Þeir eru ekki gamlir, bræðurnir og aðalsöguhetjur Gásagátunnar. Sá eldri er tólf ára og yngri bróðir hans er tíu. Þeir heita Kolsveinn og Kálfur og eru komnir til Gása frá Grímsey, bæði til að selja fálka sem þeir hafa fangað og svo ætlar Kolsveinn að hefna föður síns en fylgismenn Guðmundar biskups góða drápu hann. Sagan gerist árið 1222, á tíma Sturlunga, en þeir koma einmitt við sögu því þeir bræður vingast við Þórð kakala og Sturlu Þórðarson sem eru þá á svipuðum aldri. Þeir passa vel saman, Kolsveinn er maður athafna en fárra orða en Kálfur er ekki mikill hasarhetja, hann hefur þeimmunmeiri áhuga á menntun og dreymir um að verða prestur. Hann hlustar heillaður á sögur Snorra Sturlusonar og saman eru þeir Sturla Þórðarson fullkomnir sveimhugar andstætt Kolsveini og Sighvatssonum sem hugsa aðallega um bardaga og sverð.
Í sögunni er því að finna ýmsar tengingar við sögutímann, átökin um Guðmund góða eru auðvitað mikilvægur hluti, en hann er færður til Gása í böndum. Að auki er lýst hversdagslegri athöfnum eins og knattleik, sem er látinn leika stórt hlutverk í sögunni, væntanlega til að skapa henni alþýðlegra yfirbragð og jafnvel með tilvísun í vinsældir íþróttaleikjanna í Harry Potter bókunum. Gátan sjálf felst í því að fálka bræðranna er stolið auk þess sem tjald austmanna er rænt, en böndin berast að Kolsveini sem óvænt flækist í málið.
Mikil áhersla er lögð á að hafa allar lýsingar á umhverfi, aðbúnaði, mataræði og fatnaði sem nákvæmastar enda er bókin styrkt af ýmsum aðilum sem koma að minjavörslu og rannsóknum og er útgáfunni greinilega ætlað að kynna menningararfinn á aðgengilegan hátt fyrir ungum lesendum. Það tekst ágætlega, texti Brynhildar er lipur, hæfilega fornlegur og atburðir sögunnar ágætlega æsilegir. Persónurnar, sérstaklega þó Kálfur, eru lifandi og áhugaverðar. Ungur aldur þeirra er fullkomlega eðlilegur í ljósi sögunnar - og Sagnanna - og áreiðanlega áhugavert fyrir unga lesendur í dag að spegla sjálfa sig í ólíkum viðhorfum til aldurs á ólíkum tímaskeiðum sögunnar.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009