Beint í efni

Geislaþræðir

Geislaþræðir
Höfundur
Sigríður Pétursdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ragnhildur Blöndal

Mér finnst alltaf skemmtilegt að fá bók eftir nýjan höfund í hendurnar. Ætti að vera búin að læra að lesa ekki kápuna af of mikilli athygli áður en bókin er opnuð en hjá því verður varla komist.  Og á kápu Geislaþráða stendur skýrum stöfum: Sögur um samskipti. Ég verð að viðurkenna að það hvarflaði að mér að þetta væri illa dulin sjálfshjálparbók.

Sá ótti reyndist ástæðulaus. Í Geislaþráðum Sigríðar Pétursdóttur eru fimm líflegar smásögur um ókunnugt fólk sem sendir hvort öðru tölvupóst af ýmsum ástæðum.  Samskiptin ná yfir mislangan tíma, allt frá nokkrum dögum til nokkurra ára. Í sjöttu og síðustu sögunni skrifast hins vegar feðgar á yfir hafið. Samband þeirra hefst ekki með tölvupósti og síðasta bréfið markar hvorki þáttaskil í samskiptum þeirra né lífi. Að því leyti er sagan á skjön við hinar fimm sem brýtur lítillega upp heildarsvip bókarinnar.

Samskipti með tölvupósti er bráðskemmtilegt form á smásögum. Þar er það sú mynd sem hvor persóna um  sig kýs að draga upp af sjálfri sér sem snertir streng í brjósti viðtakanda og leiðir til gagnkvæms skilnings. Samband bréfritara þróast í afkima utan daglegs lífs, í leyniveröld sem aðrir hafa ekki aðgang að. Það þarf engan inngang, persónulýsingar eða aðdraganda. Í fyrsta tölvupósti er erindið borið upp, því er svarað og samband milli tveggja einstaklinga er komið á. 

Kynni  bréfritara verða nánari eftir því sem á líður. Lesandi hefur sama sjónarhorn og persónurnar en ef og þegar þær hittast í eigin raunheimi, er hann skilinn eftir útundan. Sögupersónurnar hafa eignast prívatlíf.

Skrifararnir tólf í sögunum sex eru á öllum aldri, af ýmsu þjóðerni og báðum kynjum. Þess gætir þó ekki í bréfum þeirra sem eru afar keimlík að stíl. Það er heldur varla hægt að hugsa sér erfiðara form fyrir persónusköpun en einmitt tölvupóst. Enginn dillandi hlátur, fjaðrandi göngulag eða þreytt andlit í spegli til að skerpa myndina af söguhetjunum; engir tómir ísskápar eða kertaljós til að ná réttri stemningu.

Þótt tónn bréfanna sé svipaður, eru söguhetjurnar ólíkar  og engar tvær sögur eins. Ung, barnshafandi stúlka kynnist gamalli konu á spjallrás, önnur skrifar ókunnugri konu af því að þær hafa fallið fyrir sama manninum, sú þriðja vill létta af sér leyndarmáli látinnar konu. Einn skrifar út af tölvuvandræðum, annar af því að hann skvetti málningu. 

Stundum hættir persónunum til að vera klisjukenndar, eins og til að leggja áherslu á hversu ólíkar þær eru, eða einmitt  til að gera klisjur að umfjöllunarefni. Í sögunni um mæðurnar tvær, föndrar og prjónar hlýlegi hálfhippinn, gerir grín að merkjavöru og styður búsáhaldabyltinguna. Það undirstrikar aftur á móti stífni og forpokun borgaralegu frúarinnar að hún tekur vandaða vöru fram yfir óvandaða, kann ekki að prjóna, leynir því ekki hvað henni finnst föndur ósmart og tekur að sjálfsögðu ekki þátt í mótmælum.

Stöku sinnum má lesa úr bréfunum óljós tengsl við einhvern úr öðrum sögum. Ég saknaði þess þá að fá  ekki fréttir af viðkomandi, vildi vita meira því þótt sögurnar væru á enda, var langt frá því að sögu persónanna væri þar með lokið. Hjá þeim eru spennandi tímar framundan.

Ragnhildur Blöndal, nóvember 2010