Íslendinga sem helst vilja láta svo að tímabundnir fjárhagserfiðleikar Íslands geri það að verkum að sú röksemd sé blákaldur sannleikur að Íslendingar hafi það nú verra en flestir aðrir.
Þegar að 90 milljónir flóttamanna flykkjast til Íslands verður það nefnilega öllum dagljóst hversu vandamál gærdagsins, að redda einni fjármálakreppu, voru mikið smámál á við það að fæða og klæða tugi milljóna öreiga. Þetta er þó veruleiki sem blasir við bróðurparti heimsbyggðarinnar sem væri meira en til í að skipta út öllum sínum hörmungum fyrir eitt stykki Icesave-klúður.
Bók Eiríks er fjörug og kröftug þeysireið sem eiginlega yrði að vera animation-mynd (hvað heitir svoleiðis á íslensku?) ef hún yrði kvikmynduð. Svo sjónræn er bókin, litrík og margbrotin. Eiríki hefur aldrei tekist betur að nýta sér einn af sínum meginstyrkleikum, að búa til fljótandi sögusvið sem spilar mjög á skynjun lesandans. Ísland er orðið að alþjóðavæddu fyrirbæri þar sem framandi kringumstæðum er smokrað hér og þar inn í íslenskan hversdagsleika, eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Gæska er hins vegar ekki gallalaus. Stundum gekk mér, til dæmis, jafnilla og í fyrri skáldsögum Eiríks að ná sambandi við persónur hans enda hefur mér á tíðum fundist ófullkomin persónusköpun vera einn veikasti hlekkur hans skáldverka. Mér finnst karakterana oft skorta einhverja dýpt og að það vanti upp á afmörkun á milli ólíkra radda sem birtast í bókum hans. Dæmi um þetta er skyndileg innsýn ólíklegustu persóna bókarinnar í þau mismunandi þjóðarbrot, og einkenni þeirra, sem þeir eru allt í einu búnir þegar að straumur flóttamannanna í miðborg Reykjavíkur mætir þeim í fyrsta sinn.
Svo hefur mér, satt best að segja, líka þótt Eiríkur mega nostra meira við stíl sinna sagna. Það er erfitt að rökstyðja það í þaula í svona stuttum dómi en að einhverju leyti má tengja það við það sem fyrr sagði um afmörkun ólíkra radda sagnanna - mér finnst á köflum vanta aðhald og ramma utan um orðkynngina og ólguna sem ætíð kraumar í verkum Eiríks. Kannski að lögmálið um skipulagða kaos mætti taka ögn alvarlegar.
Þrátt fyrir þessa annmarka verður að segjast að Gæska er athyglisvert listaverk sem færir umræðuna og hugmyndaheim íslensku kreppunnar upp á æðra stig og verður vonandi uppspretta frjórrar umræðu um kreppur í víðara samhengi en innan níðþröngra ramma útreikninga um þjóðarskuldir og pólitísks karps um það hvort það var náhirð eða náskershirð sem setti Ísland á hausinn.
Sigurður Ólafsson, nóvember 2009