Hvern dreymir ekki um að kunna að galdra til að gera lífið aðeins litríkara og meira spennandi? Það væri stundum ekkert leiðinlegt og hin rammgöldrótta Dísa, sem er aðalpersónan í Galdra-Dísu eftir Gunnar Theodór Eggertsson, leyfir sér af og til að nýta krafta sína til þess að skemmta sér og öðrum. Hún passar sig samt að aðrir verði ekki varir við hæfileika hennar, því hún þykir víst nógu skrítin fyrir. Galdra-Dísa er önnur bókin um Dísu en í þeirri fyrri, Drauga-Dísu sem kom út fyrir tveimur árum, fengum við að fylgja henni í gegnum háskalegt ævintýri þar sem hún flakkaði í tíma og kynntist Íslandi í fortíðinni, barðist við skrímsli og seiðkarla og ýmislegt fleira. Hún lærði líka að nota krafta sína til góðs en kennarinn hennar, Þóra gamla, átti heima í fortíðinni og Dísa því nokkuð ein á báti í nútímanum með þessa óvenjulegu hæfileika sína. Hún hefði gjarnan viljað læra meira hjá Þóru en verður nú að reyna að klóra sig fram úr þessu öllu saman sjálf.
Þegar sagan hefst er Dísa komin í menntaskóla og er hálfgerður einfari. Hún finnur sig ekki alveg meðal jafnaldra sinna og hleypir engum of nálægt sér, enda er hefur hún séð og upplifað svo ótal margt sem aðrir geta varla einu sinni ímyndað sér. Þrátt fyrir að vilja oftast nær einangra sig frá skólafélögunum er Dísa meðlimur í rokkhljómsveit og stundum þegar hljómsveitin spilar á tónleikum galdrar hún upp sjónhverfingar til að auka á upplifun tónleikagestanna. Á einum tónleikunum gerist samt eitthvað undarlegt þegar Dísa er að galdra. Einhver ógeðsleg skuggavera birtist, púki, sem kallar fram hroll og óljósa ónotatilfinningu hjá Dísu. Púkinn ásækir hana og heldur áfram að birtast í hvert sinn sem hún galdrar. Dísa finnur að henni stafar einhver ógn af þessari óvætt og ákveður að halda göldrunum í algeru lágmarki til að hætta ekki á að kalla hana fram. Þegar hún kynnist flóttastúlkunni Kíönu, sem flúið hefur stríðsátök í heimalandi sínu Gambelíu, snýst henni samt hugur og hún finnur að hún verður að nota galdra sína til að hjálpa Kíönu og löndum hennar. Ástandið í Gambelíu virðist algerlega í hnút og engin lausn í sjónmáli fyrir íbúana, en Dísa fær hugmynd um hvernig hún geti orðið að liði. Hugmyndin felur í sér öflugan galdur og þá líður ekki á löngu fyrr en púkinn fer að gera aftur vart við sig, og hann er mun hættulegri en Dísa gerði sér grein fyrir.
Sagan sækir innblástur til ýmissa átta, í Íslandssöguna og frásagnir af göldrum, í Ísland samtímans með ýmsum vísunum í nútímamenningu og stríðið í Gambelíu og aðstæður Kíönu sem flóttamanns á Íslandi minna um margt á það sem við lesum um í dagblöðum eða sjáum glefsur af í fréttum. Dísa veltir því fyrir sér hvað hún geti gert til að hjálpa til en svörin sem hún fær eru niðurdrepandi. Kerfið er allsráðandi, bæði á Íslandi og í Gambelíu, og þó það sé með mjög ólíkum formerkjum virðist það alltumlykjandi og illviðráðanlegt. Heimurinn sem er dreginn upp í sögunni er afskaplega sannfærandi og heildstæður. Lýsingar á umhverfinu í Gambelíu, átökunum sem Dísa verður vitni að og þeim sem henni er sagt frá ásamt samskiptum persóna eru allar mjög vel gerðar. Fortíð og nútíð Dísu, Kíönu og Gambelíu eru listilega vel fléttaðar saman og goðsagnakenndar frásagnir af fortíð Gambelíu mynda skarpa andstæðu við nútíma Dísu.
Átök góðs og ills eru í fyrirrúmi í sögunni en gott og illt eru ekki eins augljósir pólar og þeir virðast í fyrstu. Stundum geta þeir sem eru góðir líka gert afdrifarík mistök eða tekið illa ígrundaðar ákvarðanir sem hafa hrikalegar afleiðingar. Dísa, sem hefur barist við tröll og seiðskratta, áttar sig líka á því að skrímsli þarf ekki endilega að líta hræðilega út; mennsk skrímsli eru í raun mikið verri en galdraverur, því mennsk skrímsli „geta falið sig á bakvið hvernig andlit sem er“ (bls. 203). Mörgum siðferðilegum spurningum er varpað fram út frá atburðum sögunnar, um ábyrgð og afleiðingar og um rétt og rangt. Spurningarnar eru margar hverjar áleitnar og það rennur upp fyrir Dísu að hún er kannski ekki eins saklaus sjálf og hún hélt í fyrstu. Göldrunum fylgja nefnilega bæði völd og stórkostleg ábyrgð, sem hún hefur ekki tekið mjög alvarlega fram að þessu. Nú þarf hún ekki aðeins að takast á við illa púka og valdasjúka herforingja heldur sína eigin samvisku þegar henni verður ljóst að allt tengist, sagan er endalaus keðjuverkun og einföld athöfn getur haft áhrif langt inn í framtíðina.
Galdra-Dísa er flókin og úthugsuð, margir þræðir fléttast saman og mynda virkilega vel unna og spennandi sögu. Á kápu bókarinnar kemur fram að hún sé sjálfstætt framhald af Drauga-Dísu og þó að sagan geti vissulega staðið ein tengjast þær töluvert: með því að lesa fyrri söguna líka fæst aukinn skilningur á þeim atburðum sem Dísa þarf að leysa úr og því hvernig hún bregst við þeim. Sagan krefst fullrar athygli við lesturinn, sem er ekki erfitt því hún er mjög grípandi og auðvelt að sökkva sér í lesturinn. Hér er á ferðinni alvöru fantasía sem vekur lesandann til umhugsunar og skilur mikið eftir sig.
María Bjarkadóttir, desember 2017