Beint í efni

Glæpasaga úr Epal

Glæpasaga úr Epal
Höfundur
Ragnheiður Jónsdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Mér er kalt og ég sé eftir því að hafa ekki klætt mig betur. Ég sé líka eftir að hafa ekki mætt fínni. Vinkonur mínar virðast hafa tekið daginn í að undirbúa sig, Rakel er glæsilegri en nokkru sinni fyrr og ég sé ekki betur en að Adda hafi farið í hárgreiðslu. (56)

Þetta hugsar Sunnefa við útför Kríu, bestu vinkonu sinnar. Kría var glæsileg kona,  flugfreyja og áhrifavaldur, en hafði skömmu fyrir dauða sinn lent í kulnun og farið að skvetta svolítið í sig og misnota lyf, enda glímdi hún við afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku. Kría skrifar færslu á Instagram, sem má túlka sem kveðjubréf sjálfsmorðingja, og þegar hún finnst sjórekin nokkrum dögum síðar eru spurningar um hvort „eitthvað saknæmt hafi átt sér stað“ ekki fyrirferðarmiklar.

Sagan hefst í Reykjavík í nóvember árið 2022. Þegar henni lýkur og það kemur í ljós hvað gerðist í raun og veru, þá hefur rúmt ár liðið.
 

Metnaðarfullar með flest á hreinu

Vinkonurnar fjórar; Sunnefa, Rakel, Adda og Kría urðu óaðskiljanlegar í Versló og héldu hópinn allar götur síðan, en þegar Kría birtir myrk skilaboð á Instagram og hverfur í kjölfarið eru þær rúmlega þrítugar.

Í stuttum, en nokkuð hnitmiðuðum köflum færist sjónarhornið á milli vinkvennanna sem eftir lifa. Þær segja frá sínu daglega lífi eftir missinn, rifja upp vináttusamband sitt við Kríu og reyna að henda reiður á hlutunum.

Hin látna Kría skipar stóran sess í hjörtum vinkvenna sinna. Hún hefur alltaf verið fallegust og flottust. „Hún var sú vinsælasta og lagði blessun sína yfir okkur hinar með útlitstengdum hrósum“ (52). Henni er líkt við gyðju, hún var „ómótstæðilega falleg og hafði svo töfrandi viðmót að það gat haft lamandi áhrif á fólk“ (120).

Vinkonurnar eru metnaðarfullar konur með flest sitt á hreinu. Eins og áður segir, þá gerðist Kría flugfreyja og áhrifavaldur. Sunnefa starfar sem sérfræðingur hjá tryggingafyrirtæki. Hún er í glasameðferð og óttast að Dóri sé farinn að líta í kringum sig eftir öðrum konum. Adda er sviðsstjóri á skrifstofu Alþingis, gift Ingvari, á barn og „bónusbörn“, annað þeirra trans. Rakel vinnur í markaðsdeild banka og það er komin þreyta í hjónaband hennar og Mareks. Þetta eru konur sem búa í Garðabæ, á Nesinu og í Vesturbænum. Þær fá sér léttvín eftir strembinn vinnudag, hugsa um líkamsrækt, föt og tísku, kaupa kertastjakana sína í Epal og eiga börn sem heita krúttnöfnum.
 

Það sem sagan er ekki

Blóðmjólk er óvenjuleg glæpasaga af mörgum ástæðum og hana mætti til að mynda skoða út frá því sem hún er ekki.

Hún hefur ekki rannsakandann / lögguna / lögfræðinginn / spæjarann í forgrunni. Það er afskaplega lítið leitað til lögreglunnar í þessari sögu, líkt og hún komi málinu varla við. Í raun mætti kannski segja að vinkonurnar þrjár séu í hlutverki rannsakandans. Í endurliti þeirra, því sem þær taka eftir, því sem þær hugsa og segja, leysist málið.

Annað sem er óvenjulegt í Blóðmjólk er að þar er nánast ekkert óhugnanlegt, viðbjóðslegt, draugalegt eða ógnvekjandi. Hér er Ragnheiður Jónsdóttir skemmtilega ólík mörgum af glæpasagnahöfundum síðari ára, sem hafa svolítið reynt að toppa hver annan í ógeði. Sífellt svakalegri pyntingar og viðbjóðslegra kynferðisofbeldi, auk þess sem dáin börn og afturgöngur þeirra sveima um sögurnar eins og þeim sé borgað fyrir það. Sagan Blóðmjólk er í takt við vinkonurnar Sunnefu, Öddu og Rakel; afskaplega hugguleg.

Sagan er skrifuð beint inn í samtímann. Hún gerist ekki á mörgum tímaplönum og/eða fæst við eitthvað skuggalegt úr fortíðinni. Það eru engin áratugagömul mannshvörf sem þarf að leysa. Í Blóðmjólk er kulnunarfaraldur og kórónuveiran er enn á meðal vor. Allir hlutaðeigandi einbeita sér að andláti áhrifavaldsins Kríu.

Blóðmjólk er ekki gagnrýnin á klíkur og spillingu í stjórnmálum, rasisma, kvenfyrirlitningu eða aðra galla í samfélagsgerðinni, eins og áberandi er til dæmis í nordic noir-krimmanum, heldur tekur hún frekar á yfirborðsmennsku, neysluhegðun og sumpart grunnhyggni þess fólks sem um er skrifað.
 

Óreiðan í sófanum

Í forgrunni sögunnar er því engin þunglynd rannsóknarlögga sem hefur sérstakt dálæti á sviðakjömmum (eða drekkur ótæpilega af viskíi vegna þess að konan hans fór frá honum) heldur er fylgst með daglegu lífi vinkvennanna þriggja frá því daginn sem Kría deyr.

Lesandi fær gríðarsterka tilfinningu fyrir þeim þjóðfélagshópi sem vinkonurnar tilheyra, enda er hvert smáatriði þaulhugsað og þetta fær mann oft til að skella upp úr, vegna þess að víst þekkir maður fáeinar „systur“ þeirra vinkvennanna í raunheimum. Einum makanum verður það t.a.m. á að hlusta á veðurfréttirnar á Rás eitt og Adda bregst við: „Rás 1? Í alvöru, Ingvar, þú ert náttúrlega áttræður, segi ég og pota flissandi í hann“ (77).

Þetta eru konur sem hafa  „ótrúlega næmt auga fyrir litum, formum og samsetningum“ (84) eru með öll réttu merkin úr Epal og fleiri verslunum sem eru „inn“ í dag, vitaskuld, til dæmis STOFF-kertastjaka og Elephant-stóla. Þær aka um á Audi og Teslu. Þær fara í ræktina, þær borða mozzarellasalat og drekka Prosecco á meðan mennirnir þeirra standa við grillið og ræða fjármálageirann, fótbolta og pólitík.

Það er lýsandi fyrir þennan hóp að það sem verður til þess að eiginmann Kríu grunar að ekki sé allt með felldu – að hún hafi ekki verið ein kvöldið sem hún lést, heldur sé maðkur í mysunni, er að púðarnir voru allir á víð og dreif í sófanum heima hjá þeim, en Kría var vön að hafa þá alltaf í röð og reglu. Vinkonunum er illa brugðið þegar þær heyra af þessu.
 

"Elsku Kría. Mikið sem heimurinn missti þegar þú fórst, hugsa ég og tárast undir silkigrímunni." (135)

Þessi saga Ragnheiðar Jónsdóttur hefur verið kynnt sem „skvísukrimmi“. Það hefur ennfremur verið gagnrýnt og spurt: Væri bók um þrjá karlkyns vini sem reyna að leysa gátuna um dauða fjórða vinarins kölluð gaurakrimmi? Líklega ekki, en Blóðmjólk hefur skýr einkenni skvísusagna og er jafnvel meiri skvísa en krimmi, eins og tilvitnunin hér að ofan ber með sér.

Eiginlega ætti að setja Blóðmjólk í járnkassa og grafa hana í jörðu, því hún er einstök heimild um líf nútímakvenna í Reykjavík. Kvenna úr ákveðnum kreðsum,  sem hafa áhyggjur af því að vera orðnar miðaldra þrítugar (lesið bara Twitter (X) ef þið efist um að svoleiðis fólk sé til!) en líka áhyggjur af stýrivöxtum og plastnotkun. Þær streitast við að elda „allt lífrænt og frá grunni“ og eru haldnar stöðugum frammistöðukvíða.

Og á þessum tímum – okkar tímum, eru samfélagsmiðlarnir mælikvarði á bókstaflega allt: „Undanfarin kvöld hafa víst sést mögnuð norðurljós á himninum, þau hafa ekki farið framhjá mér á Facebook“ (122).

Ragnheiður Jónsdóttir treystir ekki á sjokkeffekta í sínum skrifum. Þannig kemur lausnin ekki gríðarlega á óvart, þótt ekki sé hún alveg fyrirsjáanleg. Blóðmjólk er skemmtileg og léttleikandi glæpasaga fyrir fólk sem ekki vill láta koma sér úr jafnvægi. Þér er því alveg óhætt að fara með þessa bók í bústað með vinkonunum og lesa hana milli þess sem þú drekkur böbblí og hugsar um að þú sért nóg.


Þórunn Hrefna, desember 2023