Beint í efni

gráspörvar og ígulker

gráspörvar og ígulker
Höfundur
Sjón
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Í nýjustu ljóðabók Sjóns, gráspörvar og ígulker, verða staðir sem lesendur þekkja úr borgarlandslagi Reykjavíkur að vettvangi ljóða. Í meðförum skáldsins eru þeir þó sviptir raunsæislegu og hversdagslegu yfirbragði og verða að sviði drauma og goðsagna. Þetta á við um ljóðin „(hólavallagarður)“, sem er upphafsljóð bókarinnar, „(landsbókasafn)“ og „(reykjavíkurhöfn)“, sem birtast lesendum í köflum sem bera heitin „i“ og „ii“, og koma á milli tveggja lengri ljóðabálka, „danse grotesque“ og „draumkvæði úr suðurhöfum“. Í þessum þremur ljóðum eru staðirnir nefndir sínu nafni og ljóðið þannig rækilega staðsett í borgarrýminu sem verður í kjölfarið að ákveðnum ramma fyrir önnur ljóð bókarinnar. Hins vegar eru staðarnöfnin höfð innan sviga sem gefur tilkynna ákveðinn fyrirvara; staðurinn í ljóðinu er í raun draumaútgáfa þess staðar sem vísað er á og því aðeins til í huga ljóðmælanda.

Þá skal það tekið fram að lágstafir í titli bókarinnar hér fyrir ofan er ekki prentvilla heldur samviskusamleg skrásetning á heiti ljóðabókarinnar eins og það birtist lesendum. Enga hástafi er að finna í ljóðabók Sjóns, afar fáa punkta og greinamerkjasetningin einkennist öll af... ja, hvað skal segja, frjálslyndi. Þetta er að sjálfsögðu afar þekkt stílbragð innan ljóðahefðarinnar og tengir Sjón við menn á borð við franska skáldið Appollonaire, sem ákvað að fjarlæga öll greinamerki úr ljóðabók sinni Alcools rétt fyrir prentun hennar árið 1913. En það er fleira í ljóðabók Sjóns sem tengir hann við frönsk skáld og þær tengingar er ekki síst að finna í efnistökum sem minna um margt á viðfangsefni frönsku skáldanna sem tengd hafa verið táknsæisstefnunni – þar sem náttúran og umhverfið verður að uppsprettu margvíslegra tákna og vísa til merkingar sem bundin er við ímyndunaraflið, drauma og goðsagnir.

Symbólsk áhrif eru römmuð inn af titli ljóðbókarinnar. Gráspörvarnir eru fuglar sem sækja í tré og umhverfi, sem í íslensku samhengi minnir á skóg, á meðan ígulkerin eiga við um gróður hafsins og þær lífverur sem þar búa. Skógurinn kallast þannig á við hafið sem einmitt umlykur borgina. Í fyrrnefndu ljóði um Reykjavíkurhöfn hittir ljóðmælandi stúlku í höggmyndagarði Einars Jónssonar. Sá garður hefur ekki aðeins að geyma symbólskar og myndrænar framsetningar goðsagna, heldur einnig það sem á reykvískan mælikvarða gæti kallast vísir að dálitlum skógi. Parið gengur svo út úr höggmyndaskóginum, um íbúðahverfið í Þingholtunum, og endar við höfnina þar sem það fær sér göngutúr um hafsbotninn umvafin sjávargróðri.

Borgin í ljóði tengir Sjón enn og aftur við franska ljóðlist og hér er það Baudelaire sem verður að eins konar fyrirmynd. Baudelaire var borgarskáld sem orti ljóð sín út frá umhverfi nútímaborgarinnar sem varð til á nítjándu öld í Evrópu. Baudelaire skóp skáldinu þar að auki stað í borgarrýminu. Það átti að sitja við glugga í þakherbergjum nútímabygginga, sem á þeim tíma þóttu gríðarháar og gnæfa yfir stræti borginnar, og fylgjast með mannlífinu úr fjarlægð. Ljóðmælandinn í ljóðum Sjóns er aftur á móti ekki í neinni fjarlægð við samfélagið heldur einn af íbúunum sem lifir og hrærist í því um leið og hann verður fyrir áhrifum frá umhverfi sínu sem brýst inn í drauma hans á nóttunni. Það á til dæmis við um ljóðið „(landsbókasafn)“ sem er öðrum þræði lýsing á hálfgerðri martröð ljóðmælanda og gerist í lyftu í gamla safnahúsinu við Hverfisgötu. Lyfta þessi ferðast ekki aðeins lóðrétt, frá einni hæð til annarrar, heldur færist hún einnig lárétt og fer þvers og kruss um safnið sem minnir á fyrirbæri úr vísindaskáldsögu eða annarri fantasíu. Ljóðið er einnig óður til bókasafnsins, bæði til byggingarinnar sjálfrar en einnig til hjarta safnsins, þ.e. spjaldskrárinnar sem vísar til eignar safnins, sjálfra bókanna sem það geymir. Ljóðmælandinn lýsir því hvernig spjaldskráin getur tekið lesandann í óvænt ferðalag um undraheima bókmennta og lesturs, sem speglast í martraðakenndu ferðalaginu í lyftu bókasafnins í upphafi ljóðsins. Ljóðið bítur þannig í skottið á sér en það á einnig við um fleiri ljóð bókarinnar. Til dæmis ljóðabálkinn „danse grotesque“ þar sem lýsingar á ýmsum stöðum í umhverfinu birtast í upphafi og svo aftur í lok ljóðsins.

Sjón blikkar Baudelaire ansi kröftulega í ljóðabálknum sem fjallar um lík tröllvaxinnar konu en ljóðmælandi finnur það á þeim stöðum sem lýst er í upphafi ljóðsins. Segja má að tengslin við franska skáldið séu gefin til kynna í titli ljóðsins þar sem „danse“ minnir á „deka-dans“ en skáldskapur Baudelaire einkennist af gróteskum og dekadent stefjum hnignunar og hrörnunar. Eitt þekktasta ljóð hans ber til að mynda titilinn „hræ“ og lýsir rómantískum göngutúr elskenda sem rekast á lík konu sem er byrjað að rotna mitt í guðsgrænni og fagurri náttúrunni. Hér bregður Sjón á leik með þetta minni og sveipar viðfangsefnið þar að auki goðsagnakenndum blæ. Líkami tröllvöxnu konunnar er myndaður af líkum tólf kvenna og í stað þess að leyfa þeim að rotna og hverfa smá saman fá þau í lokalínum ljóðsins að endurholdgast í og stíga (deka)dans á þeim stöðum sem ljóðið lýsti í upphafi:

og það er dansað í skógarrjóðrinu
og það er dansað í útihúsinu
og það er dansað í skurðinum
og það er dansað í fjörunni
og það er dansað undir brúnni
og það er dansað á óplægðum akrinum
og það er dansað á svefnherbergisgólfinu
og það er dansað á botni slýmjúkrar tjarnarinnar
og það er dansað í neðsta kjallara bílastæðahússins

Ef líkin í ljóðinu eru fórnarlömb kynbundins ofbeldis má ímynda sér að þau fái nokkurs konar uppreisn æru í deka-dansi eftirlífsins sem skapar reimleika og minnir ærlega á (fyrrum) tilvist þeirra.

Ljóðabókin gráspörvar og ígulker birtist í kjölfar skáldsögunar Mánsteinn sem kom út fyrir tveimur árum og hlaut mikla og verðskuldaða athygli. Hún er enn fremur dæmi um sögu sem laðar til sín breiðan lesendahóp - frá menntaskólanemum til eldri lesenda. Þar varð Reykjavík einnig að sögusviði og rammaði inn gagnrýnið og áhugavert endurlit til fortíðar sem um leið skírskotaði til Reykjavíkur í samtímanum. Ljóðabókin sem hér um ræðir mun ef til vill ekki sæta eins miklum tíðindum og skáldsagan um Mána Stein en hún hefur engu að síður að geyma sterk höfundareinkenni Sjóns. gráspörvar og ígulker er margslungin og falleg ljóðabók sem þar að auki er fallega pakkað inn í snotrar umbúðir.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2015